[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
París. AFP. | Eitthvað öflugt hlýtur að hafa legið í loftinu árið 1972. Það mætti í það minnsta ætla þegar horft er á uppskeruna af plötum frá þessu ári.

París. AFP. | Eitthvað öflugt hlýtur að hafa legið í loftinu árið 1972. Það mætti í það minnsta ætla þegar horft er á uppskeruna af plötum frá þessu ári. Þá komu út nokkrar plötur, sem urðu klassískar nánast samstundis, og virtist ein þeirra meira að segja hafa komið utan úr geimnum. Þessar plötur áttu eftir að leggja línurnar fyrir áratuginn, sem var í vændum, með þokka sínum og hnignun.

Exile On Main St. með Rolling Stones

Í huga Keiths Richards, gítarleikara hljómsveitarinnar, var þetta lykilplata Stones.

Hljómsveitin var á flótta undan skattyfirvöldum á Bretlandi og hreiðraði um sig á herragarðinum Nellcote á Cote d'Azur í Suður-Frakklandi, fóru í vímu og gerðu plötuna, sem haldið hefur verið fram að hafi verið þeirra síðasta stórvirki.

Á plötunni voru engir smellir, sem stóðu upp úr. Hún var hins vegar ástarbréf til bandarískrar gospel- og blústónlistar. Á henni er að finna 18 sláandi góð lög, þar á meðal „Sweet Virginia“ og „Tumbling Dice“, sem eru í sérstöku uppáhaldi hjá aðdáendum.

Rokkgagnrýnandinn Yves Bigot var á staðnum. „Ég var ekki einn af dílerunum,“ sagði hann hlæjandi við AFP. „Ég var krakki, sem bjó í nágrenninu, og við laumuðumst inn með matarsendlunum á morgnana þegar enginn var vakandi. Ég hélt mig úti í horni og get staðfest að Rollingarnir voru vissulega framandi verur.“

Honky Château með Elton John

Elton John var einnig að frílysta sig með stæl í Frakklandi. Hann hafði komið sér fyrir á óðalssetrinu Herouville fyrir utan París þar sem gert hafði verið hljóðver. Fleiri frammámenn í tónlistinni löðuðust að hljóðverinu á áttunda áratugnum, þar á meðal David Bowie og Iggy Pop, og létu lítið á sig fá þótt hermt væri að þar væri reimt.

„Elton var á konunglega skeiðinu sínu og samdi ótrúleg lög á borð við „Honky Cat“ og „Rocket Man“,“ sagði Bigot.

„Með plötunni styrkti John stöðu sína á stjörnuhimninum á Bretlandi og lagði grunninn að „soft-rokki“ áttunda áratugarins eins og hann lagði sig,“ segir í tónlistarbiblíunni NME.

The Rise and Fall of Ziggy Stardust and the Spiders from Mars með David Bowie

Bowie fann sitt fullkomna hliðarsjálf í Ziggy og átti í leiðinni jafnvel meiri þátt en nokkur annar í að vekja heiminn til vitundar um hugmyndina um flæðandi kynvitund í menningu 20. aldarinnar.

Lykillinn var að vera heill. Úrkynjuð glysgirni var allsráðandi í rokkinu á þessum tíma, en Bowie gerði „kynhneigð sína aldrei að öðru en eðlilegum og samofnum hluta opinberrar persónu sinnar og neitaði að fara niður á það plan að nota hana sem brellu“, sagði í Rolling Stone á sínum tíma.

Á plötunni voru lög, sem slógu strax í gegn, á borð við „Starman“ og „Suffragette City“, en einnig allsherjarsýn, sem í senn virtist úr framtíðinni og af öðrum heimi, en um leið jarðbundin, með rætur í grómteknum, snúnum heimi kabarettsins.

Transformer með Lou Reed

Eins og fram kom í The Velvet Underground, heimildarmynd Todds Haynes frá því í fyrra, var Reed önugur og sjálfumglaður og átti persónuleiki hans þátt í að slíta einni áhifaríkustu hljómsveit sjöunda áratugarins.

En Reed reis upp úr öskunni með söluvænlegustu og vinsælustu plötu sinni þegar hann gerði Transformer .

„Walk on the Wild Side“ telst nú eitt lykillaga rokksins og „Perfect Day“ náði hæstu hæðum tveimur áratugum síðar þegar það var notað í kvikmyndinni Trainspotting .

Harvest með Neil Young

Harvest var fjórða plata Neils Youngs og varð til þess að koma honum á kortið fyrir alvöru. Platan seldist öllum að óvörum í milljónum eintaka um heim allan og slógu lögin „Heart of Gold“ og „Old Man“ rækilega í gegn.

Young hafði verið á jaðri þjóðlagapoppsins um árabil og velgengnin olli honum áhyggjun. Síðar sagðist hann hafa ákveðið að halda „rakleiðis út í skurð“ á næstu plötum sínum til að forða sér af veginum miðjum.

En Harvest átti sér líka dekkri hliðar eins og heyra mátti í laginu „The Needle and the Damage Done“, nístandi lagi um eiturlyfjafíkn, sem varð eins og fyrirboði um dauða tveggja náinna vina hans.