[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Ólafur Halldórsson fæddist 22. janúar 1962 í Reykjavík en flutti í Kópavog fimm ára gamall. „Ég sleit barnsskónum í suðurhlíðum Kópavogs við skítalækinn.

Jón Ólafur Halldórsson fæddist 22. janúar 1962 í Reykjavík en flutti í Kópavog fimm ára gamall. „Ég sleit barnsskónum í suðurhlíðum Kópavogs við skítalækinn. Ég fór snemma í sveit, fjögurra ára, á Hafursstaði í Húnavatnssýslu og síðan í Árbæ hjá Selfossi, sem afi minn átti. Ég fór á milli þessara staða en var svo vinnumaður á Fjalli á Skeiðum á sumrin árin 1973-1977 sem hafði mikil og mótandi áhrif á mig.“

Jón gekk í Kópavogsskóla og í gaggó í Víghólaskóla og varð stúdent frá Menntaskólanum í Kópavogi 1982. Hann útskrifaðist með B.Sc.-gráðu í véltæknifræði 1987 frá Tækniháskólanum í Kaupmannahöfn, hann lauk AMP-diplómu frá IESE Business School í Barcelona 2007, MBA frá HÍ 2012 og M.Sc. í viðskiptafræði frá HÍ 2016. Hann hefur lokið hæfismati Fjármálaeftirlitsins vegna setu í lífeyrissjóði.

Jón starfaði sem véltæknifræðingur hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna 1988-1990, var forstöðumaður hjá Hafnarbakka, dótturfélagi Eimskips 1991-1993, og verkefnastjóri hjá Jarðborunum 1994. Hann hóf síðan störf hjá Olís, var forstöðumaður eldsneytis- og smurolíudeildar 1995-1996, síðan framkvæmdastjóri markaðs- og sölumála 1997-2013 og forstjóri Olís 2014-2021. „Það var frábær tími að taka þátt í uppbyggingu Olís, en þegar ég hóf störf lá fyrir að miklar breytingar væru í vændum. Olíudreifing var stofnuð 1996 og dreifikerfi Olís og Olíufélagsins var sameinað og var mikil hagræðing fólgin í því fyrir alla landsmenn.“

Jón hefur starfað undanfarin ár innan Samtaka atvinnulífsins og situr í stjórn og framkvæmdastjórn samtakanna. Hann hefur verið formaður stjórnar Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) frá 2019 og formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) frá því í haust. Önnur stjórnarstörf á liðnum árum hafa verið Olíudreifing ehf., Eldsneytisafgreiðslan í Keflavík, Eldsneytisbirgðastöðin í Keflavík, Eldsneytisafgreiðslan á Reykjavíkurflugvelli, Úthafsolía hf. og OW Icebunker A/S.

„Ég sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Olís í gegnum tíðina og í framhaldinu, eða fyrir 6-7 árum, fór ég að sinna ýmsum stjórnunarstörfum fyrir atvinnulífið. Þetta eru krefjandi störf og maður þarf t.d. að fara í hæfismat til að sitja í stjórn lífeyrissjóðs, en eignir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna eru 1.100 milljarðar sem þarf að ávaxta. Því fylgir mikil vinna, eftirfylgni og ábyrgð. En þetta er mjög spennandi vinna og gaman að fá innsýn í þennan heim. Almennt er þekking okkar landsmanna ekki mikil á lífeyrissjóðskerfinu og menn hafa á því ýmsar skoðanir. En þetta er gríðarlega merkilegt kerfi, almannatryggingakerfið, og það er fyllsta ástæða til að gefa því athygli sem þar fer fram.“

Alla tíð hefur Jón haft áhuga á félagsmálum, en hann var formaður foreldraráðs Kópavogsskóla í 18 ár, og hefur verið félagi í Rotary Reykjavík Miðborg i 20 ár og gegnt embætti forseta og ritara stjórnar. „Það er svipað með skólamálin og lífeyriskerfið að þegar maður er búinn að fá innsýn í það fær maður miklu betri skilning á því sem þar fer fram. Ég vil hafa áhrif á mitt samfélag og með þessu hefur maður tök á því.“

Jón er mikill áhugamaður um íþróttir, stang- og skotveiði, útivist og ferðalög með fjölskyldunni, og mótorsport svo sem enduro og buggyferðir með eiginkonunni. „Stangveiðin hefur veitt manni mikla gleði gegnum tíðina og ég er svo lánsamur að hafa getað tekið krakkana mína með mér í skotveiðina, og það er mjög skemmtilegt. Við erum á gæsaveiðum en síðasta sumar fór ég í fyrsta sinn að veiða hreindýr og það var mjög skemmtilegt. Við Guðrún náðum að sameina hreindýraferð og buggyferð; fórum um Möðrudalsöræfin og áttum frábæran tíma þar.

Við höfum verið að ferðast á buggy um landið með góðum vinum, og sem gamall mótorhjólakall fæ ég alveg nóg út úr því að vera á buggy. Það er miklu öruggara og maður beinbrýtur sig ekki þegar maður dettur. Ég mæli því eindregið með fyrir mótorhjólakappa að prófa buggy þegar menn eru komnir á þennan virðulega aldur.“

Fjölskylda

Eiginkona Jóns er Guðrún Atladóttir, f. 19.9. 1963, innanhússhönnuður, kvikmyndagerðarkona og MA í hagnýtri menningarmiðlun. Þau búa í austurbæ Kópavogs, í eldri og virðulegri hluta bæjarins. Foreldrar Guðrúnar Hjónin Atli Hraunfjörð, f. 5.7. 1941, d. 28.3. 2012, málarameistari í Kópavogi, og Sigríður Guðmundsdóttir, f. 12.4. 1945, húsfreyja í Kópavogi.

Börn Jóns og Guðrúnar eru: 1) Unnar Freyr, f. 9.10. 1988, lögfræðingur og deildarstjóri rekstrarsviðs VHE, býr í Hafnarfirði. Maki: Guðrún Lilja Sigurðardóttir, f. 10.2. 1989, lögmaður hjá Lex. Börn þeirra eru Jón Frosti, f. 4.4. 2019, og Sigurður Frosti, 12.8. 2021; 2) Sigríður Steinunn, f. 14.2. 1992, rekstrarverkfræðingur og framkvæmdastjóri Ísey Skyr Bar, býr í Hafnarfirði. Maki: Kjartan Þór Þórisson, f. 16.9. 1987, framkvæmdastjóri Herra Snjall tækniþjónusta, býr í Hafnarfirði. Dóttir þeirra er Margrét Elísabet, f. 24.3. 2021; 3) Anna Karen, f. 26.6. 1998, hagfræðingur, sölumaður og gullsmíðanemi, býr í Kópavogi.

Systkini Jóns eru Þorsteinn Halldórsson, f. 19.7. 1960, sölumaður, býr í Kópavogi; Pétur Hákon Halldórsson, f. 6.6 1967, rafvirkjameistari og framkvæmdastjóri Raftækjasölunnar, býr í Kópavogi, og Karen Elísabet Halldórsdóttir, f. 19.2. 1974, skrifstofustjóri og bæjarfulltrúi í Kópavogi.

Foreldrar Jóns eru hjónin Halldór Jónsson, f. 3.11. 1937, verkfræðingur og fv. forstjóri Steypustöðvarinnar hf., og Steinunn Helga Sigurðardóttir, f. 6.6. 1937, húsfreyja. Þau búa í Kópavogi.