Þingmenn fjögurra flokka hafa sameinast um frumvarp til laga um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2. Í greinargerð segir að með frumvarpinu sé lagt til að löggjafinn veiti heimild með lögum til framkvæmda við nauðsynleg flutningsvirki „á grunni lögbundins undirbúningsferlis, í stað viðkomandi sveitarstjórna, að því leyti sem viðkomandi sveitarstjórnir hafa ekki þegar veitt framkvæmdaleyfi. Verði frumvarpið að lögum er um að ræða sérlög er ganga framar almennum lögum er kunna að varða útgáfu framkvæmdaleyfa.“
Þá er bent á að í lögum sé ekki „tekið á því hvernig standa skuli að útgáfu framkvæmdaleyfis þegar framkvæmd, eins og Suðurnesjalína 2, fer í gegnum nokkur sveitarfélög. Gera gildandi lög ráð fyrir því að framkvæmdin sé háð sjálfstæðu framkvæmdaleyfi frá hverju sveitarfélagi fyrir sig. Getur þannig eitt sveitarfélag stöðvað framkvæmd þrátt fyrir að vera e.t.v. í miklum minni hluta.“
Enn fremur er bent á að Suðurnesjalína 2 sé þjóðhagslega mikilvæg framkvæmd en óviðunandi töf hafi orðið á málinu sem hafi velkst í kerfinu árum saman. Þess vegna telji flutningsmenn nauðsynlegt að grípa í taumana til að koma í veg fyrir frekari tafir.
Ekki þarf að fjölyrða um vandann í orkukerfi landsins. Hann skýrist meðal annars af þeirri miklu fyrirstöðu sem núverandi lagaumhverfi býður upp á. Þar til úr verður bætt eru sérlög af þessu tagi óhjákvæmileg.