Áslaug Gyða Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 20. febrúar 1940. Hún lést á Landspítalanum 10. janúar 2022. Foreldrar hennar voru Áslaug Sigurðardóttir, f. 1907, d. 1997, og Guðmundur Magnússon, f. 1904, d. 2003. Börn þeirra: Eygló Fjóla, f. 1934, Erla Sæunn, f. 1935, Gestur Óli, f. 1937, Anna Maggý, f. 1938, Áslaug Gyða, Guðmundur Heiðar, f. 1941, d. 2020, Magnús, f. 1945, Hrönn, f. 1946, og Sigurður, f. 1947.

Áslaug Gyða, Ása, var eins og hálfs árs tekin í fóstur af hjónunum Eggert Kjartanssyni bónda, f. 1890, d. 1967, og Sigríði Þórðardóttur ljósmóður, f. 1899, d. 1988, á Gerðubergi og síðar á Hofsstöðum í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi.

Uppeldissystkini hennar eru Þórdís, f. 1927, Kjartan, f. 1929, d. 2020, og Ingibjörg, f. 1932.

Eiginmaður Áslaugar er Gunnlaugur Breiðfjörð Óskarsson málarameistari, f. 1938. Þau hófu sambúð 1980. Börn hans eru Ásta Breiðfjörð, f. 1961, og Óskar, f. 1962. Eiginmaður Ástu er Samúel Örn Erlingsson, dætur þeirra eru Hólmfríður Ósk og Greta Mjöll. Eiginmaður Hólmfríðar er Arnar Jónsson og börn þeirra Ída María og Bastían. Maður Gretu er William Óðinn Lefever, börn þeirra eru Regína Anna, Samúel Fróði og Kolbeinn Mói. Óskar er kvæntur Hrönn Helgadóttur. Börn þeirra eru Ástrós Líf, Kristján Werner, Hrefna og Gunnlaugur Bjartur.

Upphaflega var Ása í fóstri til skamms tíma, en hlaut ástríkt uppeldi til fullorðinsára á Hofsstöðum. Mjög kært var með uppeldisystkinunum alla tíð. Systurnar Dísa og Inga kveðja nú litlu systur sína. Ása var ævinlega í góðu sambandi við fjölskyldu sína í Reykjavík. Foreldrar hennar og systkin heimsóttu hana vestur, akandi á vörubíl með boddíi á palli. Ása heimsótti þau líka og dvaldi, einkum eftir að fjölskyldan flutti á Langholtsveg 60. Guðmundur faðir hennar byggði húsið um það leyti sem yngstu börnin fæddust. Síðar keypti Ása risíbúðina í húsinu. 17 ára fór Ása í Húsmæðraskólann á Löngumýri í Skagafirði. Það lagði grunninn að lífsstarfi hennar, við matargerð og matseld. Hún varð ráðskona í vinnuflokkum Vegagerðarinnar, m.a. í Hvalfirði, vann á hóteli í Danmörku um tvítugt, síðan á matstofu í Reykjavík og víðar. Ása var lífsglöð ung kona, lék á hljóðfæri og söng. Á þessum tíma kynntist hún bestu vinkonum sínum, Dísu í skólanum á Löngumýri og Jónu í vegavinnunni. Vinátta Ásu og þeirra entist til hinsta dags. Síðar starfaði Ása hjá Héðni í Reykjavík og Landsbankanum á Laugavegi 77, þaðan sem hún fór á eftirlaun.

Þau Gunnlaugur bjuggu lengstum á Langholtsvegi 60, en fluttu fyrir áratug í Boðaþing í Kópavogi. Þau dvöldu einnig löngum í sumarbústað sínum, á sælureit við Lögberg. Ása veiktist alvarlega fyrir rúmum tveimur árum og þá fór Gunnlaugur á hjúkrunarheimili. Eftir langa sjúkrahúsdvöl komst Ása heim aftur fyrir rúmu ári og dvaldi þar uns hún veiktist í kringum áramótin.

Hún verður jarðsungin í Lindakirkju í Kópavogi í dag, 24. janúar 2022, kl. 15. Vegna fjöldatakmarkana verða aðeins nánasta fjölskylda og vinir viðstödd athöfnina. Streymt verður frá athöfninni á Lindakirkja.is/utfarir.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Hún Ása var haldreipið hans Gulla, helsta stoð og núllstilling, frá upphafi til hinsta dags. Þau voru alltaf bálskotin hvort í öðru. En fóru vel með það, enda hvort sínum megin við fertugt þegar þau kynntust. Kynntust og tóku saman „eiginlega í sömu vikunni“, sagði Ása í góðu spjalli fyrr í vetur. Þau voru kynnt á dansleik veturinn '79-'80, svo fór að Gulli skutlaði henni og fleirum, hverjum heim til sín. Morguninn eftir mætti hann á tröppurnar hennar með blómvönd. Eftir það mátti hvorugt af hinu sjá. Einhver spurði Gulla hvað hann hefði gert ef karlmaður hefði komið til dyra. Gulli er frægur fyrir hnyttin tilsvör og svaraði að bragði að hann hefði þá sagst hafa villst á húsum. Sannleikurinn var hins vegar að inngangur á miðhæð og í risið á Langholtsvegi 60 var sameiginlegur, pabbi Ásu kom til dyra og kallaði upp, í Ásu. Þetta var þannig blessað frá byrjun og samvistin varð eftir því. Þegar heilsubrestur þjakaði bæði síðustu misseri voru þau í stöðugu símasambandi alla daga. Ása kom eins oft í heimsókn til Gulla á hjúkrunarheimilið og heilsan leyfði. Þegar við tókum saman 1983 var tilvonandi tengdasyni vel tekið í risinu. Alla tíð síðan nutum við stuðnings og hjálpar Gulla og Ásu þegar á reyndi. Þetta höfum við reynt að endurgjalda í seinni tíð. Ása, kærastan hans Gulla, varð ástrík amma þegar hann varð afi. Síðar urðu þau hjónin fósturforeldrar Skvettu, heimilishunds fjölskyldunnar. Skvetta naut sín og gelti í fögrum fjallasal skammt frá Lögbergi. Þar eignuðust Gulli og Ása bústað 1986 og dvöldu hvenær sem færi gafst.

