Liz Truss
Liz Truss
Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í gær að hún styddi „100 prósent“ við forsætisráðherrann Boris Johnson, og sagði hún að hann ætti að gegna því embætti „eins lengi og mögulegt er“.

Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í gær að hún styddi „100 prósent“ við forsætisráðherrann Boris Johnson, og sagði hún að hann ætti að gegna því embætti „eins lengi og mögulegt er“.

Truss er ein af þeim sem nefnd hefur verið sem mögulegur arftaki Johnsons komi til leiðtogakjörs í Íhaldsflokknum, en hún sagði að hún teldi að Johnson væri að standa sig mjög vel í starfi, og að ekki myndi koma til leiðtogakjörs.

Hart hefur verið sótt að Johnson síðustu daga vegna uppljóstrana um veisluhöld í bakgarði Downingstrætis 10 í Lundúnum, þar sem forsætisráðuneytið er til húsa, á sama tíma og strangar sóttvarnareglur voru í gildi vegna heimsfaraldursins.

Truss, sem er nú í opinberri heimsókn í Ástralíu, sagði að Johnson hefði beðist afsökunar á þeim mistökum sem gerð hefðu verið, en forðaðist að svara spurningum um ásakanir þess efnis að ráðherrar og aðstoðarmenn Johnsons hefðu beitt hótunum til þess að tryggja sér stuðning þingmanna Íhaldsflokksins, með þeim rökum að hún hefði verið erlendis og væri því ekki með neinar upplýsingar um þær ásakanir.

Þess er nú beðið að Sue Gray, embættismaðurinn sem leiðir óháða rannsókn um veisluhöld forsætisráðuneytisins, skili af sér skýrslu um málið, en talið er að pólitísk örlög Johnsons geti ráðist af niðurstöðum hennar.

Hermdu fregnir breskra fjölmiðla í gær að Gray hefði verið látinn í té tölvupóstur, þar sem varað var við því að fyrirhugað boð í garðveislu í maí 2020 kynni að brjóta í bága við þágildandi bresk sóttvarnalög. Ekki er vitað hvort Johnson hafi fengið það boð eða tölvupóstinn.