— Morgunblaðið/Eggert
Talsmenn stjórnarandstöðu fundu að því á dögunum að fjármálaráðherrann hafi verið í fríi þegar mál sem undir hann heyrðu voru tekin til umræðu. Varð ekki betur séð en að þau lægju ljós fyrir. Reyndu fyrrnefndir að gera nokkurt mál úr þessum söknuði, sem bendir til að þeir hafi ekki úr miklu öðru að moða.

Talsmenn stjórnarandstöðu fundu að því á dögunum að fjármálaráðherrann hafi verið í fríi þegar mál sem undir hann heyrðu voru tekin til umræðu. Varð ekki betur séð en að þau lægju ljós fyrir. Reyndu fyrrnefndir að gera nokkurt mál úr þessum söknuði, sem bendir til að þeir hafi ekki úr miklu öðru að moða.

Alþekkt verklag

Frá tíð bréfritara í forsætisráðherrastóli minnist hann þess að fjármálaráðherrar hafi iðulega reynt að finna sér smugu í fáeinar vikur til að taka sér frí í janúar. Aðrir ráðherrar sóttust sjaldnast eftir fríi á þeim tíma, ætluðu þeir og áttu inni að hvíla sig með fjölskyldu heima eða erlendis. Þeir vildu, eins og flestir, fá að skjótast úr hinu daglega puði þegar veður var haganlegra hannað fyrir stuttbuxur og bol, hvort sem það var heima eða erlendis.

En ástæða þessarar sérvisku fjármálaráðherranna var skiljanleg þegar horft var út frá þeirra sjónarhorni á hverjum tíma. Enginn einn ráðherra hefur verið með annað eins starfsefni mánuðina á undan. Þeir eru á sinni vertíð, og í mokstri. Fyrst við undirbúning fjárlaga, síðan við kynningu þeirra inn á við og tryggja samstöðu og sátt og síðan út á við fyrir almenning, hagsmunaaðila og stjórnarandstöðu. Og við þau kaflaskil er iðulega farið í þrefalt maraþonþref við að „koma þeim í gegn“. Fjármálaráðherrann, hver sem hann var, á hverjum tíma, komst ekki hjá því að vera nánast orðinn alfræðirit um allt sem að frumvarpinu laut og gat að auki lýst þeim áhrifum sem það myndi hafa eða kynni að hafa, á þróun efnahagsmála þjóðarbúsins, fjármál heimila og einstaklinga, stöðu fyrirtækja í landinu og stöðugleika gjaldmiðilsins.

Þegar ráðherra víkur frá, og þá ekki síst verði hann staddur erlendis um hríð, er það væntanlega skeið bókað í ríkisstjórn og eins hitt hver samráðherra hans skuli fara með forræði mála hans. Þess er jafnan gætt við þetta mikilvæga formsatriði, að fjarvera af þessu tagi fari ekki á skjön við pólitískt valdajafnvægi í ríkisstjórn. Þess vegna er reynt að tryggja að flokksbróður eða -systur sé falið að gegna starfanum meðan á fjarvist stendur.

Það gera sér allir þingmenn fulla grein fyrir því, að varaskeifan, þótt góð væri, mun ekki vera með fingurgómana á öllum fróðleik úr fjármálaráðuneytinu. Geri menn sér leik að því að krefjast umræðu um tiltekið efni, þá verður sá sem gegnir að heyja sér viðbótarfróðleiks. Það er ekki vísbending um að sá sé ekki starfi sínu vaxinn. Þingmenn leitast því við að geyma sér andófið, þar til skipaður ráðherrann er kominn á ný á staðinn og getur staðið fyrir vandaðri umræðu af sinni hálfu.

Fordæmin sýna reglu en ekki vanrækslu

Í tilvikinu sem hér var undir lágu allar forsendur ljósar fyrir og mátti því lýsa afstöðu sinni til málsins þó að fjármálaráðherra væri aðeins viðstaddur að formi til. Það uppfyllti öll skilyrði.

Bréfritari gegndi iðulega starfi fjármálaráðherra fleiri eða færri vikur í janúar. Það var ekki mikil byrði af því, af framangreindum ástæðum. Staðgengillinn sást ekki meira en vant er í fjármálaráðuneytinu á þeim tíma, en þaðan komu ráðuneytisstjóri eða aðrir lykilstarfsmenn yfir í forsætisráðuneytið ef þurfti, sem var ekki oft, hvort sem það var til að svara fyrir eitthvert mál í þinginu, sem sjaldnast var stórmál, eða undirrita skjöl, bréf eða önnur erindi sem máttu síður eða ekki bíða heimkomu ráðherrans sjálfs.

