Svala Lárusdóttir fæddist 10. mars 1945. Hún lést 7. janúar 2022.

Útför Svölu var gerð 21. janúar 2022.

„Góð íþrótt er gulli betri“ voru einkunnarorð Svölu skólasystur okkar frá Bifröst vorið 1964. Kvöddum skólann okkar góða, héldum bjartsýn út á lífsins brautir, staðráðin í að gera okkar besta.

Engin tilviljun að Svala valdi sér þessi kjörorð. Íþróttir hafði hún áður stundað og hún hélt áfram að þeyta kúlu og kringlu lengra en skólasysturnar, og svei mér ef strákarnir lutu ekki margir hverjir líka í lægra haldi fyrir henni í kastgreinum og hástökki. Svona var Svala, ákveðin, sterk og klár.

Við völdum okkur svona mottó í brottfararbókina „Ecce Homo“ [Sjáið manninn], sem nokkur skólasystkin skrifuðu á grínaktugan hátt. Síða Svölu hófst á vísu eftir skólabróður okkar, Aðalstein Hermannsson, sem ég sá fyrir tilviljun að er fæddur á þeim góða stað Drangsnesi eins og Svala, aðeins mánuður á milli þeirra.

Mjög til náms er meyjan klók,

mörgum aftur fyrir skýtur.

Afar sjaldan upp úr bók,

augum fögrum Svala lítur.

Þrátt fyrir þessa lýsingu var Svala drífandi í félagslífinu og lét ekki síður að sér kveða þar en í öðru sem fylgir heimavist, þar sem reynir á hvern og einn. Þótt íþróttavöllur okkar hafi ekki verið merkilegur, var þó annar völlur Svölu afar þóknanlegur, dansgólfið í hátíðasal skólans. Þar var hún heldur betur í essinu sínu, sveiflaði strákunum í kringum sig, og þeir henni – frábær dansari.

Í ársbyrjun 1965 lá leiðin á skrifstofu Áburðarverksmiðjunnar, en þar unnum við nokkur skólasystkin, m.a. María Tómasdóttir. Hún á skemmtilegt bréf frá Svölu frá Englandsdvöl sumarið 1965, og skynjaði allmikla útþrá hennar á þessum árum. Sagðist ætla með nokkrum öðrum stelpum til Parísar og ekki búast við að ílendast lengi á Íslandi á næstunni „nema þá til þess að vinna mér inn smá pening“. En svo fór að skemmtilegi starfsandinn í Gufunesi dró farfuglinn til sín og Svala var þar við störf með okkur Maríu, Gunnari og Kristrúnu til ársins 1972. Árið 1969 tók þó útþráin völd og farþegar í Loftleiðavélum nutu glaðværðar hennar og glæsileika sumarlangt.

Þess sama nutum við bekkjarfélagarnir þegar við komum saman, Svala alltaf glöð, sagði skemmtilega frá og var prýðilega hagmælt. Stórt skarð er því höggvið í Bifrastarhópinn góða. Við bætist að nýlega var annar skólabróðir okkar burtkallaður, Sveinn Frímann Jóhannsson úr 1965-bekknum.

Svala, kær skólasystir, hefur stigið sinn hinsta dans. Svanfríður, enn ein kjarnakonan í bekknum, var samtímis Svölu á hóteli á Tenerife, og sá hana þar með góðum vini, Þór Guðmundssyni, svífa óþreytandi í dansi heilu kvöldin.

Því miður geta líklega ekki margir bekkjarfélagar fylgt Svölu í dag, hefðu án efa fjölmennt við útför hennar við eðlilegar aðstæður. Bót þó í máli að eiga þess kost að fylgjast með streymi frá athöfninni.

Fyrir hönd okkar leyfi ég mér að votta börnum hennar, fjölskyldum þeirra og Þór, vininum trausta, einlægar samhryggðarkveðjur. Bjart er yfir góðum minningum okkar um Svölu Lárusdóttur – hennar er sárt saknað.

Óli H.

Þórðarson

Á ungdómsárum tengjumst við oft vináttuböndum sem vara ævina á enda og þó að líði ár og tíð án þess að viðkomandi hafi hist er eins og síðasta samverustund sé rétt nýliðin.

Fyrir nær 60 árum settist hópur á skólabekk í Samvinnuskólanum á Bifröst sem útskrifaðist eftir tveggja vetra skólasetu vorið 1964. Flestir þekktust lítið sem ekkert innbyrðis en smátt og smátt mynduðust vinatengsl stórfjölskyldunnar á Bifröst. Þarna dvöldum við í tvo vetur, alla daga og allar helgar og eina skólafríið var jólafríið. Aðhald í námi var mikið en eigi að síður margs konar félagsstarfsemi, ýmiss konar klúbbar starfandi, kvöldvökur á laugardagskvöldum, skylduútivist í ákveðinn tíma hvers dags, boltaleikir og íþróttir, allir fundu eitthvað við sitt hæfi enda mikil áhersla lögð á að nemendur ræktuðu með sér félagsfærni.

Það var þarna sem ég kynntist Svölu sem var annar sessunautur minn báða veturna ásamt Steinunni Öldu sem sat hinum megin við mig sem var líka herbergisfélagi minn og tókst með okkur náin vinátta. Svala var kraftmikil, skemmtileg og glaðlynd, hafði stundað ýmiss konar íþróttir áður en hún kom á Bifröst, eins og hástökk og kúluvarp. Það hentaði henni því illa þegar henni fannst hún alltaf þreytt, varð móð við alla áreynslu og oft rjóð í framan. Fyrst um sinn hafði hún herbergi í einni kennaraíbúðinni og einhverju sinni fékk hún mig með sér í eins konar rannsóknarleiðangur í herbergið til að kanna hvort eitthvað væri að finna þar sem gæti orsakað þessi óþægindi. Nokkru síðar uppgötvaði hún að væntanlega hefði hún ofnæmi fyrir kisulóru sem bjó í íbúðinni. Þegar Svala komst inn á vistina gengu þessi óþægindi að mestu yfir og þróttur og lífsorka skilaði sér til baka.

Svala átti auðvelt með að setja saman vísur og ljóð og stundum þegar ég hélt að hún væri að hripa niður glósur í kennslustundum kom í ljós þegar hún ýtti að mér blaði að þar var komin skondin vísa eða fallegt ljóð. Kristrún sem sat fyrir aftan okkur var sérlega hagmælt og áttu þær til að kveðast á og var þá aðalvandinn að koma ljóðabréfum á milli borða án þess að kennarinn yrði þess var. Mér fannst þessi ljóðagáfa alveg óskiljanleg og dáðist oft að þeim vinkonum mínum.

Þessar þrjár nefndu vinkonur eru nú allar látnar.

Svala hugsaði vel um heilsuna og bar aldurinn einstaklega vel. Þótt við værum ekki í stöðugu sambandi var eins og forsjónin sæi til þess að við rækjumst saman á ótrúlegum stöðum og var þá lítt um málhvíldir. Oft á tíðum var hún þá með Þór vin sinn við hlið sér en þau hafa notið félagsskapar hvort annars til margra ára.

En tíminn líður og af og til kvarnast úr útskriftarhópnum sem hefur í áranna rás styrkt böndin með endurfundum. Nú hefur enn ein röddin hljóðnað og hlátur og viðmót Svölu geymum við sem eftir stöndum í minningunni.

Við Jóhannes vottum aðstandendum Svölu og Þór hugheila samúð.

Blessuð veri minning hennar.

Elín Sigurlaug

Sigurðardóttir.