— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Hvaða fyrirtæki eða hópur er Sælar? Við vorum þrjár vinkonur sem höfðum klárað Landvættina og fundum mikla hamingju í því að vera saman úti að leika okkur. Við fengum hugmynd í Covid og stofnuðum Sælar.
Hvaða fyrirtæki eða hópur er Sælar?
Við vorum þrjár vinkonur sem höfðum klárað Landvættina og fundum mikla hamingju í því að vera saman úti að leika okkur. Við fengum hugmynd í Covid og stofnuðum Sælar.is sem er vefsíða þar sem við fjöllum um útivist og hreyfingu. Mottóið okkar er: Aldrei hætta að hreyfa sig. Við erum líka að selja þar vörur sem okkur finnst fallegar.
Hvaða vörur seljið þið?
Við erum að selja peysur, úlpur, skíðagalla og mjög flotta sokka. Það skiptir máli í og eftir útivist að vera í fallegum fötum.
Hvað hefur hópurinn gert fyrir þig?
Það hefur orðið mikil lífsstílsbreyting hjá okkur og við erum alltaf úti að leika. Það sem er svo mikilvægt er að drífa sig út þrátt fyrir kulda og leiðinlegt veður. Það er svo gott að finna æfingafélaga og segja já við lífinu og þeim tækifærum sem bjóðast til að vera úti. Í hópnum er í raun bannað að segja nei ef einhver stingur upp á að fara út að leika.
Hvernig viljið þið miðla gleðinni til annarra?
Við höfum efnt til samhlaupa, eins og við köllum það. Þá búum við til facebookviðburð og bjóðum öllum sem vilja koma og vera með okkur að hjóla, hlaupa, skíða eða synda. Við erum að hvetja okkur sjálfar í leiðinni og hafa gaman en hugsanlega líka að hvetja aðra til að gera það sama. Næsta miðvikudag erum við með samhlaup við Hvaleyrarvatn og hvetjum alla til að koma. Það er mikil gleði í útiveru og oft góður vinskapur sem skapast.
Hrönn Marinósdóttir, Sóley Elíasdóttir og Karen Þórólfsdóttir standa að baki saelar.is. Þar má finna fróðleik um útivist en einnig er þar til sölu fatnaður. Á miðvikudag, 26. janúar, efna þær til samhlaups við Hvaleyrarvatn klukkan 17.30 og eru allir velkomnir.