Tilraun til upphlaups á þingi á dögunum vegna nánast hefðbundinnar fjarveru fjármálaráðherra á þessum vikum ársins, fór því fyrir lítið. Og þess má geta í framhjáhlaupi að fjármálaráðherrann var auðvitað áfram fjármálaráðherra, þótt samráðherra gegndi fyrir hann á heimaslóð, og hann gat því átt það til að svara spurningum fjölmiðlamanna eða annarra úr fríi sínu, margverðskulduðu, þótt flestir sæmilegir menn forðuðust að vera með ónot að óþörfu.

Varð 130 ára í vikunni

Ólafur Thors, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins um langt árabil, var fæddur 19. janúar 1892 og hefði því orðið 130 ára í vikunni sem er að líða.

Og það gefur gott tilefni til að hugsa til Ólafs, svo merkur þátttakandi sem hann var í íslenskri tilveru, og lét rækilega til sín taka og hafði meiri áhrif en margir ef ekki flestir samferðamenn hans. Ólafur var forsætisráðherra í 9 ár og rúma 8 mánuði á 21 árs timabili. Tvær stjórna hans voru minnihlutastjórnir sem eðli máls samkvæmt stóðu stutt við. Tvær stóðu í annars vegar tæp tvö og hálft ár og hins vegar rúmlega það. Ólafur stýrði Viðreisnarstjórninni sem hann stofnaði til í rétt fjögur ár, en sú stjórn sat lengur en aðrar stjórnir fram að því eða í tólf ár, undir stjórn þriggja formanna Sjálfstæðisflokksins, lengst Bjarna Benediktssonar.

Flokkur Ólafs Thors hafði mikið fylgi í tíð hans sem formanns, en brengluð kjördæmaskipan hafði löngum þau áhrif að aflið sem flokkurinn fékk frá kjósendum dugði honum ekki til réttmætra áhrifa á þingi.

Elskaður flokksforingi

Þótt Ólafur sæti svo lengi sem formaður flokks síns, eða í 27 ár, voru aldrei efasemdir um innan hans að best væri fyrir flokkinn að njóta forystu hans eins lengi og mætti. Ólafur mundi tímana tvenna í íslenskri pólitík. Hann var 12 ára gamall þegar Hannes Hafstein varð ráðherra í upphafi heimastjórnar. Hann naut dugandi foreldra og öflugs systkinahóps og samhentra ættmenna. Faðir hans óx af eigin afli og varð fjársterkasti maður landsins um skeið þótt á ýmsu gengi í upphafi þess tímabils. Ólafur tók, ásamt bræðrum sínum, virkan þátt í þeim mikla rekstri, uns stjórnmálin kröfðust allra krafta hans.

Í tilefni af aldarafmæli heimastjórnar á Íslandi árið 2004 var gefin út bókin Forsætisráðherrar Íslands í 100 ár og þar, eins og sjálfsögð venja stendur til, er „ráðherrann,“ á meðan hann var einn, talinn til þess hóps. Þar dregur Jakob Ásgeirsson, á þeim fáu síðum sem höfundum hlaut að vera ætlað, upp prýðilega mynd af Ólafi Thors, manneskjunni og stjórnmálamanninum. Þá hófst þingræði á Íslandi, segir Jakob, „þ.e. innlent framkvæmdavald varð ábyrgt gagnvart Alþingi. Sú bjartsýni og sá framfarahugur, sem fylgdi heimastjórninni og uppbyggingu atvinnulífsins – og birtist ekki síst í ljóðum Hannesar Hafstein – átti einkar vel við skapgerð Ólafs Thors.“

Trúverðugum ber saman um manninn

Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri Morgunblaðsins, skrifaði ævisögu Ólafs Thors, mikið verk og fróðlegt í tveimur bindum og til þeirra vitnar Jakob um „að Ólafur hafi erft bestu eðliskosti beggja foreldra – bjartsýni og hugsjónahita föður síns og varfærni móður sinnar, Margrétar Þorbjargar.

