Konráð Guðmundur Jakobsson fæddist á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði 13. maí 1929. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði 14. janúar 2022.
Foreldrar hans voru Guðbjörg Hansdóttir, f. 22. ágúst 1907 í Efstadal í Ögurhreppi, d. 16. júlí 1971, og Ásberg Magnús Kristjánsson, f. 21. apríl 1906 á Suðureyri í Súgandafirði, d. 28. apríl 1982. Kjörfaðir Konráðs var Jakob Gíslason, f. 3. des. 1897 í Gerði við Barðaströnd, d. 22. maí 1959.
Systkini Konráðs: Ásta Þ. Jakobsdóttir, f. 1930, d. 2014, Steinþór Jakobsson, f. 1931, d. 1996, Jakobína V. Jakobsdóttir, f. 1932, og Katrín S.H. Jakobsdóttir, f. 1934, d. 1935.
Systkini Konráðs samfeðra: Elsa K. Ásbergsdóttir, f. 1932, d. 2011, Ása B. Ásbergsdóttir, f. 1934, Olga M. Ásbergsdóttir, f. 1937, d. 2004, Kristján Á. Ásbergsson, f. 1943, og Auður E. Ásbergsdóttir, f. 1948.
Konráð kvæntist 25. desember 1958 Þórleifi Skarphéðinsdóttur, f. 2. nóvember 1939 á Djúpavík í Árneshreppi, d. 30. janúar 2020. Börn þeirra eru:
1) Helga, f. 1958, eiginmaður hennar er Sigmar Þór Óttarsson, f. 1955. Dætur þeirra eru Magndís Huld, f. 1982, og Ingibjörg Sólrún, f. 1989. Dóttir Magndísar og Lárusar Kjartanssonar, f. 1978, er Helga Marín, f. 2015. Stjúpdætur Magndísar eru Anna Kolbrún, f. 1997, Auður María, f. 2006, og Magnea Ósk, f. 2009.
2) Brynjar Jón, f. 1960.
3) Guðbjörg, f. 1965, eiginmaður hennar er Þorsteinn Birgisson, f. 1964. Sonur þeirra er Konráð Þór, f. 1991. Stjúpsonur Guðbjargar er Birgir Þór, f. 1985. Synir Birgis Þórs og Önnu Sigríðar Strange, f. 1985, eru Patrekur Victor, f. 2008, Ernir Orri, f. 2014, og Hróar Steinn, f. 2019.
4) Skarphéðinn, f. 1967.
Konráð bjó alla tíð á Ísafirði, lengst af á Seljalandsvegi 42 í húsinu sem hann byggði fyrir fjölskylduna árið 1958.
Konráð hóf störf hjá hjá Vélsmiðjunni Þór hf. árið 1946 og starfaði þar óslitið, m.a. sem skrifstofustjóri, til ársins 1973 að hann réðst til starfa hjá Hraðfrystihúsinu hf. í Hnífsdal. Hann var framkvæmdastjóri félagsins frá 1977, þar til hann lét af störfum árið 1999. Konráð gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir vestfirskan sjávarútveg og sat m.a. í stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva um árabil.
Konráð var frá unga aldri virkur í skátastarfi með skátafélaginu Einherjum á Ísafirði og ferðaðist víða bæði hérlendis og erlendis með þeim.
Konráð var mikill hesta- og útivistarmaður.
Útför Konráðs fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 22. janúar 2022, klukkan 14. Hlekkir á streymi:
Móðurbróður minn Konráð Jakobsson er látinn. Þegar horft er til baka er margs að minnast. Í mínum huga var Konni frændi alltaf rólegur, traustur og heiðarlegur. Þegar ég var barn og var að alast upp í Hraunprýði hjá ömmu og afa bjuggu systkini mömmu, Konni, Steini og Bína, á heimilinu. Konni er því mjög tengdur æskuminningum mínum.
Útivist var Konna frænda í blóð borin, þörf sem hann fullnægði að hluta með skátunum. Frændi minn var alla tíð mikill skáti og mjög stoltur af því. Með skátunum ferðaðist hann víða og stundaði fjallaferðir og útilegur. Ýmsa dýrgripi átti hann sem tengdust ferðalögum hans með skátunum, dýrgripi sem ég fékk að handleika með því skilyrði að setja þá á sama stað aftur. Ég hafði mikla unun af því að skoða myndaalbúmin hans og fá útskýringar á hverri einustu persónu sem þar var. Eftir að Konni fór að eignast börn sjálfur og þau fóru að handfjatla gripina hans, stundum ekki með sömu virðingu og ég hafði gert, pirraði hann gjarnan Leifu sína með því að segja „Gósý fór alltaf vel með munina mína og skilaði þeim á réttan stað“.
