Sigríður Jóhannsdóttir, Sissý, fæddist 20. júní 1952. Hún lést 2. janúar 2022.

Útför Sigríðar fór fram 21. janúar 2022.

Elsku Sissý frænka. Ekkert okkar var búið undir fréttirnar sem komu hinn 2. janúar um að þú værir búin að kveðja þennan heim. Erfitt, óraunverulegt og sárt er það, en víst lítið hægt að gera nema halda hvert utan um annað og hugsa um gamlar og góðar minningar, því þessari ömurlegu staðreynd fáum við ekki breytt.

Sissý föðursystir mín var stór partur af lífinu í mínum uppvexti eins og stórfjölskyldan öll og tengist ógleymanlegum og nú enn dýrmætari samverustundum eins og laufabrauðsgerð, sumó, jólaboðum og mörgu fleiru. Mér þykir vænt um að eiga myndir af henni með báðum börnunum mínum en því miður urðu samverustundirnar síðastliðin tvö ár færri en við hefðum viljað vegna aðstæðna í samfélaginu.

Elsku Balli, Bryndís, Jóhann, Baldvin og fjölskyldur, haldið vel hvert utan um annað og megi það veita ykkur styrk til að takast á við sorgina.

Kristveig og fjölskylda.

Elsku Sissý mín, takk fyrir samfylgdina í gegnum lífið.

Vinátta er ein af fallegustu gjöfum sem okkur hafa verið gefnar.

Sönn vinátta hefur fylgt okkur alla tíð síðan við vorum litlar stelpur. Þegar ég hugsa til þín, elsku vinkona, þá kemur upp í hugann traust, hlátur og kærleiksrík samvera.

Ég mun sakna þín endalaust. Hugur minn er hjá þinni yndislegu fjölskyldu.

Þín æskuvinkona,

Erna Björk.

Landspítalann ber oft á góma þessa dagana enda heimsfaraldur í gangi. Þar vinnur mikið af góðu fólki óeigingjarnt starf en samt gefandi. Undirritaður starfaði þar lengi og kynntist mörgum. Sigríður Jóhannsdóttir hjúkrunarfræðingur var einn þessara starfsmanna og áttum við langt og farsælt samstarf.

Hún var ein af þeim sem höfðu mikil áhrif á þróun þvagfæraskurðdeildar spítalans. Hún og Gunnjóna Jensdóttir voru meðal annarra í forystu þegar nýrnasteinbrjótur var tekinn í notkun árið 1993. Nokkrum árum seinna útskrifuðust þær sem uroterapeutar, sérfræðingar í hjúkrun og rannsóknum neðri þvagfæra, frá Gautaborgarháskóla, fyrstar hér á landi. Síðan fylgdu aðrir í kjölfarið. Göngudeild þvagfæraskurðlækninga varð að veruleika og hefur starfað síðan með miklum sóma. Sigríður átti farsælan starfsferil þar í fjölda ára og er ekki svo langt síðan hún lauk störfum.

Hún hafði marga kosti sem komu vel fram í hennar starfi, samviskusöm, ósérhlífin og ekki hrædd við að leita ráða. Sjúklingarnir dáðu hana.

Eins og oft á vinnustað þar sem mikil er nánd kynnist maður oft fólki vel og fjölskyldu þess. Hún sagði frá veru sinni í Bandaríkjunum sem barn þegar foreldrar hennar voru þar um skeið.

Við kveðjum Sigríði með virðingu og þakklæti. Við Guðrún sendum Baldvini og fjölskyldu samúðarkveðjur.

Guðmundur Vikar Einarsson.

Á kveðjustund Sissýjar saumó- og hollsystur okkar logar kertaljós og íslenski fáninn blaktir í suðrænni hlýrri golunni sem Sissý lék sér í á æskuárum sínum í Alabama og hún talaði svo oft um. Lengi höfum við rætt um að þið Balli kæmuð í heimsókn og við heimsæktum æskuslóðirnar, en nú rúllum við þangað með rós fyrir þig.

