Víðförull Sverrir Sigurðsson vann mikið í framandi löndum í Asíu og í Afríku. Hér er hann staddur í tækniháskóla í Norður-Kína.
Víðförull Sverrir Sigurðsson vann mikið í framandi löndum í Asíu og í Afríku. Hér er hann staddur í tækniháskóla í Norður-Kína.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókarkafli | Sverrir Sigurðsson var fyrstur Íslendinga til að útskrifast sem arkitekt í Finnlandi. Sverrir, sem vann lengi fyrir Alþjóðabankann í Afríku og Asíu, segir frá ævintýralegu lífi sínu í bókinni Á veraldarvegum.
Hér segir Sverir frá veru sinni í Kúveit árið 1967, en þar starfaði hann um tíma fyrir sænska arkitektastofu.

Ég flaug með fyrsta almenna fluginu frá Evrópu til Miðausturlanda eftir sex daga stríðið. Þegar Lufthansavélin millilenti í Kaíró sá ég skuggalega hermenn otandi vélbyssum út um allt og útbrunna skrokka af sundursprengdum flugvélum liggja sem hráviði í nánd við flugstöðina. Eftir flugtak frá Kaíró flugum við gríðarlangan krók suður fyrir Sínaískagann í stað þess að fljúga beint yfir svæðið sem Ísraelsmenn höfðu nýlega lagt undir sig. Skaginn var enn ófriðarsvæði og Lufthansa vildi ekki freista gæfunnar með því að fljúga yfir hann.

Flugvélin lenti síðla kvölds í Kúveitborg, höfuðborg landsins. Mér lá við falli þegar ég steig út úr flugvélinni og bullandi heit vindhviða skall á mér. Í fyrstu hélt ég að ég hefði álpast inn í útblástur þotunnar en sá skjótt að þetta var bara heitur eyðimerkurvindur.

Ég varð fyrir menningaráfalli, veðurfarsáfalli og eiginlega áfalli yfir öllu sem mætti mér í Kúveit. Ég hefði varla getað fundið stað sem var mér eins framandi. Frá svölum, blautum og skipulögðum Norðurlöndum var ég skyndilega kominn í hitasvækju í skraufþurru landi þar sem allt var á rúi og stúi og ekki óx stingandi strá í endalausri sandauðninni. Við komuna var hitinn oftast um 48° að degi til og reyndist svipaður næstu mánuðina. Malbikaðir þjóðvegir tengdu landið við Írak til norðurs og Sádi-Arabíu til suðurs og höfuðborgarsvæðið var víðlent og groddalega byggt flatlendi. Sunnan við borgina var risastór útflutningshöfn fyrir olíu og innar í landinu kinkuðu olíudælurnar kolli í endalausum staðbundnum dansi, meðan þær dældu velmegun þjóðarinnar upp úr iðrum jarðar. Afgangurinn var eyðimörk – endalaus sandeyðimörk. Sandurinn var alls staðar. Göturnar voru fullar af sandi, garðurinn var fullur af sandi og sandurinn komst jafnvel inn í eldhússkápana og inn undir sængurfötin. Í roki smaug sandurinn inn um rifur á gluggum og hurðum og safnaðist saman í litla sandskafla hvarvetna á hillum og sillum hússins. Þetta fíngerða óþverraduft var alls staðar. Húsið, nágrennið og borgin voru þakin einlitri, okkurgulri leiðindamjöll.

Fyrir komuna hafði ég ímyndað mér stórfenglega borg í þessu forríka landi sem flaut á olíuauðæfum efst í Persaflóanum. Í stað þess fann ég ómerkilegt lénsherraríki frá miðöldum, umkringt húskofum sem minntu mig á braggabyggingar heima á Íslandi. Þótt miklar olíulindir hefðu uppgötvast á fjórða áratugnum tók það hálfa öld og gjöreyðileggingu nær allra mannvirkja í Persaflóastríðinu 1990-1991, að breyta borginni í eina litríkustu stórborg nútímans. Á mínum tímum var þessi hálfrar milljónar manna borg auvirðilegur samtíningur ómerkilegra bygginga. Einu undantekningar frá allri eymdinni voru í fornu virki sem endurbyggt hafði verið sem höll emírsins og fáein heimili olíubarónanna. Borgin var full af rusli því að enginn sá um sorphirðu. Borgarbúar fleygðu öllu sínu drasli út á götu þar sem rottur, villtir asnar og önnur kvikindi átu það sem ætt var. Þyngri úrgangurinn safnaðist í hauga hér og hvar, meðan sandstormarnir léku sér að léttum pappírssneplum og plastumbúðum.

Daginn eftir komuna til landsins fann ég „skrifstofuna“ sem Clas-Göran hafði sett á laggirnar nokkrum mánuðum áður. Ég nota gæsalappir í tilvitnuninni, því að þetta ömurlega herbergi, sem var troðfullt af fáeinum skrifpúltum og stólum, gat tæpast kallast skrifstofa.

