Ragnar Sigurðsson
Ragnar Sigurðsson
Eftir Ragnar Sigurðsson: "Sameinað sveitarfélag í Fjarðabyggð hefur sýnt burði til að mæta áskorunum framtíðarinnar. Það er framtíðarhugur í okkur eystra."

Fjarðabyggð er það sveitarfélag sem hefur gengið hvað lengst í sameiningu sveitarfélaga á Íslandi. Sveitarfélagið myndaðist við samruna 10 sveitarfélaga sem fór fram í áföngum á árunum 1988 til 2018 er Fjarðabyggð varð til og því eitt yngsta sveitarfélag landsins. Nú síðast árið 2018 sameinaðist Breiðdalshreppur formlega Fjarðabyggð. Samfélagið samanstendur af sjö byggðakjörnum; Breiðdalsvík, Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði, Eskifirði, Neskaupstað og Mjóafirði. Í dag er það tíunda stærsta sveitarfélag landsins og fjölmennast á Austurlandi með um 5.000 íbúa.

Sú reynsla sem Fjarðabyggð býr yfir er dýrmæt gagnvart þeim mögulegu sameiningum sveitarfélaga sem ýmist eru til umræðu eða í formlegu ferli. Sameiningarferli Fjarðabyggðar er heillaspor og dæmi um vel heppnaða uppbyggingu byggðakjarna sem býr áfram yfir sínum sérkennum, bæjarbrag og styrkleika en deilir sameiginlegri stjórnsýslu.

Heillavænlegt skref

Það dylst engum nú að sameining Fjarðabyggðar var heillaskref. Sveitarfélagið hefur vaxið undanfarin ár samhliða kröftugri uppbyggingu atvinnulífs sem óvíst er að hefði átt sér stað án þess að öflugt sameinað sveitarfélag stæði á bak við nauðsynlega uppbyggingu innviða s.s. stækkun hafna, skólamannvirkja og iðnaðarsvæða, skilvirka stjórnsýslu, uppbyggingu íbúðalóða og fleira.

Helstu efnahagslegar lykiltölur sveitarfélagsins hafa vaxið ár frá ári eftir sameiningu. Íbúum fjölgar sem og störfum, fjölbreyttari atvinna hefur skapast, efnahagur styrkst, laun hækkað og í dag er Fjarðabyggð með hæstu meðalatvinnutekjur íbúa á landinu. Ekkert af þessu var sjálfsögð þróun og ekki eingöngu tilkomin vegna sameiningar heldur óbilandi trúar íbúa og sveitarstjórnarmanna þess tíma á svæðinu, byggðakjörnunum og mögulegri atvinnuuppbyggingu. Þeir horfðu til þess að sameinað sveitarfélag gerði okkur það kleift að taka á móti atvinnuuppbyggingu með kraftmiklum hætti.

Sameiningin heldur áfram

Ávinningur sameiningar sveitarfélagsins er ekki að fullu kominn í ljós. Tækifæri eru fólgin í aukinni samvinnu og samþættingu innan samfélagsins og virkja mannauð og hugvit sem býr í samfélagi öllum til heilla.

Að baki liggur hugmynd að samþættingu stjórnsýslu en ekki byggða. Aukin samvinna þýðir ekki endilega að séreinkenni þeirra tapist þótt breytt sé um nafn sveitarfélagsins. Áfram halda byggðakjarnarnir sérkennum sínum og sjálfsmynd. Öflug íbúasamtök skipta þar sköpum. Þau auka áhrif heimamanna á þjónustu í nærumhverfi sínu og eru lykill að farsælli sameiningu og því að íbúar muni upplifa að þeirra samfélög hafi enn áhrif.

Við verðum að ýta undir vöxt og viðgang öflugra íbúasamtaka til tengingar íbúa og stjórnkerfis. Þannig hafa íbúar áhrif á forgangsröðun verkefna hjá sveitarfélaginu og spyrja út í rekstur og ákvarðanir. Aukið lýðræði skilar okkur þannig betri lífskjörum.

Auknar byrðar sveitarfélaga

Það ætti að vera mikilvæg forsenda fyrir sameiningu sveitarfélags að færa þjónustu hins opinbera nær fólkinu. Sterkara sveitarfélag snýr ekki síst að hagsmunabaráttu gagnvart ríkisvaldinu sem mun verða öflugri með sterkara sveitarstjórnarstigi. Með öflugum sveitarfélögum getum við þannig fært fleiri verkefni frá ríkinu þannig að þjónusta við fólk sé nálæg. Yfirtaka ýmissa málaflokka frá ríki og auknar kröfur hafa leitt ríkari kröfu til lögbundinnar þjónustu sveitarfélaga. Þessi þjónusta getur kallað á ófyrirséðar sveiflur rekstrarútgjalda sem eru óumflýjanlegar. Þessi aukna þjónusta kallar á sérhæfðari störf og aukinn mannafla og krefur íbúa um traustan rekstur.

Sveitarstjórnarfólk á að hafa metnað til að auka vægi sveitarstjórnarstigs með tilfærslum verkefna frá ríki. Reynsla af yfirtöku verkefna er almennt góð þótt flestir séu sammála um að nægilegt fjármagn hafi ekki fylgt. Við þurfum að læra af reynslu og forðast þá afturför að verkefnum sé skilað til ríkis eins og raun hefur verið með rekstur hjúkrunarheimila og málefni eldri borgara.

Þar skiptir miklu að endurskoða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Sveitarstjórnarfólk á að hafa metnað fyrir því að auka vægi sveitarstjórnarstigsins með tilfærslum verkefna frá ríkinu.

Sameinað sveitarfélag í Fjarðabyggð hefur sýnt burði til að mæta áskorunum framtíðarinnar. Það er framtíðarhugur í okkur eystra.

Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð og varaþingmaður.

Höf.: Ragnar Sigurðsson