Ásgerður Halldórsdóttir
Ásgerður Halldórsdóttir
Eftir Ásgerði Halldórsdóttur: "Mér finnst gott til þess að vita að almenn ánægja er með það hversu vel lífið í bæjarfélaginu gengur."

Frá mínum bæjardyrum séð eru það tímamót þegar Sjálfstæðisflokkurinn á Nesinu gengur til prófkjörs 26. febrúar næstkomandi vegna uppstillingar á lista fyrir bæjarstjórnarkosningarnar sem haldnar verða 14. maí í vor. Þegar kemur að kosningunum sjálfum hef ég sinnt starfi bæjarstjóra í þrettán ár. Það hafa verið ár mikillar uppbyggingar og eflingar í allri þjónustu við bæjarbúa.

Keppnismanneskja með ríka réttlætiskennd

Það verða mikil umskipti að vera ekki lengur þátttakandi í þeirri spennu og samkeppni sem jafnan verður þegar liðsfélagar láta á það reyna hverjir skuli leiða bæjarmálin af hálfu flokksins næstu fjögur árin. Hver ný kynslóð forystufólks velur sér viðmið og gildi sem móta pólitíska vegferð hennar. Þegar ég lít til baka tel ég að það sem hafi mótað mína leið sé bakgrunnurinn úr reikningshaldi, þátttaka í íþróttastarfi á vegum Gróttu, ÍSÍ og HSÍ og virðing fyrir vilja bæjarbúa. Aginn úr talnaheiminum hefur kennt keppnismanneskju með ríka réttlætiskennd að varkárni er nauðsynleg. Þó er það svo að ekki verður hjá því komist í umróti og sveiflum stjórnmála og efnahagslífs að sýna áræði og taka ákvarðanir sem ekki er hægt að koma sér hjá en geta reynst misvel. Ég skora á bæjarbúa að fjölmenna í prófkjörið og velja sterkan og fjölbreyttan lista með jöfnu kynjahlutfalli. Lista sem setur agaða liðsheild og keppnisanda í forgrunn sigursællar kosningabaráttu í vor. Það hefur jafnan reynst sjálfstæðisfólki á Nesinu vel!

Nýr bæjarstjóri tekur við góðu búi

Mér finnst gott til þess að vita að almenn ánægja er með það hversu vel lífið í bæjarfélaginu gengur. Okkur hefur ekki fjölgað mikið á milli ára. Við höfum stækkað í sátt við mannlíf og umhverfi undanfarin ár. Fram undan er örari fjölgun með tilkomu nýrrar byggðar við Bygggarða. Hún mun gefa bæjarfélaginu aukinn styrk um leið og vanda þarf alla umgjörð. Bæjarbúar eru mjög spenntir fyrir þessari uppbyggingu og nánast daglega er haft samband til að leita frétta af þessari framkvæmd. Í dag er verið að leggja götur og lagnir í hverfið.

Litlar skuldir og góður rekstur

Staða bæjarins er sterk, skuldir bæjarins eru litlar og reksturinn stendur traustum fótum. Þá stóru mynd verður að hafa í huga og ekki láta karp um smærri atriði villa sér sýn. Búið er að byggja hjúkrunarheimili, endurnýja íþróttamiðstöðina og byggja nýtt fimleikahús svo eitthvað sé nefnt. Nú er verið að reisa búsetukjarna við Kirkjubraut sem verður tilbúinn í ársbyrjun 2023. Samhliða því er undirbúningur hafinn að því að byggja nýjan leikskóla og fara af stað með fyrsta áfanga innan skamms. Þannig hefur markvisst verið unnið að því að svara kröfum bæjarbúa um grunnþjónustu á heimaslóð. Mikilvægasta verkefni okkar inn í framtíðina er að standa vörð um hana, sér í lagi leik- og grunnskólastarfið og til viðbótar æskulýðsstarfið með unga fólkinu.

Bjartsýni ríkir meðal bæjarbúa

Það voru margir sem misstu vinnuna á Nesinu í upphafi Covid en nú hefur atvinnuleysið snarminnkað og ég finn fyrir bjartsýni hjá bæjarbúum. Framtíðin er sannarlega björt á Nesinu en fara þarf vel með skatttekjur bæjarbúa og gæta aðhalds. Stöðugt þarf að skoða hvort hægt sé að gera betur og láta rekstrarhagkvæmni leiða til meiri þjónustu við bæjarbúa. Bærinn seldi Ráðagerði til aðila sem vilja byggja upp veitingarekstur í húsinu. Það er spennandi og munu Seltirningar fagna frekari fjölbreytni; að geta gengið um vestursvæðin og fengið sér svo kaffi og meðlæti í lok göngutúrs. Senn líður svo að því að framkvæmdir hefjist við Náttúruminjasafnið (áður hús Lækningaminjasafnsins) sem ríkið keypti af bænum og afhenti Náttúruminjasafninu til afnota. Það er sannur heiður að því að vera komin með eitt af höfuðsöfnum landsins í okkar bæjarfélag. Skólabörn og íbúar allir munu eiga góðar stundir í safninu sem og fólkið í landinu sem fær enn eina ástæðuna til þess að sækja Seltjarnarnes heim.

Við þessi tímamót í mínu lífi er ég þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að starfa með bæjarbúum og frábæru starfsfólki bæjarins. Á Seltjarnarnesi ríkir mikill samhugur og samkennd meðal bæjarbúa og starfsfólks bæjarins, hér er gott og eftirsóknarvert samfélag. Þannig á það að vera.

Höfundur er bæjarstjóri.