Hjördís Einarsdóttir fæddist 11. júní 1930 á Esjubergi, Akranesi. Hún lést á Hrafnistu 31. desember 2021.

Hjördís var dóttir hjónanna Guðbjargar Lísbetar Kristjánsdóttur, f. 12.1. 1887 á Norður-Brá í Eyrarsveit, d. 1.9. 1979, og Einars Jónssonar, f. 21.4. 1885 á Sauðhaga á Völlum, d. 29.7. 1969.

Börn Einars og Guðbjargar voru níu talsins: Þóra, f. 1913, d. 2000, Hulda, f. 1914, d. 1982, Þórdís, f. 1916, d. 1983, Guðlaug, f. 1918, d. 2004, Sigurlín, f. 1919, d. 2001, Anna, f. 1921, d. 1998, Beta, f. 1923, d. 2018, Hildur, f. 1927, d. 2002, og Hjördís, f. 1930 d. 2021.

Hinn 16. desember 1950 giftist Hjördís Sveini Þóri Þorsteinssyni, f. 1929 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Þorsteinn Loftsson, f. 1904, d. 1976, og Sveiney Guðmundsdóttir, f. 1906, d. 1991.

Barn Hjördísar og Sveins er Lísbet Guðbjörg myndlistarmaður, f. 1952. Lísbet er gift Árna Þór Árnasyni, f. 1947, og börn þeirra eru: 1) Sveinn Þórir Geirsson leikari, f. 1971, börn hans Ragnar Steinn, f. 1996, Diljá, f. 1999, og Lísbet, f. 2002. Eiginkona Sveins er Tinna Hrafnsdóttir, f. 1975, börn þeirra Jökull Þór, f. 2012, og Starkaður Máni, f. 2012. 2) Hjördís myndlistarmaður, f. 1973, barn Árni Þór Ragnarsson, f. 2010. 3) Þórdís Hulda nemi, f. 1995.

Hjördís vann í 10 ár sem ritari á skrifstofu Framsóknarflokksins. Hún rak einnig gistiheimili á Ránargötunni í nokkur ár. Sveinn starfaði lengst af hjá Flugfélagi Íslands og sem skrifstofustjóri fraktdeildar síðustu árin.

Árið 1977 taka Hjördís og Sveinn sig upp og flytjast búferlum vestur í Dali og settust að á jörðinni Hnúki í Klofningshreppi sem þau höfðu fest kaup á. Bjuggu þar og stunduðu hefðbundinn búskap næstu árin. Sveitin var einnig kærkominn sumardvalarstaður fyrir barnabörnin, sem dvöldu flest sumur hjá ömmu sinni og afa.

Á þessum árum gaf Hjördís út ljóðabókina „Ferðin til sólar“ og annaðist Helgafell útgáfuna. Áður höfðu birst ljóð eftir hana í tímariti Máls og menningar sem og í Lesbók Morgunnblaðsins. Hjördís kom fram á Listahátíð og ýmsum menningarviðburðum þar sem hún las upp ljóð sín. Hún var meðlimur í Rithöfundasambandi Íslands.

Árið 1985 seldu Hjördís og Sveinn jörð sína vestur í Dölum og fluttust til Reykjavíkur.

Í lok níunda áratugarins verða enn tímamót í lífi þeirra er þau ákveða að flytjast til Portúgals, festu kaup á húsi og landi sem þau ræktuðu upp af miklum myndarskap.

Þau flytja svo aftur heim til Íslands 1996, rétt eftir fæðingu síðasta barnabarnsins. Síðustu árin bjó Hjördís hjá sínum nánustu á Skólavörðustígnum og dvaldi gjarnan á sumrin með fjölskyldu sinni norður í Hrísey meðan heilsan leyfði.

Útför Hjördísar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 24. janúar 2022, klukkan 15.

Það eru aðeins nokkrir samferðamenn í lífinu sem eru svo sérstakir að það að hafa fengið tækifæri til að eiga með þeim samleið er gjöf í sjálfu sér, þannig minnist ég hennar, elsku tengdamóður minnar, hennar Hjöllu.

