Listakonan „Ég held að það megi tala meira um fagurfræði og hvernig útlit hlutanna hefur áhrif á það hvernig við túlkum þá,“ segir Hallgerður, sem opnar í dag sýningu þar sem hún kannar ýmislegt sem viðkemur ljósmyndun.
Listakonan „Ég held að það megi tala meira um fagurfræði og hvernig útlit hlutanna hefur áhrif á það hvernig við túlkum þá,“ segir Hallgerður, sem opnar í dag sýningu þar sem hún kannar ýmislegt sem viðkemur ljósmyndun. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is Í ljósmyndun mætast tækni og fagurfræði enda ljósmyndarinn í raun iðnaðarmaður og listamaður í senn. Hallgerður Hallgrímsdóttir myndlistarkona segist vera hugfangin af þessu samspili. Hún opnar sýninguna Fáeinar vangaveltur um ljósmyndun – III. hluti, í dag, 22. janúar, í Sverrissal Hafnarborgar. Safnið er opið frá klukkan 12 til 17 en sýningin stendur yfir til 27. mars. Hún er hluti af Ljósmyndahátíð Íslands og sýningarstjóri er Unnar Örn Auðarson.

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Í ljósmyndun mætast tækni og fagurfræði enda ljósmyndarinn í raun iðnaðarmaður og listamaður í senn. Hallgerður Hallgrímsdóttir myndlistarkona segist vera hugfangin af þessu samspili. Hún opnar sýninguna Fáeinar vangaveltur um ljósmyndun – III. hluti, í dag, 22. janúar, í Sverrissal Hafnarborgar. Safnið er opið frá klukkan 12 til 17 en sýningin stendur yfir til 27. mars. Hún er hluti af Ljósmyndahátíð Íslands og sýningarstjóri er Unnar Örn Auðarson.

„Titill sýningarinnar gefur kannski ýmislegt til kynna, bæði að það hafi verið aðrir hlutar og að það verði kannski fleiri og um hvað þetta snýst allt saman. Það er ljósmyndamiðillinn sem ég er algerlega hugfangin af og held að það sé margt í honum sem megi rannsaka betur,“ segir Hallgerður.

„Það má segja að ég búi mér til eins konar ljósmyndaæfingar því ég sæki mikinn innblástur í kennslubækur í ljósmyndun. Þegar ég var í BA- og MA-náminu upplifði ég að maður er oft annars vegar að lesa fræðibækur og heimspeki um ljósmyndun og hins vegar að læra tækni. Mér fannst svo skrítið hvað þetta er oft fjarlægt hvað öðru. Þegar við erum að tala um tækni gleymum við oft að tala um konsept og merkinguna sem er fólgin í tækninni. Því það er fullt af merkingu þar. Svo þegar verið er að tala um fræðin þá veigrar fólk sér oft við að tengja þau við tæknina. Mér finnst áhugavert að skoða hvað gerist þegar maður tekur þessa tvo póla og færir þá nær hvor öðrum.“

Í ferlinu segist Hallgerður hafa prófað sig áfram og lært nýja hluti. „En verkin eru fullunnin og sitja vel í sjálfum sér. Sumar ljósmyndirnar læðast út á gólf og verða skúlptúrar en eru samt áfram um ljósmyndun. Ég er til dæmis með vegg með fjórum silkitjöldum sem ég er búin að lita í prentlitunum fjórum; cyan, magenta, yellow og key. Það er skúlptúrískt verk þar sem ég er að velta fyrir mér þessari litafræði.“

Annað verk tengt litakerfi má finna á skjá og kallast það á við silkitjöldin. Þar vinnur hún með annað grunnlitakerfi sem kallast RGB eftir þremur litum; rauðum, grænum og bláum, og byggist á ljósi.

Efast um sannleiksgildið

„Ég man ekki eftir að hafa lært svona litafræði í grunnskóla eða menntaskóla. Ég held það sé svo margt við ljósmyndun sem við gætum lært miklu meira um. Það þarf ekkert að vera tæknilegt, til dæmis myndlæsi. Stundum gleymist að við séum að horfa á ljósmynd sem einhver tók, að einhver valdi að taka hana á þessu augnabliki og að ramma hana inn svona og sýna ekki eitthvað annað.“ segir listakonan.

