[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Hástökkvarinn efnilegi Kristján Viggó Sigfinnsson náði á laugardag lágmarki fyrir heimsmeistaramót U20 ára í frjálsíþróttum.

* Hástökkvarinn efnilegi Kristján Viggó Sigfinnsson náði á laugardag lágmarki fyrir heimsmeistaramót U20 ára í frjálsíþróttum. Kristján stökk yfir 2,15 metra á helgarmóti Reykjavíkurfélaganna í Laugardalshöllinni á laugardag og það er nákvæmlega lágmarkið fyrir mótið sem fer fram í Cali í Kólumbíu í byrjun ágúst. Kristján, sem er 18 ára gamall, hefur best stokkið 2,18 metra sem er næstbesti árangur Íslendings í greininni. Íslandsmet Einars Karls Hjartarsonar innanhúss er 2,28 metrar en Íslandsmet hans utanhúss 2,25 metrar.

*Bandaríkjakonan Sianni Martin , sem leikur með Snæfelli í 1. deild í körfuknattleik, hefur verið úrskurðuð í þriggja leikja bann vegna háttsemi sinnar í stórsigri Snæfells á Þór frá Akureyri fyrir tveimur vikum. Martin hefur farið á kostum í deildinni á tímabilinu þar sem hún er með 36,1 stig skorað að meðaltali, sem er hæsta meðaltal allra leikmanna deildarinnar.

*Knattspyrnudeild Leiknis úr Reykjavík hefur gengið frá samningum við tvo danska leikmenn og framlengt samninginn við lykilmanninn Brynjar Hlöðversson . Danirnir tveir , Mikkel Dahl og Mikkel Jakobsen , koma báðir til Leiknis úr færeyska fótboltanum.

Dahl, sem er framherji, kemur til Leiknis frá HB þar sem hann fór á kostum og skoraði 41 mark í 38 leikjum. Jakobsen er kantmaður sem spilaði á sínum tíma fyrir U16 ára landslið Danmerkur. Brynjar er uppalinn hjá Leikni og hefur leikið yfir 300 mótsleiki með liðinu. Hann átti sinn þátt í að Leiknir hélt sér uppi í efstu deild á síðustu leiktíð er hann lék 20 leiki í hjarta varnarinnar.

*Meirihluti karlaliðs KA í handbolta smitaðist af kórónuveirunni við heimkomuna til Íslands úr æfingaferð í Ungverjalandi á dögunum. Akureyri.net greindi frá í gær. Þar kemur fram að hópurinn hafi alls talið 21, þ.e. leikmenn, þjálfara og fararstjóra. Við komu til Keflavíkur reyndust 13 þeirra smitaðir af veirunni, einn fékk óljósa niðurstöðu, fjórir reyndust neikvæðir og þrír höfðu áður smitast.

*Lærisveinar Arons Kristjánssonar í handboltalandsliði Bareins eru á góðri siglingu á Asíumótinu í Dammam í Sádi-Arabíu. Barein vann afar sannfærandi 29:15-sigur á Kúveit í fyrsta leik í milliriðli á laugardag. Barein vann alla þrjá leiki sína í undanriðli afar sannfærandi; 46:14 gegn Víetnam, 35:19 gegn Úsbekistan og 46:20 gegn Hong Kong. Næsti leikur Bareins á mótinu er gegn Írak í dag klukkan 15. Dagur Sigurðsson , landsliðsþjálfari Japana, þurfti að draga sitt lið úr keppni vegna útbreiðslu kórónuveirunnar í landsliðshópnum.

* Kay Smits , markahæsti leikmaður EM 2022 í handbolta, hefur greinst með kórónuveiruna ásamt tveimur liðsfélögum sínum í hollenska landsliðinu. Smits hefur farið á kostum með Hollandi og er markahæstur á mótinu með 45 mörk. Hinir tveir leikmenn Hollands sem greindust með smit eru þeir Jasper Adams og Samir Benghanem . Erlingur Richardsson þjálfar Holland en hann greindist einmitt með veiruna fyrir helgi.

*Knattspyrnukonan Svava Rós Guðmundsdóttir er orðuð við ítalska stórliðið AC Milan en ítalski miðillinn Tutto Calcio Femminile greinir frá því að félagið hafi mikinn áhuga á að fá landsliðskonuna til liðs við sig. Svava rifti samningi sínum við franska félagið Bordeaux á dögunum. Guðný Árnadóttir , liðsfélagi Svövu í landsliðinu, leikur með AC Milan og Berglind Björg Þorvaldsdóttir lék með liðinu árið 2019.

*Fjölnismennirnir ungu Halldór Snær Georgsson og Júlíus Mar Júlíusson eru á leiðinni til Ítalíu á reynslu hjá knattspyrnuliðum þar í landi. Halldór er á leiðinni til Cosenza og Júlíus til Tórínó.

*Knattspyrnumaðurinn Valdimar Þór Ingimundarson er að ganga í raðir norska B-deildarfélagsins Sogndal frá Strömsgodset sem leikur í efstu deild. Hann hefur lítið fengið að spila með Strömsgodset síðan hann kom til félagsins frá Fylki árið 2020. Hörður Ingi Gunnarsson samdi við Sogndal á dögunum. Þeir léku saman með U21 árs landsliði Íslands.

*Danski knattspyrnumaðurinn Christian Eriksen mun að öllum líkindum skrifa undir sex mánaða samning við enska úrvalsdeildarfélagið Brentford í vikunni. Eriksen fór í hjartastopp á EM í sumar og yfirgaf Inter Mílanó á Ítalíu í kjölfarið þar sem ekki er leyfilegt að spila með bjargráð þar í landi en bjargráður var græddur í hjarta leikmannsins til að koma í veg fyrir annað hjartastopp.