Listaverk Veggmynd af tónlistarkonunni Elzu Soares eftir listahópinn Minas de minas crew, sem eingöngu er skipaður konum, prýðir hús í miðbæ Belo Horizonte í Brasilíu. Elza Soares lést í vikunni 91 árs að aldri.
Listaverk Veggmynd af tónlistarkonunni Elzu Soares eftir listahópinn Minas de minas crew, sem eingöngu er skipaður konum, prýðir hús í miðbæ Belo Horizonte í Brasilíu. Elza Soares lést í vikunni 91 árs að aldri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Söngkonan Elza Soares, sem nefnd hefur verið sambadrottning Brasilíu, er látin, 91 árs að aldri. Samkvæmt frétt BBC lést hún á heimili sínu í Rio de Janeiro af náttúrulegum orsökum. Á um sextíu ára ferli sínum sendi hún frá sér yfir 30 plötur.

Söngkonan Elza Soares, sem nefnd hefur verið sambadrottning Brasilíu, er látin, 91 árs að aldri. Samkvæmt frétt BBC lést hún á heimili sínu í Rio de Janeiro af náttúrulegum orsökum. Á um sextíu ára ferli sínum sendi hún frá sér yfir 30 plötur. Hún notaði tónlist sína til að berjast gegn kynþáttafordómum og hvers kyns annarri mismunun.

„Hin ástsæla og eilífa Elza er látin, en hún mun eiga sinn stað í tónlistarsögunni og hjörtum okkar og þúsunda aðdáenda á heimsvísu. Hún söng allt til enda,“ segir í tilkynningu frá fjölskyldu Soares.

Elza Soares ólst upp í fátækt og neyddi faðir hennar hana í hjónaband þegar hún var 12 ára og eignaðist hún sitt fyrsta barn aðeins ári síðar. Hún eignaðist alls sjö börn með fyrsta eiginmanni sínum, sem var ofbeldisfullur og lést þegar hún var 21 árs. Síðar giftist hún brasilíska fótboltamanninum Garrincha og voru þau gift í 17 ár.

Luiz Inácio Lula da Silva, fyrrverandi forseti Brasilíu, minntist Soares með þeim orðum að Brasilía hefði ekki aðeins misst kröftugustu rödd sína, heldur „einnig stórkostlega konu sem ávallt barðist fyrir lýðræðinu og góðum málefnum“. Fótboltastjarnan Pelé, sem lék með Garrincha á sínum tíma, lýsir Soares sem tónlistarlegri goðsögn.