Gluggalausa hornherbergið var í eigu ábyrgðarmanns okkar, Ali að nafni. Án ábyrgðarmanns gat enginn útlendingur rekið fyrirtæki í Kúveit eða fengið þau leyfi og réttindi sem til þess þurfti. Þetta var ágætis fyrirkomulag fyrir Kúveitbúa sem féflettu þannig erlend fyrirtæki á löglegan hátt með kröfum um hagnaðarhluta fyrir lítið sem ekkert mótframlag. Ég vissi aldrei hvers konar fyrirtæki Ali rak. Hann sat bara lon og don í herberginu sínu, íklæddur snjóhvítri skikkju, sem kallaðist dishdasha, keðjureykti sígarettur, sötraði í sig sætt te og rabbaði við kunningja sína meðan hann góndi á pínulítið sjónvarp.

Hans Gauert gaf mér stutta kynningu á fyrirhuguðum framkvæmdum. Fréttirnar voru ekki góðar. Yfirvöld landsins höfðu gefið aðalverkefnið okkar, bedúínabústaðina, upp á bátinn í kjölfar sex daga stríðsins. Hingað til höfðu yfirvöldin í þessum hluta heims sagt þegnum sínum alls kyns ýkjur og gróusögur um stríðið og héldu því jafnvel fram að arabaríkin hefðu unnið þarna stórsigur. Í Kúveit sem annars staðar flykktist fólk út á götur með fagnaðarhrópum og gleðskap við þessi tíðindi. Áróðurinn varð auðvitað skammlífur þegar fréttir stjórnvaldanna reyndust vera ósannindi og efnahagslífið fór að dragast saman, en sérstaklega þó þegar flóttafólk frá sigruðum héruðum fór að setjast að í nágrenninu.

Margir flóttamanna fyrrverandi yfirráðasvæða Egyptalands og Jórdaníu Leituðu sér hælis í Kúveit. Áhyggjufullir ráðamenn landsins fylgdust vel með atburðarásinni. Til að halda völdum í landinu varð Sabah-fjölskyldan að fylgjast með og bæla niður alla óánægju meðal landsmanna. Íbúarnir voru í uppnámi vegna ósigursins, vegna lyga stjórnvalda um atburðina og allra flóttamannanna sem nú gætu tekið störf þeirra. Að svo komnu máli hafði áhugi stjórnvalda á fastabústöðum fyrir hirðingja á úlföldum greinilega gufað upp.

Við gátum aðeins bjargað litlum hluta samninganna. Þetta var rannsóknarverkefni sem snerist um notkun tvenns konar byggingarefna: hefðbundinna múrklossa steyptum úr sandi og sementi og nýs byggingarefnis sem einhver vildi koma á markaðinn, múrsteinum framleiddum úr sandi og brenndu kalki. Verkefnið var álíka spennandi og troðfullur munnur af sandi en að minnsta kosti höfðum við eitthvað að gera. Vinnufélagar okkar í Sundsvall höfðu lagt fyrstu drögin að verkefninu en umboðsfyrirtækið hafði hafnað sky´rslunni. Það lenti á mínum herðum að bjarga málinu.

[...]

Þá sjaldan að ég fann einhvern frítíma reyndi ég að skemmta fjölskyldunni. Við fórum stöku sinnum í kvikmyndahús,en úrvalið var heldur vesaldarlegt því að í kjölfar styrjaldarinnar var mikil andúð á allri vestrænni menningu og flestar kvikmyndanna voru afar lélegar indverskar myndir. Auk þess urðum við að fylgjast með áróðursmyndum Nassers Egyptalandsforseta sem öskraði þar slagorð um gjöreyðingu Ísraels. Kvikmyndahúsin voru líka skelfing subbuleg. Framtíðarskemmtiefni var auglýst í sýningarskápum fullum þúsunda risavaxinna kakkalakka. Inni í bíósalnum óðum við yfir ökladjúpa hnetuskurnshauga sem söfnuðust saman undir sætaröðunum. Rottur í leit að óétnum hnetum strukust við fótleggina þegar sest var. Bíóferðirnar voru því ekkert sérstaklega skemmtilegar en þarna var ekki um margt að velja.

