Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Ég ólst upp við saumaskap frá blautu barnsbeini. Mamma var með vefnaðarvöruverslun í Keflavík og þar vann ég mikið og amma mín var klæðskeri, hún saumaði þjóðbúninga og allt mögulegt. Ég er fyrst og fremst að þessu af því að mér finnst mjög gaman að sauma, enda hef ég alltaf verið saumakerling, alveg frá því ég tólf ára saumaði mínar fyrstu buxur úr laki, sem ég litaði líka sjálf, fjólublátt,“ segir Sigríður Júlía Bjarnadóttir, eða Sigga, sem fór af stað fyrir tveimur árum með Skrautu – endurtekið efni, verkefni sem hefur það að markmiði að gefa aflögðum flíkum framhaldslíf. Sigga saumar undir merkjum Skrautu nýjar flíkur úr gömlum, sem og úr öðrum textíl, dúkum, gardínum og fleiru.
„Mér finnst gaman að skapa, sem er ástæðan fyrir því að ég stend í þessu, en ég verð líka að viðurkenna að með því að endurnýta textíl er ég að slá aðeins á mitt neyslusamviskubit. Mér finnst hrikalegt hvað við kaupum mikið og hendum af fatnaði, þetta endar við árnar í Afríku og veldur mengun og vanda. Þar hrúgast upp fötin frá okkur Vesturlandabúum, og þar sem pólýester eyðist seint, rétt eins og plast, þá safnast það upp í eyðimörkunum. Við erum agaleg að varpa ruslinu eftir okkur á önnur lönd, mér finnst alla vega skárra að reyna að endurnýta þetta.“
Þarf að hafa góða hrúgu
Sigga segir að nafnið Skrauta sé líka endurunnið. „Þessi fataframleiðsla mín heitir eftir Skrautu sem var hraust og vel mjólkandi kýr á Neistastöðum í Flóa, en maðurinn minn er þaðan. Hann er byggingarverktaki í dag og fyrirtækið hans heitir líka Skrauta. Þar fyrir utan á nafnið vel við flíkurnar sem ég sauma, þær eru nokkuð litríkar og fyrir vikið skrautlegar.“Eins og undirtitill fyrirtækisins gefur til kynna, endurtekið efni, saumar Sigga einvörðungu fatnað úr notuðu efni. „Ég byrjaði á að sauma úr afgöngum frá mér sjálfri, flíkum og fleiru, en vinkonur mínar gefa mér líka mikið af fötum og hvers konar textíl til að sauma úr. Ég kaupi líka útsaumaða púða hjá Rauða krossinum og nota þá í fötin, mér finnst spennandi að margir púðar eru hálfsaumaðir, á bak við það eru einhverjar sögur, sem mér finnst fallegt, en ég nota útsauminn mikið í bak á flíkum,“ segir Sigga og bætir við að hún þiggi allt efni, fólki sé velkomið að koma til hennar því sem það vill losa sig við.
„Ég þarf að hafa góða hrúgu af því að það getur verið kúnst að velja það sem passar saman, þetta er púsl. Efnisgerðin þarf að vera svipuð sem og áferðin og litirnir að passa saman. Ég nota það sem ég get notað og fer með restina í Rauða krossinn. Ég nota til dæmis alls konar buxur og pils mikið í ermar.“
Með vinnustofu í bátaskýli
Sigga segir að hún hafi lítið getað komið flíkunum sínum á framfæri í Covid-tíðinni. „Tvisvar hefur hönnunarmarkaðinum í Ráðhúsinu verið frestað og sama er að segja um markaðinn fyrir norðan á Hrafnagili, en til stóð að ég yrði með á báðum þessum mörkuðum. Ég hef því safnað upp góðum lager og býð upp á opna vinnustofu í bátaskýli við Hvaleyrarlón í Hafnarfirði. Þangað eru allir velkomnir og ég hef boðið saumaklúbbum líka að koma þangað, en mig vantar stað til að hafa þetta til sölu, til að ná hringrásinni. Ég var á tímabili með flíkurnar til sölu í Skúmaskoti, galleríi á Skólavörðustíg, en ég gerðist meðlimur hjá þeim frábæru konum sem þar eru í tæpt ár. Það krafðist of mikillar viðveru svo ég gafst upp,“ segir Sigga sem starfar sem myndmenntakennari í Tækniskólanum. Hún sinnir því saumaskap fyrir Skrautu í hjáverkum.„Margir segja að ég selji flíkurnar of ódýrt, en ég vil endilega hafa þær á viðráðanlegu verði. Þær verða ekkert merkilegri við að vera rándýrar. Mér finnst gaman að einhver vilji klæðast þessu og hjá Skrautu eru engar tvær flíkur eins, mér finnst það eftirsóknarvert. Ég reyni að hafa þær eina stærð, og þar sem ég er sjálf í XL þá hef ég sumar vel stórar.“