Á aðeins örfáum vikum hefur þeim sem smitast af undirafbrigði ómíkron, sem nefnist BA.2, fjölgað til muna í Danmörku.

Á aðeins örfáum vikum hefur þeim sem smitast af undirafbrigði ómíkron, sem nefnist BA.2, fjölgað til muna í Danmörku. Afbrigðið hefur einnig breiðst út í öðrum löndum en í Danmörku, þar á meðal í Noregi, Svíþjóð og Bretlandi, en þar hefur útbreiðslan ekki orðið nærri jafn hröð.

Útbreiðsla afbrigðisins gefur ekki tilefni til að hafa áhyggjur, segir Anders Fomsgaard, veirufræðingur og yfirlæknir hjá dönsku heilbrigðisstofnuninni SSI, í samtali við fréttastofu TV2.

Samkvæmt tölum SSI í lok síðustu viku er tæplega helmingur allra smita í Danmörku af völdum þessa undirafbrigðis og aðeins tímaspursmál hvenær það verður ríkjandi afbrigði.

Virðist ekki veikjast af BA.2

Fomsgaard sagði við dönsku fréttastofuna TV 2 að við fyrstu sýn virtist fólk ekki veikjast af völdum BA.2.

Eins og áður sagði hefur útbreiðslan hvergi mælst á sama hraða og í Danmörku.

Anders Fomsgaard segist ekki hafa skýringar á því hvers vegna það sé en segir SSI vinna stöðugt að því að kanna muninn á þessum tveimur undirafbrigðum.

Norska ríkisútvarpið greindi einnig frá því fyrir helgi að undirafbrigði ómíkron, BA.2, væri á fullri ferð í Noregi samkvæmt vikuskýrslu lýðheilsustofnun Noregs, FHI. Sagði þá að eini eiginleiki afbrigðisins sem væri þekktur væri sá að það væri meira smitandi en BA.1.

Svenska Dagbladet greindi einnig frá útbreiðslu afbrigðisins þar í landi og sagði það hafa breiðst hratt út.

Hægt að smitast af báðum

Fomsgaard sagði í viðtali á föstudag að BA.2 gæti hugsanlega ógnað hjarðónæmi því hægt væri að smitast af BA.1-afbrigðinu fyrst og síðan stuttu síðar af BA.2. Slík tilfelli hefðu komið upp í Noregi.

„Ef það sama gerist í Danmörku gæti verið að við yrðum að sætta okkur við að faraldurinn nái hámarki aftur,“ sagði Fomsgaard. En bætti við að það væri enn bara fræðilegur möguleiki og óhóflegar áhyggjur væru óþarfar.

gunnhildursif@mbl.is