Haustið 1971 hófum við nám við Hjúkrunarskóla Íslands. Skólinn var þrjú ár, bókleg námskeið og verkleg vinna á ýmsum deildum spítalanna, í þá tíð vorum við skráður vinnukraftur, á lúsarlaunum og unnum allar vaktir, virka daga sem helgidaga, dag-, kvöld- og næturvaktir. Það fór ekki mikið fyrir Sissý í fyrstu enda ekki mjög há vexti en í ljós kom stór sterk kona, mjög skipulögð fagmanneskja sem var virt í leik og starfi og gaman að njóta samveru við. Alltaf stutt í húmorinn.

Í bókinni Líkn og losti, sem við gáfum út við útskrift okkar, J-holls HSÍ, stendur um Sissý: „En sem 2. árs nemi fékk hún akut appendecitis og var opereruð í vinnutímanum. Er á leið fór marga að gruna að eitthvað hefði „gleymst“ inni í maga hennar því hún fór að þykkna skemmtilega undir belti. En komandi dóttir var mömmu sinni svo góð að gegnum öll prófin í 3. árs námskeiði fór Sissý og í vikunni á eftir ól hún hið þolinmóða barn, síðasta prófið var fæðingarhjálp.“

Í HSÍ mynduðust tengsl og vinátta sem við saumósystur og hollsystur hennar höfum notið alla tíð síðan. Alltaf mætt og alltaf til í að taka þátt í saumaklúbbi, hollfundum, og þegar haldið hefur verið upp á útskriftarafmæli hópsins, og oftast í undirbúningsnefndum.

Sissý var mikil fagmanneskja, sótti námskeið og framhaldsmenntun á Íslandi og í Svíþjóð. Hún var ein af fyrstu sérhæfðu hjúkkunum í urotherapiu og vann við það á Landspítalanum alla tíð, „það var svo gaman í vinnunni“. Hún var mjög virt af skjólstæðingum sínum og samstarfsfólki. Alltaf að kenna og deila þekkingu sinni. En mest af öllu var hún fjölskyldumanneskja sem ræktaði garðinn sinn. Hún mundi alla tyllidaga hjá fjölskyldu og vinum, þekkti næstum alla og ef við þurftum að setja saman einhvern skyldleika einhvers eða leita einhverra ráða var hringt í Sissý. Hún mundi líka að ein saumósystir borðaði ekki beikon og þar með var eitt horn ofnréttarins í saumaklúbbnum beikonlaust.

Við, fjölskylda hennar, saumósystur, hollsystur og vinir, höfum misst mikið og heilbrigðisstéttin eina af sínum bestu hjúkkum.

Það eru svo margar minningar sem koma upp á svona stundu, sem kom allt of fljótt. Þær eru það dýrmætasta sem við eigum, þær geymast í huganum og ylja okkur um hjartarætur.

Við sólarupprás og sólsetur, í vetrarkulda, vindi og snjó, við sólaryl og á sumarnóttum minnumst við þín.

Elsku Balli og fjölskylda, Guð gefi ykkur styrk.

Kær kveðja frá saumó- og J-hollssystrum,

Björg Ólafsdóttir.

Sorg og söknuður og minningarnar streyma fram. Minningar um stórkostlega konu. Fínleg falleg kona, með stórt bros og smitandi hlátur. Kona sem lét sig hlutina varða og verkin tala. Hjúkrunarfræðingur. Ég var svo lánsöm að hitta Sigríði á Landspítalanum og með okkur tókst einstök vinátta. Það er henni að þakka, hún tók mig í faðm sinn, eins og hún einatt gerði. Líf okkar var samofið í langan tíma, jafnt í leik og starfi. Deildum sorgum, gleði og sigrum. Samstarf okkar var áreynslulaust, skemmtilegt og gefandi. Hún var svo félagslynd, fróðleiksfús, áhugasöm, minnug, glaðvær og umvefjandi að það var unun að vera ferðafélagi hennar, heima og erlendis. Í vinnunni, í náminu í Gautaborg, á ráðstefnum, á gönguferðum um Ísland og erlendis. Svo margt gæti ég sagt, en mér er tregt um tungu. Eftir stendur minning um frábæra konu, sem hefur verið mér einna kærust. Hún markaði alstaðar spor, hvar sem hún kom, vegna mannkosta sinna og gæsku. Það er svo sárt að hún fékk ekki lengri tíma, tíma til að njóta, eftir langa starfsævi. Ég sakna hennar og votta aðstandendum hennar mína dýpstu samúð.

