Mistök geta orðið en þá þarf að leiðrétta þau hratt og örugglega

Fyrir rúmri viku var ákveðið að herða sóttvarnaaðgerðir vegna kórónuveirunnar og er þegar orðið ljóst að sú ákvörðun var óþörf. Raunar var það ljóst þegar hún var tekin og fullnægjandi rök hafa aldrei fengist fyrir þeim hertu aðgerðum því að þá þegar voru aðgerðir harðar og íþyngjandi, jafnt fyrir almenning sem atvinnulíf.

En mistök verða óhjákvæmilega í langri glímu við flókið verkefni þrungið óvissu, svo sem þá farsótt sem geisað hefur í tvö ár. Þetta eru ekki fyrstu mistökin en þrátt fyrir allt hefur í meginatriðum gengið vel hér á landi miðað við mörg önnur ríki. Þá er það vitaskuld svo að það sem einn telur mistök telur annar farsæla ákvörðun og í tilviki kórónuveirufaraldursins er erfitt og líklega ómögulegt að komast að raun um í öllum tilvikum hver hefur rétt fyrir sér. Eflaust verður á næstu árum og áratugum reynt að komast sem næst því með rannsóknum og samanburði á milli landa en óvissan verður ávallt fyrir hendi. Það breytir því ekki að slíkar rannsóknir eru nauðsynlegar til lærdóms því að líkur standa til að styttra verði á milli slíkra pesta framvegis en verið hefur og Íslendingar, sem og mannkynið allt, þurfa að læra réttu viðbrögðin.

Athygli vekur að strax eftir að fyrrnefnd ákvörðun um hertar aðgerðir var tekin um miðjan janúar, og á að óbreyttu að gilda til 2. febrúar, kom fram meiri gagnrýni en áður hafði þekkst. Hingað til hafa landsmenn sætt sig vel eða að minnsta kosti þokkalega við aðgerðir stjórnvalda gagnvart faraldrinum, en mjög hefur dregið úr því. Gagnrýnendur stíga frekar fram en áður, sem er heilbrigt og eðlilegt í lýðræðisþjóðfélagi. Flestum er orðið ljóst að sá vandi sem við er að etja nú er allt annar en fyrir ári eða tveimur og þær aðgerðir sem þá þóttu nauðsynlegar eiga ekki lengur við. Tvennt hefur breyst með afgerandi hætti; það afbrigði veirunnar sem mest ber á er mun vægara en fyrri afbrigði og víðtækar bólusetningar fullorðinna hafa mikil áhrif. Að auki hafa læknavísindin náð betri tökum á meðferð við sjúkdómnum og þegar þetta allt leggst saman er ljóst að viðfangsefnið er allt annað en var.

Ýmsir þingmenn og jafnvel ráðherrar hafa stigið fram að undanförnu og lýst þeirri afstöðu sinni að taka þurfi á kórónuveirunni með öðrum ráðum hér eftir en hingað til. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, benti til dæmis á það skömmu eftir að reglurnar voru hertar að á Spáni hefði því verið lýst yfir að kominn væri tími til að líta á faraldurinn sem hverja aðra inflúensu. Eiginlegum heimsfaraldri væri lokið. Svör yfirmanna heilbrigðismála við þessu voru hin sömu og fyrr; aðstæður hér væru ólíkar og meta þyrfti stöðuna í hverju landi fyrir sig. Þó verður vart hjá því komist að horfa til þess að lönd í nágrenni við okkur, iðulega minna bólusett enda stöndum við flestum framar í þeim efnum, hafa verið að tilkynna um afléttingu aðgerða, jafnvel fulla afléttingu, sem er vitaskuld sú staða sem brýnt er að komast í sem allra fyrst. Vissulega má alltaf segja að aðstæður séu ólíkar á milli landa, en staðreyndin er sú að aðstæður eru óvíða betri en hér á landi.

Það má ekki vera léttvægt að herða sóttvarnaaðgerðir eða að halda þeim úti. Skyndiákvarðanir í þeim efnum geta verið nauðsynlegar í upphafi faraldurs en sá faraldur sem nú geisar hefur gert það í tvö ár. Þess vegna er tímabært að takmarkanir verði ræddar á vegum þingsins eins og sumir þingmenn hafa hvatt til. Bryndís Haraldsdóttir og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp þar sem gert er ráð fyrir að tillögur sóttvarnalæknis um hertar aðgerðir verði kynntar velferðarnefnd og að ráðherra skuli ræða slíkar ákvarðanir við þingið. Þess háttar málsmeðferð ætti að verða til þess að rökstuðningur aðgerða verði sterkari og að horft verði til fleiri þátta en hingað til hefur verið gert.

Það er orðið nauðsynlegt að fara nánar yfir þær aðgerðir sem ákveðnar eru vegna kórónuveirunnar enda mega slíkar aðgerðir aldrei verða að sjálfsögðum hlut eða vana. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra sagði fyrir helgi í samtali við mbl.is að ástæða væri til mikillar bjartsýni um faraldurinn. Þá lýsti hún efasemdum um að gripið yrði til þeirra sóttvarnaaðgerða sem nú ríkja ef kórónuveiran, eins og hún er um þessar mundir, væri að koma fyrst nú til landsins og engar takmarkanir hefðu áður verið settar.

Þetta er réttmæt athugasemd og einnig það að ástæða er til bjartsýni um faraldurinn. Hann er allt annar en áður og ber þess merki að vera að ganga yfir. Heilbrigðisráðherra og forstjóri Landspítalans hafa að því er virðist loks komist að þessari niðurstöðu og er það ánægjuefni. Þau lýstu í gær þeirri afstöðu sinni að allar leiðir til afléttingar sóttvarnaaðgerðum yrðu nú skoðaðar í samráði við sóttvarnalækni. Í þeim efnum þarf að taka skjótar ákvarðanir og horfa til hagsmuna þjóðfélagsins í heild.