Sýklalyfjaónæmi breiðist út og dauðsföllum fjölgar jafnt og þétt

Sýkingar af völdum svokallaðra ofurbaktería, sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum, drógu 1,2 milljónir manna til dauða árið 2019 samkvæmt nýrri úttekt, sem birt var í læknatímaritinu Lancet á fimmtudag. Sagði að þetta væri yfirgripsmesta mat, sem gert hefði verið á skaðsemi baktería, sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum. Niðurstaðan væri sú að rekja mætti fleiri dauðsföll til þeirra en alnæmis og malaríu. Í greininni sagði einnig að þessar bakteríur hefðu einnig komið við sögu í 3,86 dauðsföllum til viðbótar.

Hingað til hefur verið talið að ofurbakteríur myndu draga 10 milljónir manna til dauða á ári um miðja öldina, en höfundar greinarinnar telja að það gæti gerst mun fyrr.

Ástæðan fyrir því að bakteríur hafa þróað með sér ónæmi fyrir sýklalyfjum er gríðarleg notkun þeirra um heim allan, ekki bara til að lækna fólk, heldur einnig í landbúnaði.

Hér á landi eru nokkrir áratugir síðan farið var að tala um að draga þyrfti úr notkun sýklalyfja í heilbrigðiskerfinu. Í stað þess að grípa til þeirra í tíma og ótíma ætti ekki að gera það nema nauðsyn krefði. Með markvissum vinnubrögðum mætti halda útbreiðslu fjölónæmra baktería niðri á landinu.

Þessi frétt er stórmerkileg og hefði átt að vekja ugg og ótta. Hún gáraði hins vegar vart vatnið í fréttaflutningi fjölmiðla. Hvergi voru stofnuð teymi til þess að bregðast við. Enginn lagði til að setja allt á annan endann til þess að bregðast við þessari vá. Lyfjarisar hafa ekki tilkynnt að öllu öðru verði ýtt til hliðar til þess að ná tökum á ofurbakteríunni, sem er auðvitað ekki ein, heldur margar.

Lestur fréttarinnar um skaðsemi ofurbaktería leiddi hugann óhjákvæmilega að kórónuveirunni, sem með hléum hefur lamað heiminn og sett úr skorðum í hartnær tvö ár.

Engin ástæða er til að draga úr skaðsemi kórónuveirunnar. Rúmlega fimm og hálf milljón manna hefur samkvæmt opinberum tölum látið lífið vegna hennar frá því að hennar varð fyrst vart.

Þá hafa ýmsir reiknað út að það hljóti að vera vantalið með því að bera saman dauðsföll árin áður en faraldurinn skall á og eftir að hann kom til skjalanna og rekja mismuninn til veirunnar. Dánartíðnin vegna kórónuveirunnar er því sennilega mun hærri í heiminum en gefið hefur verið upp.

Þessa dagana er mikið rætt um það hvort viðbrögðin við nýju afbrigði kórónuveirunnar séu langt umfram tilefnið því að hún sé mun skaðlausari en fyrstu útgáfurnar og að auki er þorri þjóðarinnar nú bólusettur ólíkt því, sem var fyrstu misseri faraldursins.

Ef horft er til þess hvað margir hafa dáið beinlínis og óbeinlínis vegna baktería, sem sýklalyf bíta ekki á, vakna því ýmsar spurningar og kannski helst sú hvers vegna hún vekur ekkert uppnám.

Er ástæðan sú að við ráðum bara við að hugsa um einn faraldur í einu? Eða ræður úrslitum að ofurbakteríurnar virðast í sínu banvæna amstri hvergi setja heilbrigðiskerfi á hliðina? Hvað er áríðandi og hvað ekki?

Sýklalyfin ollu á sínum tíma byltingu í heilbrigðismálum. Skyndilega var hægt að ráða við sjúkdóma, sem áður höfðu stráfellt fólk. Læknavísindin höfðu sigrað. Það er ömurlegt ef nú blasir við að sá sigur sem vannst með sýklalyfjunum sé unninn fyrir gýg, einkum fyrir þær sakir að þau hafi verið ofnotuð.

Menn eru ekki fyrst núna að gera sér grein fyrir þeirri hættu sem blasir við. Svo gripið sé niður þá birtist árið 1998 viðtal í Morgunblaðinu við Karl Kristinsson, yfirlækni og prófessor við Háskóla Íslands, þar sem hann varaði við því að yrði ekkert gert myndum við brátt standa uppi sýklalyfjalaus. Árið 2016 sagði í fyrirsögn fréttaskýringar í blaðinu að sýklalyfjaónæmi væri ein helsta lýðheilsuváin í heiminum.

Vitaskuld er ekki ástæða til að skella heiminum í lás út af fjölónæmum bakteríum, en skaðinn fer vaxandi og það má á milli vera.