Þau eru orðin nokkuð mörg árin frá okkar fyrstu kynnum. Þá bjuggu hún og Dói ásamt augasteininum sínum henni Lísu á Ránargötunni. Mér er enn í minni þessi fyrsti fundur okkar. Í loftinu lágu vangaveltur á borð við: „Hver er þessi himnalengja, hvað sér augasteinninn okkar við hann?“

Í kjölfarið komu svo margar spurningar frá Hjöllu eins og: „Hverra manna?“ Fæddur og uppalin í Reykjavík. „Námsmaður?“

Ungi maðurinn var alls ekki vanur svona spurningaflóði né áhuga um fortíð sína.

Þarna upplifði ég þennan einlæga áhuga hennar á fólki og samferðamönnum sem hefur einkennt hana alla tíð, öllum til mikillar gleði og ánægju.

Dói hélt sig hins vegar ögn til baka og hugsaði eðlilega: „Skyldi hann vera matvinnungur?“

Síðan eru liðin öll þessi ár og margar ánægjulegar minningar leita á hugann. Ég verð að nefna ljóðlistina, sem var hennar hugarfóstur út lífið.

Hvort sem það var í sveitinni fyrir vestan eða við eldhúsborðið á Skólavörðustígnum minnist ég góðra samverustunda okkar. Við ræddum þá allt milli himins og jarðar, samferðafólk, undur lífsins og skáldskap.

„Árni, það kom til mín svo fallegt ljóð í nótt, má ég leyfa þér að heyra“:

Manstu vinur

eftir vorinu okkar?

Manstu eftir

kristalshöllinni

og silfurgjörðinni?

Manstu eftir mér?

Í vetur hef ég párað

sólir

á frostrósirnar

á glugganum mínum

og beðið eftir þér

Vorið var hennar árstíð, þegar gróandinn og lífið vaknar af löngum vetrardvala. Mörg ljóða hennar tengjast því vorinu með einum eða öðrum hætti.

Henni var einnig ákaflega umhugað um velferð dýra og alls sem lifði og það má segja að í henni hafi raungerst orðatiltækið „að gera ekki flugu mein“. Dýrin skynjuðu þessa gæsku hennar vel, og hændust að henni alla tíð.

Nú ert þú farin elsku Hjölla mín, en minningu þína geymum við hin sem eftir stöndum í hjörtum okkar.

Hver veit nema við hittumst síðar, en bæði höfðum við trú á að það væri eitthvað meira.

Árni Þór.

Amma mín Hjördís Einarsdóttir var einstök kona. Hún var ein skemmtilegasta manneskja sem ég hef kynnst á minni ævi og er ég þakklátur fyrir að hafa fengið að hafa hana í lífi mínu til 50 ára aldurs. Með henni eignaðist ég margar af mínum bestu og dýrmætustu minningum sem ég mun geyma í hjarta mínu svo lengi sem ég lifi.

Amma Hjölla og afi Dói voru mikið ævintýrafólk. Þegar ég var fimm ára festu þau kaup á bújörð í Dalasýslu eftir að hafa búið í Reykjavík alla sína tíð, þá komin hátt á fimmtugsaldur. Í átta ár fengum ég og Hjördís systir mín að dvelja í faðmi þeirra og fjallanna þegar frí var frá skóla sem var ógleymanlegur tími.

Amma var mikil tilfinningavera og átti bændabúskapur ekkert sérstaklega vel við hana. Í fyrsta sauðburðinum fyrir vestan gaf hún litlu lömbunum sem voru að fæðast falleg nöfn og var það því henni einstaklega erfitt að sjá á eftir þeim um haustið. Innan fjölskyldunnar var stundum gantast með það hversu mikill „rómantíker“ hún væri, en það var einmitt það sem gerði hana svo einstaka. Hún átti svo auðvelt með að tengjast bæði fólki og dýrum, tjá tilfinningar sínar og deila þeim óspart með öllu sínu fólki.