Gunnjóna.

Sissý, kær vinkona, er fallin frá, „stelpur mínar, munið að lífið er núna“ skrifaði hún okkur af spítalanum þegar hún tilkynnti okkur um veikindin. Nokkrum vikum síðar var hún látin. Eftir stöndum við, saumaklúbbsvinkonur hennar, í sorg og söknuði og gerum okkur grein fyrir því hve lífið er í raun stutt og fallvalt.

Sissý ólst upp í Hvassaleitinu og sumar okkar hafa þekkt hana frá því í Ísaksskóla. Það var svo í Gagnfræðaskóla Austurbæjar sem við komum saman í skemmtilegum kvennabekk í verslunardeild skólans. Þar var oft glatt á hjalla og við misduglegar við námið en Sissý var ein af þeim samviskusömu og varð fljótt góð vinkona, skemmtileg, létt á fæti, nett og brosmild. Hún var þroskuð, skynsöm og veraldarvön stelpa og hafði m.a. búið í Ameríku um tíma með fjölskyldunni þar sem pabbi hennar var við nám í tannlækningum. Eftir gagnfræðapróf fórum við hver í sína áttina og í ólíkt framhaldsnám. Sissý valdi hjúkrunarnám og það átti svo sannarlega vel við hana. Við hófum síðar okkar fullorðinslíf með eiginmönnum, húsbyggingum og barneignum en sumar héldu sambandi frá skólaárunum. Seinna fórum við að hittast og koma saman sem saumaklúbbur. Það er ómetanlegt að eiga vinkonur sem hafa verið samferða í um 50 ár. Saumaklúbbinn nefnum við „Alt for damernes syklub“, sem einni okkar fannst tilvalið nafn fyrir okkur. Sissý var ein af þessum hressu og jákvæðu konum, sem alltaf eru tilbúnar að aðstoða, hugga eða hjúkra ef til þeirra var leitað. Hún var sérlega umhyggjusöm og fylgdist vel með fjölskyldum okkar og að öllum liði vel. Það var oft líf og fjör í klúbbnum okkar og bar aldrei skugga á, en við tókum líka þátt í gleði og sorgum hver annarrar, ýmsum vandamálum, skilnuðum, veikindum og foreldramissi eftir því sem árin liðu. Árlega fórum við saman í sumarbústað þar sem ýmislegt var krufið til mergjar í heita pottinum og ýmist hlegið eða grátið. Utanlandsferðir með og án maka voru líka farnar, m.a. til Barcelona og nú síðast til Póllands. Stundum kom klúbburinn saman á veitingahúsi en eftirminnileg er kvöldstund heima hjá Sissý og Baldvini 2019, stuttu eftir að þau fluttu í nýja húsið sitt í Mosfellsdalnum. Við fylgdumst með hvernig gekk í byggingarferlinu og Sissý var spennt að flytja í framtíðarhúsnæði á gömlum æskuslóðum og við forvitnar að sjá nýja húsið.

Þessi kvöldstund var frábær í alla staði, hún sýndi okkur stolt allar vistarverur og Jóhann sonur hennar sá um matinn og dekraði við okkur ásamt Baldvini í mat og drykk. Allar þessar minningar með Sissý, sem safnast hafa í minningabankann í áranna rás, munum við geyma í hjarta okkar um ókomna tíð.

Takk fyrir allt elsku vinkona.

Aðalsmerkið: elska og fórna

yfir þínum sporum skín.

Hlý og björt í hugum okkar

hjartkær lifir minning þín.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Innilegar samúðarkveðjur færum við Baldvini, börnum og fjölskyldu,

Arngunnur (Adda), Birna, Elín Fanney (Ella), Guðrún (Gunna), Ingibjörg (Igga), Kolbrún (Kolla), Magnea, Jónína (Níný), Oddný,

Rut og Svana.