Viktor Smári Sæmundsson fæddist 8. febrúar 1955. Hann lést 5. janúar 2022.

Útför Viktors Smára fór fram 19. janúar 2022.

Ég hitti Smára í fyrsta sinn í Skeiðarvoginum sumarið 1972. Hann var á Volvó foreldra sinna. Sjálfur var ég með vinnufélögum mínum tveimur og vinum hans, Gogga og Jóa, strákum sem ég hafði kynnst í sumarvinnunni.

Volvóbílstjórinn var mér ráðgáta. Hvers vegna mundi ég ekki eftir honum úr Vogaskólanum eins og hinum? Það skýrðist. Mamma hans hafði sent hann í Skógaskóla í landspróf til þess að vernda hann frá sollinum í Reykjavík. Ekki grunaði mig þetta kvöld að þessi prúði piltur ætti eftir að vera einn af mínum bestu vinum í næstum hálfa öld.

Skömmu síðar rugluðum við Vigdís saman reytum okkar. Hún hafði verið í Vogaskóla í bekk með Smára og Stefáni Hafstein frá upphafi vega, en nú vorum við öll hinir mestu mátar og vinaböndin treystust enn.

Ekki þurfti löng kynni til þess að átta sig á því að Smári var bæði traustur maður og vinur. Hann var hægari en við Goggi og Stefán, ráðagóður og jafnlyndur, sem ekki var sjálfgefið á þessum árum.

Nokkur ár liðu og Smári eignaðist kærustu, Ingibjörgu Hafstað, sem var svo sannarlega happafengur fyrir vin okkar, framtakssöm og glaðlynd stúlka úr Skagafirðinum. Þau hófu starfsferilinn sem kennarar, en tóku þá heilladrjúgu ákvörðun að fara til Danmerkur og komu aftur sem sérfræðingar í tölvum og listum.

Myndlist á Íslandi varð ríkari þegar Viktor Smári hóf störf sem forvörður, sérfræðingur í því að gera við og vernda listaverk. Hann vann í nokkur ár á Listasafni Íslands, en stofnaði svo Stúdíó Stafn þar sem hann var eins og segull á listamenn og listunnendur. Margir komu til að njóta þekkingar hans og listfengis við viðgerðir eða val á listaverkum, en ekki síður til þess að spjalla, því hann var einstaklega ljúfur maður í viðkynningu. Var í raun eins og sálfræðingur og öllum leið vel eftir samræður við hann. Gestir fengu ljúfmannlegar viðtökur, hvernig sem á stóð.

Smári þekkti alla og kunni af þeim sögur sem voru örugglega enn betri í frásögn hans en þegar þær áttu sér stað. Hann var líka snjall veiðimaður, fann fiska ef þá var að finna og hafði tilfinningu fyrir góðum veiðistöðum í ám sem hann hafði aldrei veitt áður. Hann hafði sama innsæi í sálarlíf fiska og manna.

Ófáum stundum höfum við varið með Smára og Ingibjörgu á göngu, við veiðar og á ferðalögum í fjarlægum löndum. Stefán og Guðrún, vinir okkar, tóku á móti okkur í Afríku. Þar var ekki hörgull á ævintýrum. Þegar innfæddur á lendaskýlu einni klæða brá saxi, þegar ég ætlaði að mynda hann, dró Smári mig í burtu og því er ég til frásagnar.

Fyrir fjórum árum kenndi Smári sér óþæginda í lungum. Þau reyndust vera krabbamein sem setti mark sitt á líf hans þaðan í frá. Ég dáðist að því með hve miklu jafnaðargeði hann tók erfiðri meðferð, þótt skiptust á vonir og vonbrigði. Gleðistundir voru margar öll árin og hann lét meinið ekki fjötra sig og naut stöðugt hvatningar og stuðnings Ingibjargar.

Hugur okkar Vigdísar og samúð er hjá Ingibjörgu og börnum þeirra Sollu, Dóra og Sæma sem sjá á bak einstökum eiginmanni, föður og vini. Eftir lifa minningar um góðan dreng.