Ömmu þótti fátt skemmtilegra en að spila; bridge, manna, rommý, lander og Didduspilið. Hún hafði einstakt lag á að skapa lifandi stemningu í kringum spilamennskuna. Hún talaði nánast stanslaust meðan á spili stóð og fór með alls konar frasa sem voru svo einkennandi fyrir hana: „Kom så på båden!“, „Nú kemur til Teits og Siggu!“, „Einn er hver einn, enginn fastur í landi!“ (það vissi enginn hvað þetta þýddi nákvæmlega), „Uss, ég á ekkert!“, „Bölvað rusl er þetta, ekkert nema hundar!“ svo eitthvað sé nefnt. Síðasta mánuðinn sem hún lifði var hún orðin mjög veikburða en alltaf vildi hún rífa sig á lappir til að „taka einn slag“. Ég spilaði síðasta spilið við hana einungis örfáum dögum áður en hún fór frá okkur. Og ég geymi stigagjöfina enn. Því kannski hittumst við aftur amma mín og þá getum við klárað spilið.

Amma var ein af þeim sem hugsa stundum upphátt, sagði hlutina án þess að ritskoða þá. Hún talaði því oft meir en margur en það sem hún sagði var alltaf svo jákvætt og gefandi. Þannig gat hún búið til lítil ævintýri úr einhverju sem annars var venjulegt og hversdagslegt.

Eitt sinn fórum við systir mín í ferðalag um Suðurlandið, austur í Suðursveit með ömmu og afa, bara við fjögur. Á leiðinni voru samdar vísur um hvern kaupstað sem við keyrðum í gegnum, en á milli þess sat amma í framsætinu og vakti athygli á því sem fyrir augu bar af sinni einstöku snilld og þannig varð til ógleymanlegt ævintýri.

Elsku amma mín, takk fyrir allar þínar góðu gjafir, ég mun ávallt sakna þín.

Sveinn Þórir Geirsson.

Það mætti segja sem svo að hún elsku amma mín skilji eftir sig afgerandi gat í mínu lífi og að nú séu kaflaskipti. Hún flaug í gegnum lífið með sínum einstaka hætti og hafði varanleg áhrif á alla sem fengu að kynnast henni. Það verður seint sagt hún hafi verið hefðbundin amma en hvað hefði verið gaman við það? Nei, hún málaði lífið með breiðum pensli og skærum litum. Hún var alltaf forvitin og hafði óendanlegan þorsta fyrir lífinu alveg fram á síðasta dag. Síðustu árin gat líkaminn ekki borið þessa eldmóðu sál lengur svo hún treysti á sitt fólk að lifa lífinu til hins ýtrasta og bera hana með sér í huganum. Frá mér vildi hún helst fá sögur um rómans og var alltaf ferlega svekkt þegar ekkert var að frétta og sagði reglulega „æ góða besta slettu aðeins úr klaufunum, það er fátt skemmtilegra í lífinu en að verða ástfangin“. Þótt ég hafi nú ekki alltaf getað skilað af mér jafn krassandi sögum og hún hefði viljað þá var alltaf ómetanlegt að koma til hennar og ræða lífið. Hún var full af innsæi og visku en öðru fremur var hún svo fordómalaus og opin fyrir öllu, svo við gátum setið tímunum saman og drukkið kaffi, spilað spil og rætt um allt og ekkert. Það mun enginn geta komið í hennar stað en hún gaf mér þá dýrmætu gjöf að vita að lífið er stutt og ástin gefur því lit, svo það er skylda manns að njóta hvers dags, sama hvað hann hefur upp á að bjóða. Hvíldu í friði amma mín, ég veit að afi tekur vel á móti þér með kaffi og sígó við hönd. Elska þig þúsundfalt.

Þórdís Hulda Árnadóttir.

Hjölla ömmusystir mín var sérlega skemmtileg, heillandi og yndisleg kona. Ósjaldan heimsóttum við mamma hana, eiginmann hennar, Dóa, og hundinn Birtu; fyrst á Bragagötuna en síðar á Skólavörðustíginn. Til þeirra var alltaf ljúft að koma en iðulega snöruðu þau fram veisluborði og oftar en ekki buðu þau upp á nýsteikta parta. Raunar finnst mér eins og Hjölla og Dói hafi alltaf verið að steikja parta þegar við drápum á dyr, og hvílíkir partar, þeir bestu sem ég hef smakkað.