Helsta dægradvöl okkar voru bílferðir út í eyðimörkina. Við keyrðum hingað og þangað að næturlagi á ómerktum vegleysum eða þangað til við gátum ekki lengur greint borgarljósin. Þarna vorum við stundum tugum kílómetra handan við ómerkt landamæri landsins við Sádi-Arabíu. Á leiðarenda lögðumst við á fallega sandöldu, önduðum að okkur hreinu og tæru næturlofti og dáðumst að stjörnum skrýddum himninum. Erfiðleikar okkur gufuðu upp að mestu þegar við ímynduðum okkur að við værum guðir í kappakstri í Karlsvagninum eða á bruni eftir Vetrarbrautinni sem lá eins og upply´stur þjóðvegur yfir flauelssvartan næturhimininn. Ég rifjaði upp fyrir mér þekkingu mína í stjörnufræði frá menntaskólaárunum og benti Steini, syni mínum, á Kassíópeiu, Pólstjörnuna, Fjósakonurnar og auðþekktar reikistjörnur. Auðskilið var hvers vegna arabar fornaldar höfðu verið slíkir Snillingar í stjörnufræði. Þeir höfðu horft á þennan himin um aldaraðir og þekking þeirra á stjörnunum var bæði göfug og gagnleg. Ljóðlist þeirra fylltist háleitri andagift og himintunglin voru leiðarljós þeirra á löngum næturferðum um eyðimörkina. Á þeirra tímum sást ekkert jarðneskt ljós að næturlagi. Því miður var nú öðru máli að gegna. Þótt við værum langt frá borginni var mikil ljósmengun frá risastórum gaseldum sem brunnu hingað og þangað um eyðimörkina. Á þessum tímum var engin tækni til að nytja jarðgas sem gaus með olíunni upp úr borholunum. Gasið var úrgangsefni sem brennt var á staðnum.

[...]

Á skrifstofunni var lítið að gera meðan við biðum eftir tilboðum í pílagrímabúðirnar. Öll önnur verkefni voru enn í molum og fjárhagur félagsins í rúst. Til merkis um fjárhagslega vanda félagsins fluttum við Monika, eiginkona mín, inn í ódýrari íbúð, tveggja hæða raðhús nær bænum. Hollenskur kunningi okkar hafði búið þarna en var nú á heimleið. Íbúðinni fylgdi tuttugu lítra glerílát með tilheyrandi útbúnaði og leiðbeiningum á bruggun indónesísks hrísgrjónavíns. Þetta var himnasending. Allt áfengi var stranglega bannað í Kúveit og framboðið á svarta markaðinum var óreglulegt, af vafasömum gæðum og rándýrt. Hins vegar var auðvelt að kaupa öll aðföngin niðri í bæ. Eitt það fyrsta sem við gerðum í nýja heimilinu var að vega og mæla tilheyrandi efni í hrísgrjónavín og bíða óþreyjufull eftir niðurstöðunum. Við brugguðum fjölmarga skammta eftir þann fyrsta og vinsældir okkar meðal vina og kunningja jukust jafnt og þétt.

Í október tók að kólna í veðri. Einn morguninn fór hrollur um mig þegar ég opnaði útidyrnar. Ég fór inn aftur og náði mér í peysu. Hitinn var kominn niður í 33°C. Var nema furða að mér væri kalt! Eftir fjóra mánuði af linnulausum 48°C hita var líkaminn ekki vanur svona kuldabylgju.

Í kjölfar veðurbreytingarinnar komu einstaka skúrir. Þegar fyrstu regndroparnir féllu til jarðar þeyttist fólk út á götur, teygði hendurnar til himins og hrópaði af fögnuði. Nokkrum vikum síðar sendu máttarvöldin meira af svo góðu en í þetta skipti voru guðirnir einum of rausnarlegir. Stórkostlegar eldingar dönsuðu linnulaust milli himins og jarðar og skyndilega dembdist úrhellisrigning yfir okkur. Til allrar hamingju lauk þessari fimbulrigningu eftir aðeins einn sólarhring, en ekki þá fjörutíu sem Biblían telur að rignt hafi á dögum Nóa sáluga. En Kúveit var marflatt og engin holræsi undir götum borgarinnar. Þessi hellidemba setti allt á flot og eftir skamma hríð var bærinn kominn á kaf. Björgunarlið bæjarins þeystist um allt á gúmmíbátum með öflugum utanborðsmótorum. Mennirnir virtust skemmta sér konunglega við björgunarstörfin.

Þakið á húsinu okkar var flatt og þar var ágætt að sofa á þurrum og svölum nóttum. En þegar rigndi breyttu múrveggirnir kringum þakið því í sundlaug og ryksins vegna varð allt að forarsvaði. Þegar óveðrið stóð sem hæst fór ég að kanna leka úr loftinu. Ég opnaði þakdyrnar og flaut næstum niður stigann. Kolmórauður vatnselgur, sem líktist fljóti í vexti, gusaðist yfir mig, féll niður á efri hæðina, og fossaði þaðan niður í dagstofuna. Ég brölti niður stigana, opnaði útidyrnar og sleppti þessum óboðna gesti út á hlað. Síðan skrúbbuðum við leðjuna út úr húsinu eftir bestu getu.