„Þegar við tökum mynd erum við alltaf að taka ákvarðanir. Við veljum til dæmis hvort við tökum myndina á símann eða svart-hvíta filmu og það hefur áhrif á tilfinninguna sem kemur þegar horft er á ljósmyndina.“

Hallgerður minnir á að oft séu ljósmyndir teknar til þess að sanna eitthvað en segist efast um sannleiksgildi ljósmynda almennt. Henni finnst við þurfa að verða betri í að leggja mat á það og leggur áherslu á að mikilvægi þess að leggja mat á sannleiksgildið komi ekki með tilkomu forrita á borð við photoshop. Hún nefnir sem dæmi að þegar blaðaljósmyndari leggi leið sína á mótmæli geti hann valið hversu margir séu á myndinni og þar með hversu fjölmenn mótmælin virðist hafa verið, allt eftir því hvaða fyrirmæli hann hafi fengið. Þessu geti ljósmyndarinn stýrt með því að velja rétt sjónarhorn.

„Við erum alltaf að velja sjónarhorn, velja bæði afstöðu í rýminu og í því sem við erum að segja. Eitt verk á sýningunni kalla ég einfaldlega „Afstöðu“. Það er myndapar, af sama hlutnum sem er myndaður frá tveimur mismunandi sjónarhornum. Myndaparið er á þríhyrningslaga skúlptúr úti á miðju gólfi þannig að áhorfandinn gengur í kringum verkið eins og ég gekk í kringum hlutinn sem er á báðum myndunum. Ég er að vekja athygli á að fólk sem tekur myndir ferðast um rýmið og velur besta sjónarhornið og tekur þar með afstöðu.“

Á einum vegg sýningarsalarins er að finna fjórtán myndir sem Hallgerður kallar „Frávik“. Þar myndar hún sömu uppstillinguna á ýmsa vegu. „Þetta eru kyrralífsmyndir. Þetta er sama uppstillingin en ég tek mismunandi myndir og nota mismunandi tækni, nota bæði stafræna myndavél og filmu, í lit og svart-hvítu. Síðan er ég aðeins að snúa upp á kyrralífið. Hugmyndin á bak við svona kyrralífsmyndir er að frysta augnablikið en ég geri það viljandi að taka myndirnar yfir svolítið langan tíma. Við hugsum svo mikið um ljósmyndina sem sekúndubrot en þarna er ég að leika mér með þennan tíma sem líður á milli myndanna, þarna gufar vatn upp og mandarína skorpnar. Ég leik mér líka með hvað er í fókus, hvað er mikið í fókus og hvaða áhrif það hefur,“ segir hún.

Erum stöðugt að túlka

„Ég held að það megi tala meira um fagurfræði og hvernig útlit hlutanna hefur áhrif á það hvernig við túlkum þá og hvernig okkur líður þegar við virðum þá fyrir okkur. Þannig að þetta helst allt í hendur. Einnig var mjög stórt atriði fyrir mér að átta mig á því að manneskjan sér með heilanum, augun eru bara tæki sem við notum til þess að sjá en við erum stöðugt að túlka það sem við sjáum. Hver og einn áhorfandi kemur síðan með sinn reynsluheim á öxlunum inn á sýningar.“

Fyrsti hluti þessa verkefnis, Fáeinar vangaveltur um ljósmyndun , varð til í BA-námi Hallgerðar í Glasgow School of Art. „Ég kom svolítið græn inn í ljósmyndunina og varð heilluð af öllu sem varðaði miðilinn. Þá fæ ég alls konar hugmyndir sem mig langar að prófa og rannsaka. Þá sýndi ég fyrsta hlutann, árið 2010. Síðan leið svolítill tími þangað til ég fór í meistaranám til Gautaborgar 2017. Þá var ég búin að vera með þessa hugmynd bak við eyrað og búin að safna ýmsum pælingum í bankann en ekki búin að vinna nein ný verk. Ég geri það svo og sýni annan hlutann sem útskriftarverkið mitt og það var líka sýnt í Gerðarsafni á Ljósmyndahátíð 2020. Og nú er kominn þriðji hluti og ég er engan veginn hætt. Ég sé fyrir mér að þetta verði í gangi næstu árin og svo vinni ég önnur verk inn á milli.“