Borg er þéttbýli sem greinist frá bæ, þorpi eða hverfi vegna stærðar, þéttleika byggðar, mikilvægis eða lagastöðu, að því er fram kemur á Wikipediu. Strax upp úr aldamótunum 1900 heyrðist stundum talað um Reykjavík sem borg eða höfuðborg. Samt sem áður var hið opinbera heiti Reykjavíkurbær, bæjarstjórn, bæjarfógeti og svo framvegis. Frávik frá þessu var þegar embætti borgarstjóra var stofnað með lögum árið 1907 en ári síðar tók fyrsti borgarstjórinn til starfa. Hann var sem sagt kallaður borgarstjóri frá upphafi en ekki bæjarstjóri.
Á heimasíðu Reykjavíkurborgar er að finna stutta klausu um stofnun borgarstjóraembættisins. Þar segir meðal annars:
„Á þessum tíma var Reykjavík aðeins um tíu þúsund manna bær og því athyglisvert að kalla embættið borgarstjóra en ekki bæjarstjóra en það tengist líklega væntingum manna um hlutverk höfuðstaðarins og þann stórhug sem ríkti eftir að heimastjórnin komst á árið 1904.“
Seinna komu fleiri undantekningar. Embætti borgarritara var stofnað 1934 og borgarlæknis 1949. Árið 1962 tóku gildi ný lög um sveitarstjórnir og tveimur árum síðar var sett ný borgarmálasamþykkt fyrir Reykjavík. Með henni breyttist Reykjavík opinberlega úr „bæ“ í „borg“, að því er kemur fram á Vísindavefnum. Þá bjuggu ríflega 76.000 manns í Reykjavík en eru um 133.000 núna. Íbúafjöldinn skipti þó litlu í þessu samhengi, mun frekar staða Reykjavíkur sem höfuðborgar Íslands.
Áhrif frá Danmörku?
Þá var öllum embættis- og stofnanaheitum breytt nema nafni Bæjarútgerðar Reykjavíkur, borgarstjórn kom í stað bæjarstjórnar, borgarfógeti í stað bæjarfógeta og svo framvegis.Fyrst var kosið til borgarstjórnar árið 1962. Sjálfstæðisflokkurinn vann stórsigur; hlaut yfir 52% atkvæða og níu af 15 borgarfulltrúum. Óháðir bindindismenn höfðu hins vegar ekki erindi sem erfiði; fengu aðeins 2,4% og engan mann kjörinn. Geir Hallgrímsson var eftir sem áður borgarstjóri.
Vísindavefurinn telur að hugsanlega megi rekja tal um borgarstjóra svona snemma til danskra áhrifa þar sem Danir nota orðið ‚borgmester‘ þó að þeir tali raunar alls ekki um ‚borg‘ sem borg í íslensku merkingunni, heldur þýðir þetta höll eða kastali. „Raunar er ekkert orð í dönsku sem er notað sjálfstætt fyrir ‚city‘, Kaupmannahöfn er ‚by‘ alveg eins og Árósar og 5.000 manna bæir. Ef tala þarf um stórborgir segja Danir hins vegar ‚storby‘.“
Margar fámennari höfuðborgir en Reykjavík er að finna í heiminum en hún er í 164. sæti af 240 á lista sem Wikipedia hefur tekið saman. Peking er langfjölmennust, með yfir 21 milljón íbúa, síðan koma Tókýó, Kinshasa, Moskva, Jakarta, Seúl og Kaíró.
Hvergi finnast betri kaup
Þegar orðinu „Reykjavíkurborg“ er slegið upp á Tímarit.is er elsta heimildin úr blaðinu Reykjavík 11. ágúst 1908. Í því var svohljóðandi auglýsing: „Albúm og nálar. Hvergi skulu finnast betri kaup á ofantöldum munum þó leitað væri með logandi ljósi í allri Reykjavíkurborg.Virðingarfyllst.
