Baldur Borgþórsson
Baldur Borgþórsson
Eftir Baldur Borgþórsson: "Ef þú vilt tryggja þér frelsi til að velja af hlaðborði ólíkra valkosta á öllum sviðum, þá er valið einfalt: X-D."

Þegar gengið verður til kosninga í Reykjavík hinn 14. maí næstkomandi munu þér og þínum standa til boða tveir kostir:

Annars vegar að tryggja þér og þínum frelsi til að velja það besta fyrir ykkur og hafa þannig eitthvað um það að segja hvernig þið kjósa að lifa lífinu.

Hins vegar að framselja þennan rétt til annarra.

Getur verið að valið sé virkilega svona einfalt, tveir kostir?

Svarið er já.

Það sést á verkum fulltrúa þeirra flokka sem nú mynda meirihluta í borginni.

Stefna þeirra og gjörðir í húsnæðis- og samgöngumálum allt yfirstandandi kjörtímabil sýna það svo ekki verður um villst.

Þéttingarstefna hefur verið keyrð áfram af hörku, oftast þvert á vilja íbúa viðkomandi svæða, og ákall um að brotið sé nýtt byggingarland til að mæta þörf og tryggja valkosti fyrir alla er virt að vettugi.

Í samgöngumálum er sömu aðferðum beitt; keyrð er áfram stefna sem ætlað er að ganga af flutningsgetu almennrar umferðar hálfdauðri og þvinga þannig fram aukningu á notkun strætó.

Slíkar aðferðir og hér er lýst teljast seint til góðra vinnubragða og aldrei til sóma.

Mér líða seint úr minni eftirfarandi ummæli eins fulltrúa meirihlutans á yfirstandandi kjörtímabili:

„Okkur er alveg sama hvað fólk vill – við ætlum að gera þetta.“

Slík tjáning segir margt um hugarfar þess er mælir en ekkert um vilja borgarbúa og rétt þeirra til að velja.

Þvert á móti.

Skyldur kjörinna fulltrúa eru ekki flóknar, þær eru í stuttu máli þær að tryggja framboð ólíkra kosta á öllum sviðum og láta hverjum og einum eftir að velja.

Velja það sem hentar þeim best.

Þannig rækir stjórnmálamaður skyldur sínar og aðeins þannig.

Stefna Sjálfstæðisflokksins er skýr:

Að tryggja framboð ólíkra kosta á öllum sviðum og leyfa þér að velja.

Það verða því ekki margir raunverulegir valkostir í boði hinn 14. maí næstkomandi.

Valkostirnir verða tveir:

Ef þú vilt tryggja þér frelsi til að velja af hlaðborði ólíkra valkosta á öllum sviðum, þá er valið einfalt: X-D.

Ef þú vilt tryggja að þú, og þínir, hafir ekkert val heldur sættir þig við það sem að þér er rétt, þá er valið einfaldlega X eitthvað annað.

Höfundur er varaborgarfulltrúi. baldurborg@reykjavik.is

Höf.: Baldur Borgþórsson