Jakob nefnir að það hafi jafnan verið talið eitt af mestu afrekum Ólafs Thors hversu vel honum fórst að halda hinum stóra flokki sínum saman. Hann vitnar til palladóma „Lúpusar“ (Helga Sæmundssonar): „Teygjan í Sjálfstæðisflokknum er mikil, en þræðirnir liggja allir í hægri hönd Ólafs Thors, og hann heldur fast og togar drjúgt, þegar honum þykir þess þurfa. Meginskýringin á samheldni Sjálfstæðismanna er þó vafalaust vinsældir Ólafs.“

Og Jakob hefur eftir Jóhannesi Nordal, sem var annar af tveimur aðal efnahagsráðunautum viðreisnarstjórnarinnar, að Ólafur „hafi vissulega getað verið harður í horn að taka, en hann hafi verið „óvenjunæmur fyrir því, hvernig mönnum leið í návist hans. Ef hann særði einhvern óvart með athugasemdum sínum, var hann fljótur að bæta úr því með einni eða tveimur setningum.

Jóhannes sagði Ólaf hafa verið vinnuþjark, „sérlega töluglöggur og með afbragðs gott minni.“ Og Jóhannes bætti við: „Hann tók allt, sem hann fjallaði um, föstum tökum.“ Og hann sagði enn: „ég tel hann mesta stjórnmálamann, sem ég hef átt samstarf við, og þann stjórnmálamanninn, sem mér hefur þótt vænst um sem manneskju.“

Lítil saga verður stór í minningunni

Mamma og amma bréfritara leigðu í nokkur ár risíbúð í fallegu og elskulegu húsi, Hólavöllum, sem var skrásett sem Suðurgata 20. Það hús átti Ingibjörg Guðmundsdóttir, ekkja Péturs Magnússonar, bankastjóra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Hún var falleg kona og bráðskemmtileg. Var upp um nokkra brekku að fara á milli húsanna númer 18 og 22 við Suðurgötu. Aðgengi að Hólavöllum var ekki síðra frá Garðastræti á milli húsa númer 45 og 43, en hús Ólafs Thors var númer 41. Bréfritari sá Ólaf Thors iðulega koma til og frá heimili sínu, stundum akandi með myndarlegum sveigjum undir stýri á snotri Buick-bifreið sinni og stundum var rölt niður á Austurvöll til að sjá blómsveig lagðan við stall Jóns forseta og hlýða á ræðu Ólafs Thors.

Og óvænt fékkst svo ógleymanlegt tækifæri til að heilsa og spjalla við foringjann og goðsögnina stundarkorn.

Til að gera stutta sögu langa

Þannig var að Ásgeir Pétursson sýslumaður kom til Ingibjargar móður sinnar að Hólavöllum. Ásgeir bað strákinn, sem þar var, að hlaupa með bréf út til Ólafs Thors, sem hann gerði glaður, nema hvað.

Ólafur kom röltandi niður stiga sinn, hnarreistur og brattur, með vindil í hendi í sínu myndarlega húsi og bauð strák inn og tók við bréfinu. Spurði því næst um nafn og hverra manna hann væri og hefur sjálfsagt ætlað að þar færi buri Péturs og Ingibjargar. Honum var óðamála svarað að það væri Ásta amma, sem leigði á Hólavöllum og við með og að hún hefði verið í Miðbæjarskólanum um leið og Ólafur sjálfur, enda jafngömul, og að Ólafur föðurafi og Lúðvík Norðdal læknir móðurafi hefðu báðir verið á fyrsta landsfundi Sjálfstæðisflokksins 1929 „og ég bar út Morgunblaðið í Barmahlíðinni“.

Tók Ólafur þessari rullu glaðlega og spjallaði hlýlega um efni ræðustúfsins.

Þrátt fyrir nokkuð langa endursögn og að alls ekki sé víst að þessi „leiðtogafundur“ hafi staðið nema í fáeinar mínútur, þá hefur, allar götur síðan, þótt miklu betra að hann fór óvænt fram heldur en ekki. Ekki síst eins og mál áttu eftir að þróast síðar á lífsleiðinni fyrir sendilinn.

Hitt er sjálfsagt óvarlegt að gefa sér að hinn þátttakandinn á þessum „heimssögulega fundi“ hafi sett hann á minnið og er þá skammtímaminnið sennilega einnig innifalið. En það breytir engu. Í þessu tilviki þarf ekki tvo til lengur.

Margir og miklir fundir hafa verið sóttir um langt skeið og stundum um langan veg, og þó vildi maður einna síst hafa lent í að missa af þessum, sem var þó bara yfir í næsta hús.