— Ljósmynd/Szilvia Micheller
Íslendingar hafa gert það gott á Evrópumótinu í handbolta. Þrír sigrar í riðlakeppninni voru frábær árangur og þá þegar gátu landsmenn verið stoltir af fulltrúum sínum í Búdapest. Pest reyndist því miður réttnefni á þeirri ágætu borg að þessu sinni því að eftir riðlakeppnina voru sex leikmenn komnir með pestina og bannað að leika.

Íslendingar hafa gert það gott á Evrópumótinu í handbolta. Þrír sigrar í riðlakeppninni voru frábær árangur og þá þegar gátu landsmenn verið stoltir af fulltrúum sínum í Búdapest. Pest reyndist því miður réttnefni á þeirri ágætu borg að þessu sinni því að eftir riðlakeppnina voru sex leikmenn komnir með pestina og bannað að leika.

Það áfall dugði fyrir heimsmeistara Dana sem unnu Íslendinga í milliriðli. Landsliðsþjálfari Dana sagði að enginn vildi vinna á þennan hátt, og áttaði sig bersýnilega á því hve sterkt lið Íslands var þrátt fyrir veikindin og hve ósanngjörn niðurstaðan var, þó að vissulega sé engin skömm að því að liggja fyrir heimsmeisturunum.

En næstir voru ólympíumeistararnir og þá hafði veiran náð fleirum í íslenska liðinu, samtals átta af reyndustu mönnum liðsins komnir af velli hennar vegna. Ekki var það fyrirfram vænlegt, en þá kom í ljós að íslenska liðið hafði jafnað sig á áfallinu, þétt raðirnar og bitið í skjaldarrendur.

Frakkar mættu feikisterku liði, hreinum ofjarli, og máttu sætta sig við átta marka tap. Versta tap Frakka og mesti sigur Íslendinga. Einn besti leikmaður Frakka sagði Íslendinga hafa valtað yfir franska liðið. Frakkar eiga ekki slíku að venjast í handbolta.

Íslendingar gleðjast og hafa ríka ástæðu til.