Við hjónin eigum góðar minningar um góða samveru á Langholtsvegi, í bústaðnum og Boðaþingi. Jólaveisla Ásu á annan í jólum, síðar nýársdegi, var toppurinn. Þar kynnti Ása okkur margan veislurétt sem við þekktum varla, t.d. kalkún og laufabrauð. Hún var alltaf dul um sína hagi og bar hvorki harma né sársauka á borð. En Ása lumaði á ýmsu sem ekki blasti við. Hún var listakokkur, tónelsk og greip í hljóðfæri. Hún fylgdist vel með og var vel að sér, réttsýn og blíð, stórlynd og örlát. Hún var listakokkur og hún unni Snæfellsnesinu þar sem hún ólst upp og samband hennar við fóstursysturnar Ingu og Dísu var dýrmætt og heilagt. Henni þótti líka vænt um stóra systkinahópinn sinn og var náinn vinur foreldra sinna, enda bjó hún í sama húsi og þau í áratugi, þótt æskuárin hafi hún átt annars staðar. Vinkonur hennar í meira en sex áratugi og eiginmenn þeirra voru tryggir vinir þeirra Gulla alla tíð, Dísa og Rögnvaldur og Jóna og Haukur.

Við vottum fjölskyldu og vinum Ásu dýpstu samúð. Ásu þökkum við einstaka alúð, ást og tryggð í umönnun föður og tengdaföður, sem aldrei gleymist. Farðu vel elsku Ása, takk fyrir allt og allt.

Ásta B. Gunnlaugsdóttir og Samúel Örn Erlingsson.

Kær systir og mágkona er fallin frá.

Fyrstu búskaparár okkar Sigga voru í risinu í fjölskylduhúsinu á

Langholtsvegi 60, þar bjó einnig hún Ása Gyða, systir hans Sigga. Þarna héldum við þrjú saman heimili í nokkur ár og var ómetanlegt að fá að læra af

Ásu Gyðu sem var snillingur í bakstri og allri matargerð. Hún vann á þessum tíma á veitingastað á Laugavegi 28, við fórum einu sinni og borðuðum hjá henni, þá sáum við vel hve fagmannleg hún var og natin við gestina.

Ása Gyða tilkynnti okkur dag einn að hún væri búin að festa kaup á nýrri Volkswagen bjöllu, eins og margir áttu á þessum tíma, en hún treysti sér ekki til að keyra djásnið heim og bað mig (Sigurlín) að fara með sér. Það var auðsótt og við báðar mjög spenntar að taka á móti nýjum bíl. Eitthvað þótti okkur gangurinn í bílnum undarlegur, eftir stutta keyrslu kom í ljós að hann var bensínlaus. Allt fór vel og átti Ása Gyða bjölluna lengi og var mjög ánægð með hana.

Það var oft glatt á hjalla hjá okkur á loftinu og fjörugar umræður, Ása Gyða sagði okkur sögur úr sveitinni sinni fyrir vestan, við skynjuðum væntumþykju hennar á dýrunum, landinu og fólkinu sínu. Oft ræddum við um berjatínslu og þá aðallega bláberja.

Einn laugardag í september um hádegi að vinnudegi loknum æstum við hvert annað upp í að skjótast vestur í berjaferð, lítill kostur var í ísskápnum, við fundum til appelsínur og nýkeyptan lakkríspoka. Ferðin var ótrúlega löng og seinfarin á misjöfnum malarvegum.

Ása Gyða sagði okkur sögur á leiðinn hún þekkti öll kennileiti, býli og ábúendur. Undir kvöld komum við í berjalandið glæsilega, tjölduðum inni í gamalli rétt og daginn eftir voru öll ílát fyllt af gómsætum bláberjum.

Gulli og Ása Gyða keyptu sér sumarbústað uppi við Lögberg, þangað var gott að koma og auðvitað fórum við Ása Gyða þar á berjamó. Börnin okkar hafa talað um skemmtilegar heimsóknir til Ásu Gyðu og Gulla í bústaðinn og á loftið á Langholtsveginum, alltaf nammi og hlýtt viðmót. Ása Gyða var alltaf glöð og umhyggjusöm, börnum og dýrum leið vel í návist hennar. Minning um elskuleg systur, mágkonu og frænku lifir.

Elsku Gulli og fjölskyldur, við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Sigurður (Siggi),

Sigurlín og fjölskyldur.