Bílakarl Til eru bílstjórar sem hafa aldrei skipt um dekk og vita ekki hvernig tjakkurinn virkar, segir Hjörtur meðal annars hér í viðtalinu.
Bílakarl Til eru bílstjórar sem hafa aldrei skipt um dekk og vita ekki hvernig tjakkurinn virkar, segir Hjörtur meðal annars hér í viðtalinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Oft helst í hendur að eftir því sem brasið við bílana er meira og erfiðara verður starfið skemmtilegra,“ segir Hjörtur L. Jónsson í vegaaðstoð N1. „Oft er svolítil kúnst að losa um ryðgaðar rær og leysa vandamálin. Svo slíkt gangi upp þarf oft svolítið innsæi, en þó fyrst og fremst rökhugsun. Virkni í einu stykki eða tæki grípur annað og svo fer allt í gang. Annars er mannlegi þátturinn í starfi mínu stór og líklega vanmetinn. Oft kem ég á vettvang þar sem fólk er í öngum sínum með bilaðan bíl og þá gildir að vera glaður í bragði og stappa stálinu í mannskapinn. Slíkt virkar yfirleitt vel.“

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Oft helst í hendur að eftir því sem brasið við bílana er meira og erfiðara verður starfið skemmtilegra,“ segir Hjörtur L. Jónsson í vegaaðstoð N1. „Oft er svolítil kúnst að losa um ryðgaðar rær og leysa vandamálin. Svo slíkt gangi upp þarf oft svolítið innsæi, en þó fyrst og fremst rökhugsun. Virkni í einu stykki eða tæki grípur annað og svo fer allt í gang. Annars er mannlegi þátturinn í starfi mínu stór og líklega vanmetinn. Oft kem ég á vettvang þar sem fólk er í öngum sínum með bilaðan bíl og þá gildir að vera glaður í bragði og stappa stálinu í mannskapinn. Slíkt virkar yfirleitt vel.“

Setja bensín á deíselbíla

Um þessar mundir eru sex ár síðan Hjörtur tók við vegaþjónustu N1 með bækistöð á verkstæði fyrirtækisins við Réttarháls í Reykjavík. Hann kveikir á útkallssímanum klukkan átta á morgnana og vaktin er til miðnættis. Eðlilega rokkar milli daga hve margar beiðnir koma, þá frá fólki sem er í vanda statt með bílinn sinn og kemst hvorki lönd né strönd. Vandamálin eru til dæmis þegar fólk hefur í klaufaskap dælt bensíni á díselbíla eða öfugt svo allt er stopp.

Svo þarf líka að hjálpa fólki sem er með straumlausan bíl eða bjargarlaust þegar springur á dekki. Smámál, gætu einhverjir sagt um vandamál sem hér er að framan er lýst, en öðrum vex þetta í augum eða kunna ekki til verka. Þess vegna munar svo mjög um menn eins og Hjört, sem í vegaþjónustunni er að margra mati réttur maður á réttum stað!

„Já, ég hef alltaf haft mikinn áhuga á bílum og vélum og kann svolítið fyrir mér í viðgerðum. Ég er sennilega það sem kalla mætti mótorhaus. Að vísu alveg ómenntaður í fræðunum en alveg ófeiminn við að leita ráða reyndari manna og spyrja þá spurninga,“ segir Hjörtur og heldur áfram:

Græna byssan blekkir

„Einu sinni fór ég að heiman frá mér klukkan níu að morgni og kom heim rétt fyrir miðnætti. Hafði þá alls níu sinnum farið í útköll þar sem bensíni hafði verið dælt á díselbíla. Í slíkum tilvikum eiga Bandaríkjamenn oftast í hlut. Þeir telja, miðað við hvað gerist í heimalandinu, að þeir séu að dæla díseli á bílinn með grænu byssunni, en slíkar eru fyrir dísel í Ameríkuhreppi. Með sogdælu og öðrum tækjum sem þarf er lítið mál að tappa af tanknum, enda þótt viðgerðir sem fylgja séu vandasamari nú en var. Í bílum nútímans eru tugir tölvuskynjara og búnaður flókinn og viðkvæmur. Flest þetta smálega má þó leysa þegar og ef réttu tækin eru tiltæk. Útkallsbíllinn er eins og verkstæði á hjólum,“ segir Hjörtur, sem telur að í ökunámi mætt meira fjalla um gangvirki bíla og búnað þeirra.

„Auðvitað er ekki nógu gott að til séu bílstjórar sem hafa aldrei skipt um dekk og vita ekki hvernig tjakkurinn sem fylgir bílnum virkar. Oft fer ég í útköll og hjálpa fólki með sprungið dekk og vissulega er stórhættulegt að standa í svartamyrkri úti í kanti á fjölförnum vegi í slíku brasi. En þá má alveg geta þess að við slíkar aðstæður er lögreglan fljót til ef ég hringi og þá nærri með blikkandi ljós meðan ég hespa dekkjaskiptin af. Slíkt ætti að fyrirbyggja slys.“

Þegar létta fer á frosti í jörðu verpast vegir og holur myndast í malbiki. Þetta er holutíminn svokallaður. „Þegar ökumenn missa bílana sína ofan í slíka pytti springa stundum dekk, felgur skekkjast og fleira slíkt. Ég gleymi seint þegar ég var kallaður upp í Mosfellsbæ fyrir nokkrum árum en þá voru holur í Vesturlandsvegi á móts við Lágafell. Einn bílstjóri hringdi eftir aðstoð, en þegar ég kom á staðinn voru þar ellefu bílar í einni röð, allir með sprungið dekk eftir að hafa pompað ofan í holur! Þá sem aldrei fyrr þurfti harðar hendur, því ástandið var rosalegt.“

Umferðarmenning batnar

Hjörtur er mikið á ferðinni úti á vegum og fylgist vel með ökumenningu landans, sem hann telur vera að batna. Íslenskir bílstjórar horfi beint á veginn og haldi jöfnum hraða. Útlendingar, til dæmis á bílaleigubílum, taki ferðina í skrykkjum, horfi upp til fjalla og út til hliða.

„Útlendingarnir stoppa bílana jafnvel á miðjum vegi til þess að virða fyrir sér útsýnið eða taka myndir. Þetta er ekki nógu gott. En svo má líka halda því til haga að á allra síðustu árum hafa, undir forystu Sigurðar Inga Jóhannssonar núverandi samgönguráðherra, verið gerðar margar góðar úrbætur í vegamálum. Ýmsar hættulegar nibbur á götum hér á höfuðborgarsvæðinu hafa verið fjarlægðar og úti á landi fækkar stöðugt einbreiðu brúnum, sem voru mikar slysagildrur. Þetta er allt í áttina.“

Hver er hann?

• Hjörtur L. Jónsson fæddist árið 1960 í Reykjavík en ólst upp til unglingsára í Kelduhverfi. Var til sjós á yngri árum, þá gjarnan kokkur. Lengi matargerðarmaður, m.a. á veitingastaðnum Lóuhreiðrinu í Kjörgarði í Reykjavík og í mötuneyti Bændasamtaka Íslands. Eldaði þar gjarnan svið og slátur, sem fólk drakk nýmjólk með.

• Dálkahöfundur í Bændablaðinu frá 2009 og hefur skrifað fjölda greina um bíla og forvarnamál. Starfsmaður N1 mörg undanfarin ár, fyrst á dekkjaverstæði og nú síðast í vegaaðstoð.