Dýraástina áttum við Hjölla sameiginlega en það er henni að þakka að ég fór í hundana. Þegar ég var unglingur eignaðist Birta nefnilega hvolpa og sá Hjölla þá til þess að ég fengi einn þeirra. Það gekk að vísu ekki þrautalaust fyrir sig því foreldrar mínir voru ekki á þeim buxunum að taka við hvolpi, þegar með kött á heimilinu. Í Hjöllu átti ég þó bandamann en ég held að hún hafi ákveðið um leið og ég sá hvolpana í fyrsta sinn að einn þeirra skyldi verða minn; og þvílík gleði sem sú sameining átti eftir að hafa í för með sér.

Alltaf var Hjölla hrókur alls fagnaðar hvar sem hún fór enda einstök sagnakona, fróð og skemmtileg. Hún var einkar vel lesin í bókmenntum en þegar við hittumst ræddum við iðulega saman um skáldskap og skiptumst á skoðunum um það sem við höfðum verið að lesa. Eitt sinn tók Hjölla þátt í lestrarrannsókn hjá mér og ólíkt öllum öðrum þátttakendum vissi hún strax hverjir hefðu samið textana sem ég bað hana um að lesa og úr hvaða bókmenntaverkum þeir væru. Það kom mér reyndar ekki á óvart, hún hafði lesið allt og mundi allt. En skáldskapurinn var líka einkennandi fyrir Hjöllu sjálfa því hún orti gullfalleg ljóð og þótt hún hafi aðeins sent frá sér eina ljóðabók átti hún heilu staflana af ljóðum sem hún hafði ort í gegnum tíðina. Ég var svo lánsöm að fá að fara í gegnum ljóðin hennar með henni fyrir fáeinum árum, hlusta á hana flytja þau af einstöku næmi og heyra sögurnar á bak við skáldskapinn. Í ljóðunum dró Hjölla upp áhrifaríkar myndir, gerði tilraunir með stílbrögð og miðlaði ólíkum tilfinningum á magnaðan hátt. Ljóðið yfirgaf Hjöllu aldrei því hún var sífellt að yrkja ný ljóð; meira að segja fór hún með splunkunýtt ljóð eftir sig þegar við mamma heimsóttum hana í síðasta sinn, nokkrum dögum fyrir síðustu jól. Það er því vel við hæfi að minnast Hjöllu með „Ferðalagi“, einu af fallegu ljóðunum hennar sem birtist í ljóðabókinni Ferðin til sólar:

Sporin á hólnum

minna enn á veturinn.

Ég er að rækta

baldursbrá í krús

og hlaða hundrað vörður.

Vörður sem vísa veginn

til sólar.

Blátt hafið og gul birtan

eru að brjóta ísinn

frá bryggjunni.

Báturinn minn losnar.

Þá sigli ég til sólar

með baldursbrá í krús.

Vörðurnar vísa veginn.

Það er einstök gæfa að hafa átt frænku eins og Hjöllu. Ég þakka henni fyrir fallegu ljóðin, skemmtilegu sögurnar, sterka góða kaffið og alla hlýjuna. Minningarnar um yndislega frænku munu lifa og ylja um ókomna tíð. Lísu, Árna, börnum þeirra og barnabörnum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Guðrún Steinþórsdóttir.

Elsku Hjölla mín. Hugurinn er fullur af minningum um þig og margt sem ég vildi minnast á og þakka fyrir.

