Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Yfir 5.000 manns, eða 1.350 fjölskyldur, flúðu Heimaey á 52 bátum þegar eldgos hófst 23. janúar 1973. Aðrir fóru með flugvélum. Það er stærsta björgunaraðgerð Íslandssögunnar. Gosinu lauk 3. júlí sama ár. Á næsta ári verða 50 ár frá þessum tímamótaatburði en í Vestmannaeyjum miðast tímatalið við „fyrir og eftir gos“. Þá verða 60 ár frá Surtseyjargosinu 14. nóvember 1963 en því lauk 5. júní 1967.
Gossins í Heimaey verður minnst með margvíslegum hætti á afmælisárinu. Opnuð verður vefsíða 23. janúar 2023 þar sem saga gossins verður rakin og birtar merkilegar heimildir um flóttann mikla sem Ingibergur Óskarsson hefur safnað. Þar er skráð hverjir fóru með hvaða báti ásamt heimilisfangi í Vestmannaeyjum og fæðingarári.
Ómar Garðarsson og Atli Rúnar Halldórsson tóku við verkefninu á liðnu hausti. Þeir ætla að bæta verulega við, enda af nógu að taka. Til er fjöldi frásagna og gosið hafði áhrif á allt íslenskt samfélag og víðar. Vefurinn verður opnaður í heild sinni á Goslokahátíð í júlí 2023. Í verkefnastjórn með Ómari og Atla Rúnari eru Guðrún Erlingsdóttir, Guðbjörg Sigurgeirsdóttir og Helga Hallbergsdóttir. Páll Zóphóníasson, tæknifræðingur Vestmannaeyjabæjar á gostímanum og síðar bæjarstjóri, er ráðgjafi.
„Það er mikilvægt að heimildir um gosnóttina varðveitist og séu aðgengilegar komandi kynslóðum. Gosið er bara saga fyrir þeim yngri og hún má ekki gleymast,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. „Gosið hefur mótað okkur Vestmannaeyinga og flestir Íslendingar þekkja til gossins. Það er minnt reglulega á það í skólunum okkar, á Goslokahátíð og við gerum alltaf eitthvað hinn 23. janúar ár hvert.“
Vestmannaeyjabær og forsætisráðuneytið hafa undirritað viljayfirlýsingu um atburði á afmælisárinu. Stefnt er að sameiginlegum fundi norrænu forsætisráðherranna í tengslum við Goslokahátíð 2023. Afhjúpa á minnisvarða á Heimaey og halda málstofu um jarðeldana 1963 og 1973 í samvinnu við fræðasamfélagið, almannavarnir og fleiri.