Benedikt Jóhannesson.

Fyrst kynntist ég Smára þegar ég fékk að sitja í Trabantinum góða, Draumi fjósamannsins, hjá þeim Smára og Imbu. Þetta var um sumar og við vorum að koma að norðan þaðan sem allir Hafstaðir eru að koma ef þeir eru ekki á leiðinni norður. Þessi ungi, myndarlegi, hárfagri og fúlskeggjaði, snareygði maður og Imba í Útvík, laukur minnar ættar, voru á leið í útilegu á Mýrunum. Ég á leið í vinnu á Hvanneyri. Þetta man ég vel og ég man líka að mér þótti spottinn langur sem ég gekk eftir að leiðir skildi.

Samskiptin jukust og góð vinátta skapaðist milli okkar og fjölskyldnanna. Eitt fyrsta skrefið var þegar við Smári gengum til liðs við Skúla, vin okkar, í Garðari Hólm; ævintýralegu verktakafyrirtæki um hirðingu á görðum, gangstéttarlögnum og trjáfellingum. Tilraunir með heimagerðar fúavarnir og liti á gangstéttar sem skoluðust til í rigningum, ofhleðsla á bílum og kerrum í malar- og timburflutningum skrifuðust ekki á Smára. Eins og annars staðar réð ígrundun, jafnaðargeð og vandvirkni hans störfum. Þegar leiðir hans og Ranna lágu svo saman varð til net minna nánustu vina. Allir vorum við komnir í farsæl hjónabönd og með börn; við Mæja í Gautaborg í námi en þeir félagar í Kaupmannahöfn og samtíða að læra forvörslu; viðgerðir á listaverkum og menningarverðmætum. Báðir einvala í slík störf. Það var frelsandi fyrir okkur Mæju að koma til þeirra frá Svíþjóð og fá að njóta gestrisni og vinskapar og ég lenti í litríkum ævintýrum með strákunum. Hrein gæfa þegar við snöruðum okkur heilu og höldnu út af veitingahúsi yfirfullu af leðurklæddum og brakandi mótorhjólagengjum. Hér heima héldum við Drængetreff og fögnuðum vináttu og gleði með tónlist, mat og drykk, tónlistargetraunum og dularfullum ferðum á ókannaða staði.

Mig óraði ekki fyrir því að ferðin í Trabantinum með Smára og Imbu væri bara sú fyrsta af óteljandi ferðalögum sem við áttum eftir að fara saman, löngum og stuttum, um allt land og á öllum tímum árs. Á síðasta ári var það hluti af Snæfellsnesi með Ranna og Sollu, stysta leið gengin á Þyril og svo Þingmannaheiði. Óteljandi útilegur í tjaldi, þar sem allt var á sínum stað hjá Smára og Imbu; blái fuglinn, maturinn og göngubúnaðurinn og svo auðvitað veiðigræjurnar alltaf innan seilingar. Stundum þurfti að prófa þær eða bara rétt að athuga hvort væri fiskur eins og til dæmis í Jókulsárlóni. Af stakri hæversku reyndi Smári að koma mér á veiðibragðið en tókst ekki, ekki einu sinni þegar þeir Jónsi heitinn lögðust á eitt í álunum nálægt Markarfljóti þegar loksins lánaðist, við mikinn fögnuð, að láta mig veiða minn vænasta urriða.

Ferðirnar með Smára verða ekki fleiri, skrefin ekki fleiri. Ekki fleiri skákir og engar rúbertur meir. Minningarnar eru margar og eftir situr mynd af hinum besta dreng sem var heill og heiðarlegur, gæðum prýddur. Smekkmaður á allt og alla og fór varlega með orð. Það er sárt að sjá á eftir þessum góða og dýrmæta vini, mínum fimmta bróður. Um leið og ég kveð og þakka er ég svo feginn því að hafa átt hann Smára að. Og ykkur öll, Imba mín.

Finnur Árnason.