Jóh. Ögm. Oddsson.“
Mögulega var hann fyrstur til að nota orðið á prenti.
Í Verkamannablaðinu árið 1913 er býsnast yfir því að lögregluþjónar fái ekki einkennisbúning sinn ókeypis. „[Það] er alveg sérkennilegt fyrir Reykjavíkurborg og á sér ekki stað í borgum erlendis, t.d. á Englandi, Þýzkalandi, Danmörku, Noregi eða
Svíþjóð.“
Þarna miða menn ekki lágt í samanburði sínum. Annað dæmi um stórhug Íslendinga á þessum tíma.
Í blaðinu Norðurland sama ár voru áhugaverðar vangaveltur um fyrirhugaða nýja borg við Skerjafjörð. Félagið, sem stóð að baki henni, hét The Harbours and Piers Association Ltd. (Hafnar- og byggingarfélagið Ltd.) og í stjórn þess voru Frederick Hinde málfærslumaður í Lundúnum, forseti, James Schott, hæstaréttarmálaflutningsmaður í Edinborg, og Einar Benediktsson sýslumaður.
Blaðið gerði því meðal annars skóna að verðækkun á landi gæti fljótt orðið mikil. „Skyldi svo fara mundi verða nauðsynlegt að mynda stærra félag til þess að ávaxta eign félagsins, því það er varla til of mikils vænzt að hin gamaldagslega Reykjavíkurborg, svo óhaganlega sem hún er sett á norðurströnd nessins, mundi þoka fyrir hinni nýju borg, sem með góðu trausti er búist við, að vaxa muni upp á suðurjaðrinum, og sem ráðgert er að kalla Reykjavíkurhöfn.“
Hvað varð eiginlega um þessa ágætu borg?
Jafnvel var rætt um borg og bæ í sömu andrá, eins og þessi frétt úr Vísi árið 1916 ber með sér:
„Það eru farnar að heyrast raddir um það, að Reykjavíkurborg sé illa bygð. Lítur svo út, sem menn vakni nú af vondum draumi – Smekkvísin og hagsýnin virðist nú vera nýfluttar til bæjarins.“
Borgin tekur kipp
Eins og fyrr segir verða vatnaskil upp úr 1960. Sem dæmi má nefna að íslensk blöð töluðu aðeins níu sinnum um Reykjavíkurborg árið 1961, ef marka má Tímarit.is, en 257 sinnum árið eftir. Sú tala var komin upp í 318 árið 1964. 55 sinnum var samtals talað um Reykjavíkurborg í íslenskum blöðum á sjötta áratugnum, 2.750 sinnum á þeim sjöunda.Í sveitarstjórnarlögum frá 2011 kemur skýrt fram að Reykjavík sé höfuðborg Íslands. Þar segir einnig að í Reykjavíkurborg nefnist sveitarstjórnin borgarstjórn, byggðarráð nefnist borgarráð, framkvæmdastjóri nefnist borgarstjóri og oddviti nefnist forseti borgarstjórnar.
Um önnur sveitarfélög segir: „Yfirstjórn hvers sveitarfélags nefnist sveitarstjórn. Heimilt er sveitarstjórn að nota heitið hreppsnefnd eða bæjarstjórn, enda styðjist slík málnotkun við hefð. Byggðarráð má á sama hátt nefna hreppsráð eða bæjarráð, framkvæmdastjóra má nefna bæjarstjóra eða sveitarstjóra og oddvita má nefna forseta bæjarstjórnar eða forseta sveitarstjórnar.“
Út frá þessu er vandséð að aðrir þéttbýliskjarnar geti skilgreint sig sem borg enda þótt fleiri búi nú í Kópavogi (38.500), Hafnarfirði (30.000), Reykjanesbæ (19.700) og á Akureyri (19.000) en í Reykjavík þegar byrjað var að tala um borgarstjóra 1907. Kannski þurfa þessi bæir að rjúfa 70.000 íbúa markið til að koma málinu á dagskrá.