Guttormur Vigfússon Þorvarðarson Þormar fæddist 7. október 1925. Hann lést 25. desember 2021.

Útför Guttorms fór fram 21. janúar 2022.

Elsku besti afi. Það er komið að kveðjustund. Við höfum fengið að njóta þín svo yndislega lengi og langafabörnin svo ótrúlega heppin að hafa átt þig líka!

Þær eru óteljandi stundirnar þegar einhver okkar kíkti í heimsókn og þú varst sko ekki lengi að vippa fram vöfflum eða pönnsum. Alltaf fannst þér jafnmikill óþarfi að við værum að hjálpa þér í eldhúsinu en varst samt sem áður þakklátur fyrir það. Þú varst alltaf jákvæður, brosandi og slóst flestu upp í gaman og grín.

Við gætum endalaust sagt sögur af því hvernig þú tókst á móti okkur þegar við vorum yngri og börnunum okkar þegar þau komu í heimsókn, með eldgamla úfna hárkollu á höfðinu. Eða sýndir töfrabrögð og fórst með gamanvísur. Og á hverjum jólum tókstu að þér að baka brauð fyrir jólaboðið eins og þér einum var lagið. Hafragrauturinn sem þú eldaðir fyrir okkur þegar við fengum að gista hjá þér þegar við vorum litlar, aðeins of mikið saltaður en samt bestur í heimi af því að afi gerði hann.

En núna ertu loksins kominn aftur til hennar Guðrúnar þinnar sem þú saknaðir svo sárt og elskaðir svo mikið. Lífið verður ekki samt án þín. Það ættu allir að eiga afa eins og þig.

Þínar

Arnheiður, Dýrleif og fjölskyldur.

Heldurðu að þú skrifir um mig, spurði Guttormur, góður vinur minn, með bros á vör, eitt sinn er við hittumst í HL-stöðinni, þar sem við nutum báðir góðrar þjónustu fagfólks eftir áföll á heilsubrautinni. Tilefnið það að Guttormur hafði lesið minningarorð sem ég skrifaði í Morgunblaðið um mætan mann sem við þekktum báðir. Ég svaraði í anda þess er spurningin var fram borin að enginn vissi hver annan græfi, aldrei að vita hvor okkar færi á undan, en verðir það þú geturðu treyst því að ég skrifa, þó það nú væri, eftir öll okkar löngu og góðu kynni.

Þau hófust árið 1978 þegar ég byrjaði að starfa hjá Umferðarráði. Guttormur var þá fulltrúi Reykjavíkurborgar í Umferðarráði, þar sem hann sat um árabil og var yfirverkfræðingur umferðardeildar gatnamálastjórans í Reykjavík. Fljótt fann ég hvern mann hann hafði að geyma og samband okkar varð strax náið. Rannsóknarnefnd umferðarslysa var þá ekki til, og þegar alvarleg slys urðu fannst mér nauðsynlegt að leita til sérfræðinga hjá sveitarfélögum og Vegagerðinni þegar við rýndum í lögregluskýrslur, fórum stundum á slysstað, og reyndum að skoða allt sem gat átt hlut að máli á staðnum, m.a. í hönnun og ástandi gatna og vegakerfis, auk þess auðvitað að huga að því sem hugsanlega hafði farið úrskeiðis hjá ökumönnum, og eftir atvikum öðrum vegfarendum. Öllum fyrirspurnum og ábendingum svaraði Guttormur á sinn faglega og yfirvegaða hátt, og sæi hann eitthvað sem betur mætti fara í gatnakerfinu var hann snöggur að láta lagfæra það sem gera mátti strax og í mörgum tilvikum að leggja drög að viðameiri úrbótum. Var það mér, reynslulitlum á sviði tæknilegra útfærslna, sérstakur happafengur að geta leitað til manna eins og Guttorms, sem þá þegar hafði áralanga reynslu af málaflokknum. En það var ekki einungis tæknikunnátta hans sem ég kunni að meta, heldur skarpskyggni og vandvirkni sem einkenndu öll hans störf. Þar að auki var hann einstaklega ljúfur í allri umgengni og hafði lag á að leiða mér fyrir sjónir hvað raunhæft væri að gera, þegar ég í ákafa mínum fyrir úrbótum sá e.t.v. ekki allar tæknihliðar máls. En aldrei varð okkur sundurorða þrátt fyrir að vera ekki alltaf fyllilega sammála um leiðir að settu marki.

Fyrir öll þessi gefandi samskipti okkar Guttorms og framlag hans til umferðaröryggismála er ég afar þakklátur og sendi börnum hans og fjölskyldum þeirra hugheilar samhryggðarkveðjur. Góður vinur er burtkallaður af lífsins vegi, blessuð sé minning hans.

Óli H. Þórðarson.

Upp er runninn fagur sumardagur í Ólafsfirði með fuglasöng og ilm af nýslegnu grasi. Það á að skíra eldri son minn í Kvíabekkjarkirkju. Ég átti von á þeim Dúdda og Guðrúnu í skírnina, þau ætluðu að koma að sunnan. Þarna kynntust þau minni tengdafjölskyldu sem bjó þar í sveitinni. Þetta er mjög góð og skemmtileg minning um þau og hefur hún yljað mér um hjartarætur.

Ég kynntist þeim Dúdda og Guðrúnu fyrst milli 1985 og 90 vegna sameiginlegs ættfræðiáhuga. Dúddi var mikill ættfræðiáhugamaður og vissi nánast allt um sína ætt. Það var nánast alveg sama hvað ég spurði hann um þá gat hann svarað því, hvort sem það var um mína ætt eða konunnar.

Alltaf þegar komið var til Reykjavíkur var komið til Dúdda og Guðrúnar. Dúddi bakaði oft eplaskífur sem hann var sérfræðingur í. Við börnin var hann mjög góður og alltaf til í sprell, t.d. þegar hann kom með spýtukarlinn og lék við þau, þá var gaman hjá þeim. Hann var höfðingi heim að sækja og höfðum við mikið samband okkar á milli. Alltaf var komið í heimsókn hvort sem hann eða Guðrún komu norður eða við fjölskyldan suður. Minnist ég góðrar stundar þegar við konan komum suður í haust og hittum Dúdda, Margréti dóttur hans og Örn mann hennar.

Hvíl í friði Guttormur minn, skilaðu kveðju til Guðrúnar, ykkar er sárt saknað.

Páll Hallfreður Árdal.