Bakarí Nemum fjölgar í bakstri.
Bakarí Nemum fjölgar í bakstri. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Vinnustundum starfsmanna í matvæla- og veitingagreinum hefur fækkað verulega samkvæmt nýlegri könnun sem Gallup gerði fyrir Matvís, félag launaþega í matvæla- og veitingagreinum.

Vinnustundum starfsmanna í matvæla- og veitingagreinum hefur fækkað verulega samkvæmt nýlegri könnun sem Gallup gerði fyrir Matvís, félag launaþega í matvæla- og veitingagreinum. Nemur fækkun vinnustundanna allt að fjórum stundum frá næstu könnun þar á undan, sem gerð var fyrir félagið.

18% urðu vitni að einelti eða áreitni á umliðnu ári

Einnig kemur fram að dregið hefur heldur úr áreitni og einelti á vinnustöðum í matvæla- og veitingageiranum samkvæmt könnuninni. „Ríflega 12% sögðust hafa orðið fyrir einelti í vinnunni eða á vinnutengdum viðburðum síðastliðna 12 mánuði. Einelti hefur dregist saman um sex prósentustig. Konur, yngra fólk og fólk með skemmri menntun verður frekar fyrir einelti en aðrir.

Ríflega 6% höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni í vinnunni eða á vinnutengdum atburðum síðastliðna 12 mánuði, bæði karlar og konur. Úr svörunum má lesa að ungt fólk verði frekar fyrir áreitni en hinir eldri. 18% höfðu orðið vitni að einelti eða kynferðislegri áreitni undanfarið ár. Sú tala var um 24% árið 2018,“ segir um könnunina á vefsíðu Matvís.

Í ljós kemur að fleiri félagsmenn í Matvís eru í launaðri vinnu núna en samkvæmt síðustu könnun þar á undan. Þá hafa laun fyrir hverja vinnustund haldist í hendur við launavísitölu Hagstofunnar en vinnustundir eru færri eins og fyrr segir og yfirvinna orðin minni hluti af heildarlaunum félagsmanna en áður var. Þá vinna færri vaktavinnu nú en áður.

Nær helmingur varð fyrir skerðingu starfshlutfalls

„Í könnuninni kemur fram að starfandi félagsmönnum á veitingahúsum fækkaði áberandi miðað við síðustu könnun sem gerð var. Á móti kemur að smávægileg fjölgun er á öðrum tegundum vinnustaða,“ segir í umfjölluninni.

Lítils háttar fækkun hefur orðið á fastráðningum skv. niðurstöðum könnunarinnar og er talið að þar eigi heimsfaraldur kórónuveirunnar hlut að máli. Einnig kom í ljós að nemum fækkar í matreiðslu og framreiðslu en þeim fjölgar í bakstri.

Svörin sýna enn fremur að heildarlaun þátttakenda í könnuninni eru að meðaltali 736 þúsund og hafa hækkað um 14% frá september 2018. Mánaðarlaun eru að meðaltali 665 þúsund og hækka um 16% á sama tímabili.

„Nærri helmingur þátttakenda varð fyrir lækkun starfshlutfalls vegna Covid-19. Nærri fimmti hver starfsmaður varð fyrir uppsögn. Mest var um lækkun starfshlutfalls í framleiðslustörfum, á veitingahúsum, hótelum og gististöðum,“ segir á vef Matvís. Þrátt fyrir þessar skerðingar hafi aðeins fimm prósent þó metið starfsöryggi sitt lítið en konur mátu starfsöryggi sitt minna en karlar. Var starfsöryggið metið minnst á hótelum, veitingahúsum og gististöðum.

„Stjórnendur og bakarar eru þær starfsstéttir úr röðum félagsmanna þar sem fólk er ánægðast með kjör sín. Ánægja með laun stendur í stað á milli kannana.“ omfr@mbl.is