Ég var bara ung sveitastúlka, 18 ára, þegar ég kom til ykkar fjölskyldunnar. Þar upphófst góður vetur hjá mér. Ég var á leiðinni í myndlistarskólann. Hjölla móðursystir mín var dásamleg manneskja. Ég hlakkaði alltaf til að koma heim úr skólanum og vildi oft ekki fara aftur. Bara vera heima hjá þér, Hjölla mín. Tíminn leið og ýmislegt gerðist hjá okkur báðum. En alltaf hélst vináttan og væntumþykjan. Ég eignaðist fjölskyldu og tvö börn, Gullu og Óla Pétur. Þegar Gulla og Baldur maðurinn hennar byrjuðu búskap sinn var það í húsnæði sem þið Dói áttuð. Þegar þið Dói fluttuð síðan tímabundið til Portúgals komum við Óli maðurinn minn að heimsækja ykkur. Það var skemmtilegur tími. Seinna keyptum við hús í Ungverjalandi þangað sem þið Dói komuð nokkrum sinnum að heimsækja okkur. Sá tími sem við áttum þar er ógleymanlegur. Hjölla kunni vel til verka við gróðursetningu og hún hjálpaði okkur á því sviði í Ungverjalandi. Blómabeðið og margt fleira vakti eftirtekt. Auk þess standa nú þar tvö stór magnólíutré, upprunnin á Indlandi, sem Hjölla valdi og greiddi sem hafa vakið verulega athygli. Þessi tré hafa alltaf gengið undir nöfnunum magnólían Hjölla og magnólían Lísbet, eftir þeim mæðgum.

Elsku Hjölla mín, þín er sárt saknað. Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig.

Ég gæli við blómið sem þú gafst mér

nú er ilmur þess beiskur

og blöðin drúpa.

Ef ég kyssi það

þá falla blöðin af

og krónan situr eftir

og grætur.

(Nína Björk Árnadóttir)

Þín frænka,

Guðbjörg Guðmundsdóttir.

Hjördís Einarsdóttir lést á gamlársdag. Náði ekki að þrauka fram á árið 2022 en Hjölla hafði náð svo ótrúlega oft að lengja líf sitt að það var eins og hún ætti fleiri líf en kötturinn. „Ætli ég sé ekki að deyja núna,“ hafði hún ítrekað sagt við mig þegar hún lagðist inn á spítala milli þess sem hún fór með eitt ljóða sinna.

Hjölla var yngst níu systra sem voru hver annarri skörulegri og kvenforkar. Fátt var skemmtilegra i æsku en að fá einhverja þeirra í heimsókn að Kiðafelli og toppurinn var í veislum þegar allar voru samankomnar. Seinna var yndislegt að fá þær í heimsókn eða heimsækja þar sem alltaf var svo mikið líf í kringum þær. Áttu hún og Dói stundum leið um Kaupmannahöfn er ég bjó þar og gat þá verið með þeim, Hjölla var alltaf svo kát og til í allt. Því miður tókst mér ekki að heimsækja hana þegar hún bjó í Portúgal og komast með henni á spilavíti sem var draumur minn að upplifa. En ég heimsótti hana að Hnúki á Fellsströnd frá Hólmavík og bað Hjölla mig að gelda hundinn og aflífa kettina þar sem hún var að fara á mölina. Það endaði með að hundurinn var geltur á eldhúsborðinu og ég fékk gömlu læðuna og tvo kettlinga sem ferðafélaga til Hólmavíkur. Einn kettlingurinn endaði hjá prestinum á Hvanneyri þar sem ein af systrum Hjöllu hafði í den verið prestsfrú. Gamla læðan MaggaLúra varð mikill félagi minn í 10 ár.

Minning mín er Hjölla kornung og falleg eins og kvikmyndastjarna. Beðið var með óþreyju eftir að móðursysturnar kæmu í jólaboð á Kiðafell, setið við eldhúsborðið og horft og hlustað á þær með aðdáun, galopin augun og eyrun blaktandi. Þá var gaman.

Heimsókn til Hjöllu og Dóa í íbúðina á Ljósvallagötu sem okkur þótti bæði nýtískuleg og smart, alltaf var tekið á móti okkur, stórum barnahóp, sama hve mörg, með hlýju og gleði og óbilandi áhuga á hverjum og einum.

1967 bjó ég hjá Hjöllu á Kirkjugarðsstíg þar sem mér fannst hamingjan ríkja og þau sem bestu foreldrar og vinir, alltaf var góður matur, spilað á spil við hvert tækifæri og skrópað í vinnunni til að geta verið ein með Hjöllu í sólbaði á svölunum þegar hún átti frídag af skrifstofu Framsóknar, þar sem tilveran var rædd út í ystu æsar.

