Kristín Sigurlaug Eyjólfsdóttir fæddist 3. október 1934. Hún lést 2. janúar 2022.

Útför Kristínar fór fram 15. janúar 2022.

Laugardaginn 15. janúar var til moldar borin á Borgarfirði eystra móðursystir okkar, Stína á Framnesi, en hún lést hinn 2. janúar sl. Sitt hinsta ból fékk hún í garðinum á Bakkamelnum og hvílir nú í traustum faðmi móðurjarðarinnar, með Skúla sinn á aðra hönd og mömmu okkar Jónbjörgu á hina og yfir þeim vaka litrík fjöllin og Álfaborgin fagra. Það er vel við hæfi að þær systur skuli hvíla þarna hlið við hlið, jafn kært og var með þeim alla tíð. Þær voru um margt samstiga í lífinu, giftu sig sama árið og eignuðust sjö börn hvor, bæirnir þeirra voru byggðir hvor sínum megin við Grafgilið á sama tíma, eftir sömu teikningu og flutt var í húsin sama árið. Þarna á milli bæjanna þeirra róluðu börnin og undu sér við leiki og var þá jafnan glatt á hjalla. Þótt oft hafi verið ærsl og læti er mörgum börnum sló saman í leikjum minnumst við þess ekki að Stína hafi hækkað við okkur róminn, hvað þá skammast, langlundargeð hennar var einstakt og þolinmæðin mikil. Alltaf vorum við velkomin og dyrnar á Framnesi stóðu okkur ávallt opnar. Þótt við flyttum í burtu breyttist þetta ekki, því ættum við leið í fjörðinn beið frænka með opinn faðm og það var alltaf jafn notalegt að setjast niður í eldhúsinu hjá henni og Skúla, fá sér kaffisopa og spjalla um landsins gagn og nauðsynjar. Alla tíð var samband yngstu systranna frá Bjargi, mömmu og Stínu, einstakt og elskuríkt. Þótt þær byggju um áratuga skeið hvor á sínu landshorni héldu þær nær daglega sambandi í gegnum síma og þegar þær hittust var gleðin við völd. Þá rifjuðu þær gjarnan upp gamla tíð, rauluðu gömul lög, drógu fram í dagsljósið gamlar vísur og ljóð og síðast en ekki síst hlógu þær saman, dátt og dillandi.

Elsku frænka. Þú varst einstök perla sem dýrmætt er að eiga minningar um. Það var sárt að sjá þig hopa inn í heim þar sem æ færri náðu til þín, en nú ertu frjáls og komin í faðm þeirra sem þér voru hvað kærastir í lifanda lífi.

Við kveðjum þig frænka, þegar þú við leiðarlok

lætur frá ströndum landsins

sem við byggðum saman.

– landsins sem gaf okkur hvert

annað.

Við minnumst, frænka, hlýjunnar

sem var hluti þíns einlæga viðmóts

– án undantekningar.

Elskunnar sem sagði, að okkar gleði væri þín

og okkar sársauki líka þinn.

Þú ræktaðir af alúð garðinn þinn,

þar sem allt ilmaði af skilningi,

hluttekningu og friðarvon.

Þegar við flettum í minningabókinni

þá finnum við þessar fögru myndir.

Þú ert að raula lagstúf

í eldhúsinu á Framnesi

eða að leggja á borð nýbakaðar pönnsur.

Við finnum líka orð, falleg orð.

Hvorki hnjóð né hallmæli.

Í þinni orðabók var slíkt ekki til.

Nú stöndum við á ströndinni

og horfum á eftir fleyinu þínu

þar sem það siglir inn í ljósið,

inn í friðinn – hægt og hljótt.

Og þú veifar til okkar með þitt

hægláta bros á vör.

Brosið sem á sér varanlegan

samastað

í hjörtum okkar allra.

Þú veist hvað bíður

og gengur öruggum skrefum frá borði.

Vertu sæl, elsku góða frænka,

og hafðu eilífa þökk fyrir að vera þú.

(H.S.)

Þuríður, Anna, Sigríður, Páll, Sigþrúður,

Hannes og Sesselja

frá Skriðubóli.