Hraunprýði æsku minnar var bóndabær. Konni hjálpaði allaf afa Jakobi með búskapinn í Hraunprýði. Því, eins og öðru, sinnti hann vel því allt sem hann tók sér fyrir hendur sinnti hann með alúð og einbeitni.
Konni frændi var mikill hestamaður og átti lengi vel nokkra hesta og hélt hesthús með vinum sínum. Skíðamaður var hann alla tíð og sinnti ýmsum félagsmálum fyrir skíðaíþróttina hér á Ísafirði. Skíðaævintýri Konna voru nokkur. Minnist ég sérstaklega þegar hann gekk yfir Drangajökul með vinum sínum og kom skaðbrenndur í framan til baka. Til margra ára fór hann til Austurríkis með systrum sínum og mökum þeirra á skíði. Við Tryggvi fórum einu sinni með dætrum okkar með hópnum. Konni frændi mætti þá alltaf fyrstur í lyfturnar á morgnana og hætti síðastur allra. Hann ætlaði nefnilega að nýta tímann vel. Mamma og pabbi fóru líka í margar ferðir um heiminn með Konna og Leifu í áranna rás og eru til mörg myndaalbúm af ferðum þeirra.
Konni og pabbi voru ágætis félagar og áttu það sameiginlegt að spila golf og tína ber. Margar ferðir fóru þeir saman á golfvöllinn og þegar fór að hausta fóru þeir til berja seinnipartinn. Mömmu og Leifu þótti nú stundum nóg komið af berjum en þeir héldu berjatínslunni áfram eins lengi og þeir gátu heilsunnar vegna.
Elsku Helga, Brynjar, Guðbjörg og Skarphéðinn og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur til ykkar. Megi góðar minningar vera ykkur styrkur í sorginni.
Guðrún Á. Stefánsdóttir
Guðrún Ásbjörg Stefánsdóttir
Hann gekk kornungur til liðs við Skátafélagið Einherja. Þar var ekki tjaldað til einnar nætur því hann var virkur í skátahreyfingunni í rúma sjö áratugi, sótti fjölda skátamóta innanlands og erlendis, fór í fjölmargar útilegur í skátaskálann Valhöll og missti ekki af útilífsferðum á Drangajökul og Hornstrandir. Konni var góður félagi og hélt uppi gamansemi og lífi í umræðum.
Eitt sinn leysti hann af sem sveitarforingi okkar ungra skáta og var sá tími eftirminnilegur. Þó að hann kynni öll skátafræðin þá var engin hefðbundin dagskrá. Ó nei, þá beitti Konni sérgrein sinni sem var að segja sögur, skondnar sögur úr ferðalögum sem vöktu glymjandi hlátur. Konni var sögumaður af Guðs náð.
En það verðmætasta sem hann lagði skátahreyfingunni til, sem hann unni, var án efa þegar hann, ásamt Jóni Þórðarsyni, stjórnaði ylfingasveit um árabil. Leiddu þeir yngstu kynslóðina inn í frumskóga Kiplings. Ég er þess fullviss að margir fyrrverandi ylfingar minnast Konna og Jóns með miklu þakklæti fyrir að leiða þá á þroskabraut.
Aðrir eiginleikar Konna voru án efa samviskusemi og nákvæmni og var honum m.a. trúað fyrir fjármálum og bókhaldi félagsins ásamt að vera aðstoðarfélagsforingi. Það er til marks um gamansemi hans að hann sagði að foringinn hefði valið sig sem næstráðanda vegna þess að hann stóð sig frábærlega við að selja gos á varðeldum!
Konni var lengi hægri hönd Ólafs Guðmundssonar, forstjóra Vélsmiðjunnar Þórs, og má segja að hann hafi mótast af þeirra langa samstarfi þar sem nákvæmni og vandvirkni voru einkunnarorðin. Það er til marks um það traust sem hann naut að hann var síðar ráðinn framkvæmdastjóri fyrir stærsta útgerðarfélag Vestfjarða, Hraðfrystihúsið Gunnvöru hf., og stýrði því lengi farsællega af þeirri alúð sem honum var lagin.
Að lokinni 92 ára ævigöngu getur Konni litið glaður um öxl og raulað sönginn eftir Harald Ólafsson sem svo oft var sunginn í hans gamla skátahópi: „Margar standa vörður þær sem einhver okkar hlóð, uppi um fjöll þar sem vorvindurinn hlær“ og hann getur í fullvissu gert síðustu orð Baden Powells að sínum, yfirgefið þennan heim betri en þegar hann kom í hann. Góður og gegnheill maður er fallinn frá. Ég sendi öllum ástvinum mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Ólafur Bjarni
Halldórsson.