Vinkona mín ein mætti niður á Suðurlandsbraut og strunsaði fram hjá 150 manns, ekkert lítið áberandi með eldrauðan klút og regnhlíf í stíl, á leið í hraðpróf.

Mér finnst orðið dólgur svo skemmtilegt. Það er eitthvað svo mikill dólgur í því. Vissulega eru dólgar ekki skemmtilegir og langt því frá. Fólk með dólgslæti er auðvitað óþolandi. Við könnumst öll við flugdólga; það orð var fundið upp fyrir nokkrum árum og passar vel við ruddalega og dónalega flugfarþega. En nú á tímum kórónuveirunnar finnast alls konar dólgar: Grímudólgar, þeir sem neita að bera grímu, hólfadólgar, þeir sem svindla sér inn í önnur hólf í vinnunni, og raðadólgar, þeir sem svindla sér fremst í röðina í sýnatöku.

Mögulega var ég að búa þessi orð til núna.

Vinkona mín ein mætti niður á Suðurlandsbraut og strunsaði fram hjá 150 manns, ekkert lítið áberandi með eldrauðan klút og regnhlíf í stíl, á leið í hraðpróf. Það var þó ekki viljandi því nokkrum dögum áður voru raðir öðruvísi og gengið inn á mismunandi stöðum eftir því hvort um var að ræða hraðpróf eða PCR. Allavega, þar sem hún var komin inn og fram hjá öllum fannst henni svo vandræðalegt að snúa við að hún fór bara inn. Hún sagðist hafa gengið út með mikla raðskömm. Sem er líklega nýyrði, samanber smitskömm. Ég held að við sem fáum Covid upplifum nefnilega öll smá smitskömm. Ég lenti einmitt sjálf í því að fá blessaða veiruna og er nýbúin í einangrun þegar þessi orð eru rituð, eldhress allan tímann. En nokkrir vinnufélagar og nánasta fjölskylda lentu í sóttkví og urðu því að dúsa inni í fimm daga. En svona er lífið og þessa dagana eru yfir tuttugu þúsund manns annaðhvort í einangrun eða sóttkví og ekkert að fara að fækka!

Blessunarlega er ómíkron það veikburða kvikindi að langflestir fara létt í gegnum þetta. Nýjustu fréttir herma að fólk sé alls ekki að leggjast inn á spítala þrátt fyrir þúsundir smita á dag. Í raun er pestin nú ekkert verri en venjuleg flensa í versta falli. Það eru þá aðeins óbólusettir og allra viðkvæmustu hópar sem eru í einhverri hættu.

Ég myndi vilja spyrja óbólusett fólk hvort það bólusetti börn sín við ýmsum barnasjúkdómum, hvort það þæði bólusetningar þegar það færi til framandi landa? Ef svarið er já, af hverju ekki núna?

Þetta fer í taugarnar á mér og kannski ætti bara að kalla svona fólk bólusetningardólga!