Ólöf Snæhólm Baldursdóttir
Ólöf Snæhólm Baldursdóttir
Eftir Ólöfu Snæhólm Baldursdóttur: "Snjallmælar eru hluti af eðlilegri þróun veitukerfa. Veitufyrirtæki víða um heim velja nú að setja upp snjallmæla."

Snjallmælar eru hluti af eðlilegri þróun veitukerfa. Veitufyrirtæki víða um heim velja nú að setja upp snjallmæla þegar tími er kominn til að skipta út eldri tegundum mæla, enda er framleiðsla eldri gerðanna að leggjast af. Veitur eru ekki fyrsta íslenska fyrirtækið til að velja snjallmæla og örugglega ekki hið síðasta. Það þarf að endurnýja mæla og nú er orðið tímabært og hagkvæmt að skipta alveg um mælakerfi; stíga inn í nútímann með það.

Hinn 17. janúar birtist hér á síðum Morgunblaðsins aðsend grein eftir Árna Árnason þar sem hann sakar Veitur um að setja á svið blekkingarvef með auglýsingum sínum um uppsetningu snjallmæla fyrir hita- og rafveitu á starfssvæði fyrirtækisins. Þrátt fyrir að auglýsingarnar fjalli um að enginn þurfi að lesa af orkumælum eftir uppsetningu nýju mælanna er þar ekki öll sagan sögð enda óhægt um vik að koma öllum eiginleikum og möguleikum snjallmæla að í 6-30 sekúndna auglýsingum.

Flest það sem Árni nefnir í grein sinni, eins og fullyrðingar um „markaðsvæðingu orkunnar“, er ekki á forræði Veitna heldur stjórnvalda. Ákvörðun um mælakaupin byggist því eingöngu á notagildi þeirra fyrir viðskiptavini Veitna og rekstur veitukerfanna auk þess sem líklegt er að í náinni framtíð verði gerðar kröfur í lögum um uppsetningu snjallmæla.

Kostir snjallmælanna eru fjölmargir. Þeir senda regluleg boð um notkun á heitu vatni og rafmagni til veitufyrirtækisins, ekki einungis upplýsingar um rúmmetra vatns eða kílóvattstundir rafmagns heldur líka hitastig heita vatnsins á afhendingarstað sem og afhendingargæði rafmagnsins. Með þeim gögnum má bregðast hraðar og betur við þegar bilanir verða, hvort sem það er innanhúss eða í veitukerfunum. Viðskiptavinir Veitna munu geta fylgst betur með notkun sinni og gert ráðstafanir til sparnaðar byggðar á þeim upplýsingum. Þegar fram líða stundir verður hægt að tengja mælana við snjöll húskerfi.

Með snjallmælum skapast fjöldi tækifæra til að bæta rekstur kerfanna til hagsbóta fyrir viðskiptavininn, veitufyrirtækið, auðlindirnar og umhverfið.

Höfundur er upplýsingafulltrúi Veitna.

Höf.: Ólöfu Snæhólm Baldursdóttur