Þrír skákmenn voru jafnir og efstir eftir fimmtu umferð Tata steel-stórmótsins í Wijk aan Zee á fimmtudaginn. Þar á eftir kemur Magnús Carlsen sem unnið hefur þetta mót átta sinnum. Athyglin beinist mjög að Magnúsi Carlsen, sem hefur unnið mótið oftar en nokkur annar. Mótið dregur að jafnaði til sín marga fremstu skákmenn heims þó að Alireza Firouzja hafi ekki þegið boð um þátttöku. En staða efstu manna eftir fimm umferðir:
1.-3. Vidit, Mamedyarov og Rapport 3½ v. 4.-5. Carlsen og Esipenko 3 v. 6.-8. Caruana, Van Foreest og Duda 2½ v. 9-13. Giri, Dubov, Karjakin, Shankland og Pragnanandhaa 2 v. 14. Grandelius 1 v.
Magnús Carlsen hefur byrjað rólega en hann er vanur að gefa vel í á lokasprettinum. Viðureign hans við fremsta skákmeistara Hollendinga, sem oft hefur reynst erfiður, virtist fylgja línu sem að öllum líkindum var undirbúin fyrir einvígið við Nepomniachtchi á dögunum:
Wijk aan Zee 2022; 2. umferð:
Magnús Carlsen – Anish Giri
Katalónsk byrjun
1.d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rf3 d5 4. g3 Be7 5. Bg2 0-0 6. 0-0 dxc4 7. Ra3
Þekkt leið en 7. Dc2 eða 7. Re5 er algengara.
7. ... Bxa3 8. bxa3 Bd7 9. a4 Bc6 10. Ba3 He8 11. Dc2 Rbd7 12. Hac1 a6 13. Dxc4
Magnús hafði teflt byrjunina hratt og reynir ekki að halda í a-peðið með 13. a5 sem má svara með 13. ... b5.
13. ... Rb6 14. Dc3 Rxa4 15. Db3 Dd5
16. Hxc6!
Skemmtileg skiptamunarfórn sem raskar þó ekki jafnvægi stöðunnar.
18. ... Dxc6 17. Re5 Db5 18. Dc2
Vegna hótunarinnar 19. Hb1 stendur svartur frammi fyrir erfiðu reikningsdæmi.
18. ... Rd5?
Það kemur svoítið á óvart að Giri skuli hafa misst af langbesta leiknum, 18. ... Rb6! Eftir 19. Bxb7 Rc4! 20. Bxa8 Rxa3 21. Dc6 Dxe2 heldur hann velli! Hvítur á þó ýmis færi til að tefla áfram t.d. með 22. Bb7 Dxa2 23. Rg4!? og sennilega hefur Giri ofmetið möguleika hvíts.
F19. Hb1 Da5
20. Bxd5!?
Einnig kom til greina að skjóta inn 20. Be4.
20. ... exd5 21. Hxb7
Hótar 22. Bb4.
21. ... c5 22. Df5! Hf8 23. Rxf7 Dd8 24. dxc5 Df6 25. Dxf6 gxf6 26. Rh6+ Kh8 27. c6
Frípeðið ræður úrslitum. Aðstaða svarts í endataflinu er algerlega vonlaus.
27. ... Hfc8 28. c7 Rc3 29. Bb2 d4 30. Rf7 Kg7 31. Rd6 Kg6 32. Kf1 Rb5 33. Rxc8 Hxc8 34. a4 Rxc7 35. Bxd4 Re6 36. Be3
– og Giri gafst upp.
Fram hefur komið í fréttum að fram á sjónarsviðið steig nýr skákskýrandi hjá norsku sjónvarpsstöðinni TV 2. David Toska, „heilinn“ á bak við stærsta bankarán í sögu Noregs vorið 2004, nýsloppinn út eftir 13 ár í grjótinu, var fenginn til að gefa álit sitt á skákum heimsmeistarans. Toska er einnig talinn viðriðinn þjófnað á frægasta málverki í sögu Noregs, „Ópinu“, sem einnig hvarf þetta sama ár frá Munch-safninu í Ósló. Hefur málið vakið mikla athygli í Noregi.
Reykjavíkurskákmótið aftur í Hörpu
Aflýsa þurfti Reykjavíkurskákmótinu árið 2020 en í fyrra fór það fram undir merkjum Evrópuskáksambandsins og SÍ einnig sem Evrópumót einstaklinga. Mótið núna verður haldið í Hörpu dagana 6.-12. apríl nk. Kvika er helsti styrktaraðili þess. Það vill svo óheppilega til að á sama tíma er áætlað að EM einstaklinga fari fram í Slóveníu. Mörgum finnst að Evrópuskáksambandið hefði átt að finna aðra dagsetningu fyrir það mót.Helgi Ólafsson helol@simnet.is