Jöklakona Birgitta Björg á fjalli, hér við skilti nokkru fyrir neðan jökulinn sem sýnir hvar sporður og útlínur voru árið 1960. Ártöl og skilti í svipuðum stíl eru fleiri á þessum slóðum.
Jöklakona Birgitta Björg á fjalli, hér við skilti nokkru fyrir neðan jökulinn sem sýnir hvar sporður og útlínur voru árið 1960. Ártöl og skilti í svipuðum stíl eru fleiri á þessum slóðum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Jökullinn er á stöðugri hreyfingu og þeirri þróun þurfum við að fylgja eftir í okkar starfsemi,“ segir Birgitta Björg Jónsdóttir, rekstrarstjóri Into the Glacier .

Sviðsljós

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Jökullinn er á stöðugri hreyfingu og þeirri þróun þurfum við að fylgja eftir í okkar starfsemi,“ segir Birgitta Björg Jónsdóttir, rekstrarstjóri Into the Glacier . Fyrirtækið, sem er dótturfélag Arctic Adventures , stendur að baki ísgöngunum í Langjökli sem eru vinsæll viðkomustaður ferðafólks. Þegar best lét í ferðaþjónustunni komu þangað um 60.000 manns á ári og vonir standa til að þegar heimsfaraldur veiru er genginn yfir verði gestirnir enn fleiri. Til að svo megi verða þarf að fylgja þróun í náttúru og veðráttu vel eftir.

Minningar og sterk upplifun

Í þróunarstarfi ferðaþjónustu er mikilvægt að skapa nýjungar út frá því að fólk snúi til baka með jákvæðar minningar og sterka upplifun. „Við fáum hingað gesti víða að úr veröldinni og þegar fólkið jafnvel kemur hingað í heimsókn númer tvö vitum við að vel hefur tekist til. Formúlan er rétt, en þar eru náttúran, farartæki og góð fararstjórn lykilatriði,“ segir Birgitta.

Ísgöngin eru í norðvestanverðum Langjökli, ekki langt frá hábungu jökulsins sem er í 1.355 metra hæð. Á marghjóla ofurstórum fjallatrukkum, upphaflega þýskum hernaðartækjum, tekur akstur frá þjónustumiðstöðinni í Húsafelli að göngunum um það bil klukkustund. Er þá fyrst ekið eftir Kaldadalsvegi, svo farið um grófan malarveg að jökulsporði og síðan klifið upp hjarnbreiður að anddyri ganganna sem eru í 1.260 m hæð yfir sjávarmáli.

Mannvirki án hliðstæðu

Starfsfólk verkfræðistofunnar Eflu og Arngrímur Hermannsson fjallamaður hófu árið 2010 athugun á því hvort útbúa mætti ísgöng í Langjökli, eftir að hugmyndir um slíkt höfðu verið settar fram og kynntar. Verkefnið var nokkur ár í þróun og 2013 var samið um við fjárfestingarsjóð á sviði nýjunga í ferðaþjónustu á Íslandi að taka við keflinu. Snemma árs 2014 var svo hafist handa um að grafa göngin sem eru rúmlega 500 metra löng og mynda lykkju, 40 til 50 metra undir yfirborði jökulsins. Mannvirki sem þetta á sér ekki hliðstæðu í veröldinni, svo vitað sé.

Heimamenn úr Borgarfirði önnuðst gröft ganganna á sínum tíma og á þeim fjórtán mánuðum sem verkið tók mokuðu þeir um 5.500 rúmmetrum af snjó. Áður en að sjálfum munna ganganna kemur er fyrst farið um 150 metra langt yfirbyggt bogalaga fordyri. Þegar inn í íshöllina sjálfa kemur blasir við umhverfi sem minnt gæti á vísindaskáldsögu eða geimvísindi. Hér geta líka framkallast í huganum myndir sem til urðu við lestur á bók Frakkans Jules Vernes, Leyndardómum Snæfellsjökuls , ævintýrasögu margra kynslóða.

Giftingar í hvelfingu

Við hönnun ganganna þurfti sérstaklega að hugsa fyrir loftræstingu og góðri lýsingu, sem er skemmtilega útfærð í litasetningu.

Blár litur vatnsins er áberandi og tónar vel við ísgöngin, sem eru um margt dulúðugur staður. Inn af göngunum eru svo á nokkrum stöðum ranghalar, svo sem hvelfing eða hellir, þar sem um tugur giftingarathafna hefur farið fram og enn fleiri bónorð verið borin fram.

Á öðrum stað er afleggjari að stórri sprungu í jöklinum. Þar skammt frá er brú í gólfi ganganna yfir vatnselfi sem streymir í gegnum sprunguna. Öskulög eru áberandi í veggjum ganganna. Sérstaklega er eitt slíkt þar sem vekur athygli; biksvört rák vikurs úr gosinu í Eyjafjallajökli árið 2010.

Sumstaðar, sérstaklega á mesta dýpinu, fellur snjór fram og sígur. Þar þarf reglulega að moka út með smágröfum og öðrum tækjum.

Stórbrotin náttúra

„Ferðamenn hér spyrja margs um bráðnum jöklanna. Fólk er áhugasamt um þá þróun sem hér sést svo glöggt,“ segir Birgitta. Vekur hún í því sambandi athygli á skiltum sem sýna hvar útlínur jökulsins voru fyrr á árum. Undanhaldið á síðustu öldinni er hundrað metrar og af þeirri staðreynd má ýmsan lærdóm draga. Þannig er talið að ísgöngin verði horfin á núverandi stað eftir aldarfjórðung eða svo.

„Við þurfum að grafa okkur lengra undir jökulinn eftir því sem tímar líða. Þannig má viðhalda þessum einstaka stað svo komandi kynslóðir geti notið stórbrotinnar náttúrunnar hér,“ segir Birgitta Björg, sem hefur stýrt starfsemi Into the Glacier sl. tvö ár.

Umhverfið var heillandi

„Upphaflega kom ég hingað árið 2017 og var þá nemandi í vettvangsferð nemenda í ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Á leiðinni lentum við í svartabyl, ófærð og brasi áður en við komumst í göngin. Allt í þessu umhverfi heillaði mig og þegar ég kom í bæinn sendi ég bréf til fyrirtækisins og sótti um vinnu, sem ég fékk,“ segir Birgitta.

Í dag starfa 10-12 manns hjá Into the Glacier, við móttöku, akstur, viðhald ganganna og annað slíkt. Lagt er upp í ferðir frá Reykjavík klukkan átta að morgni, fimm daga vikunnar. Frá Húsafelli er farið á jökul kl. 12.30 og komið aftur til byggða um kaffileytið. Útlendingar hafa verið allsráðandi í þessum ferðum. Þær ættu þó vel að höfða til Íslendinga sem vilja kynnast landinu okkar góða, fjölbreytni þess og fegurð.