Heimsókn til mín í Englandi; Hjölla heimskonan sem naut þess að ferðast, talaði þessa fínu ensku, gat talað við hvern sem var og sýndi mikinn áhuga á að kynnast landi og þjóð. Voru ævintýri á hverju strái þegar Hjölla ferðaðist, jafnvel boðið stúkusæti á Ascot-veðreiðunum af aðalsmanni í lest. Einn skemmtilegasti gestur okkar í Norwich var svo sannarlega hún Hjölla frænka mín. Skemmtileg, hlý og yndisleg frænka sem lyfti andanum í hærri hæðir í hvert sinn sem hún birtist. Að fá sér einn bjór og eina rúbertu í bridge var henni að skapi.

Ég ætla að byggja

brú yfir fjörðinn.

Ég ætla að fara fótgangandi

eins og vitringar í gamla daga

í leit að konungi.

Ég ætla að fara hjólandi

eins og unglingur

í leit að ævintýri.

Ég ætla að fara hlaupandi

og lesa myndir fornaldar

í briminu.

Ég ætla að stika á móti víðáttunni,

þegar ég hefi byggt

brú yfir fjörðinn.

(Hjördís Einarsdóttir)

Guðbjörg og Sigríður Þorvarðardætur.

Hjördís frænka mín var yngst níu systra fædd 1930 en elsta systirin var móðir mín fædd 1913. Allar voru þessar systur gæfulegar og hressar og litríkar konur og ekki síst Hjördís sjálf. Úr myndaalbúmi fjölskyldu minnar á ég mynd af Hjördísi hressri ungri konu, þá sumarráðskona í vegavinnuhópi austur á Héraði sem Einar faðir hennar stjórnaði þá. Hann var um árabil yfirverkstjóri og stjórnaði vegaframkvæmdum í því héraði.

Síðar giftist hún unnusta sínum Sveini Þorsteinssyni.

Efni hjónanna voru ekki mikil og hófu þau búskap í herbergi við íbúð föður hennar í Reykjavík.

En svo gerðist kraftaverkið, þau unnu í happdrætti. Vinningurinn var fallegur bíll, Opel-bíll. Á þessum árum voru slíkir gripir sjaldgæfir á götum borgarinnar.

Ég man alltaf hvað þau voru glöð þegar þau komu heim til okkar til að sýna okkur gripinn. Þau hjónakornin bókstaflega ljómuðu yfir gæfu sinni og buðu okkur í bíltúr og sögðust ætla að eiga þennan happagrip lengi.

En svo tók raunsæið yfir og nokkru síðar seldu þau gripinn og hafa trúlega fengið sæmilegt verð fyrir.

Það var mikið gæfuspor því þeir fjármunir sem þar fengust urðu til þess að þeim tókst skömmu síðar að koma sér upp eigin húsnæði. Það var fyrsta fasteignin sem þau eignuðust en síðar urðu þær fleiri. M.a. eignuðust þau og áttu um árabil jörð við Breiðafjörð. Síðar eignuðust þau hús í Portúgal þar sem þau bjuggu einnig um árabil.

Þau bjuggu líka á fleiri ævintýralegum stöðum um ævina. Seinustu árin bjó Hjördís á Skólavörðustíg í sama húsi og Lisbet dóttir hennar. Lisbet er eina barn Hjördísar og líkist henni mjög. Hún er listamaður og hefur fengið ýmsar viðurkenningar fyrir list sína. Hún er það sem Hjördís hefði kannski orðið ef aðstæður og efni þess tíma sem hún ólst upp á hefðu verið líkari því sem þær eru í dag.

Ég á margar góðar minningar um Hjördísi móðursystur mína sem ylja mér um hjarta þegar ég hugsa til hennar. Líka nú þegar ég rita þetta greinarkorn. Svo er sjálfsagt um fleiri sem kynntust henni á lífsleiðinni.

Ég vil að lokum samhryggjast dóttur hennar og fjölskyldunni allri vegna fráfalls hinnar hressu og lífsglöðu frænku minnar, hennar Hjördísar.

Pétur Jónsson.