Þórína Baldursdóttir fæddist í Reykjavík 19. ágúst 1970. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu 3. janúar 2022.

Foreldrar hennar eru Baldur Aðalsteinsson, f. 7.7. 1943 á Borgarfirði eystra, og Guðbjörg Solveig Hjálmarsdóttir, f. á Ísafirði 20.4. 1944.

Þórína var þriðja í röð fjögurra systkina. Systkini hennar eru Hjálmar Elías, f. 30.10. 1966, Aðalsteinn, f. 5.4. 1968, og Soffía, f. 31.7. 1974. Eiginmaður Soffíu er Guðmundur Ingi Jóhannesson og eiga þau þrjú börn: Sylvíu, f. 1992, Alexander, f. 1996, og Gabríel, f. 2002.

Jarðarförin fer fram frá Landakirkju í dag, 22. janúar 2022, klukkan 13.

Í ljósi samkomutakmarkana er takmarkaður fjöldi í kirkjuna, en athöfninni verður streymt á www.landakirkja.is.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Elsku besta frænka mín, dýrmæta vinkona og bónussystir, hjarta mitt er í molum og ég sit hér enn og skil ekkert. Hvernig má það vera að ég sé að skrifa minningargrein um þig? Ég veit ekki hvernig lífið er án þín og ég vildi alls ekki þurfa að komast að því. Elsku besta mín, það var svo margt skemmtilegt planað, Búdapest, frænkuferðin, Bræðslan og langþráð þjóðhátíð. Ekkert verður eins án þín.

Takk fyrir að vera alltaf til staðar og takk fyrir allt sem þú kenndir mér, gerðir fyrir mig og með mér – kjaftastundirnar, handboltaleikirnir, ferðalögin og frystiklefinn þinn, kósíkvöldin, bíltúrarnir, hlátursköstin, gistipartíin þegar litla frænka bankaði á gluggann á leiðinni heim af djamminu af því það var svo langt út í Áshamar og alltaf vaknaðir þú og leyfðir lillunni að skríða upp í og lúlla hjá þér. Ykkar heimili hefur líka alltaf verið mitt annað heimili, ýmislegt brallað og ótal minningar, fimleikar á háaloftinu á Hólagötunni, kíkja smá rúnt á brúna skódanum og svo toppurinn á tilverunni – að fá að lúlla í gryfjunni hjá Þórínu.

Æi þetta er svo sárt og ég sakna þín svo mikið elsku besta mín, en ég verð ævinlega þakklát fyrir að hafa tekið skrefið og flutt heim í Paradís í október 2020 – þakklát fyrir allar dýrmætu gæðastundirnar sem við áttum í þessu blessaða Covid-ástandi en líka þakklát fyrir allar ómerkilegu hversdagslegu stundirnar við allt og ekkert sem eru í dag svo ótrúlega dýrmætar minningar. Ég er líka svo þakklát fyrir okkar einstaka samband. Ég, þú, Sossa og Sylvía – skytturnar fjórar sem höfum svo sannarlega brallað ýmislegt í gegnum tíðina! Það er risastórt skarð komið í litla hópinn okkar og óhugsandi verkefni fram undan að reyna að fikra okkur áfram í veröld án þín elsku besta okkar, en ég lofa að passa upp á lillurnar þínar.

Sofðu rótt elsku fallegi engillinn minn, ég elska þig alltaf og meira en mest.

Þín

Guðbjörg.