Auður Perla Svansdóttir fæddist 6. apríl 1969. Hún lést 6. janúar 2022.

Útförin fór fram 20. janúar 2022.

Við í Mótettukórnum áttum Auði Perlu saman. Árum saman hefur hún gefið okkur söngrödd sína, félagsskap og leiðtogahæfileika. Hún steig ekki strax fram en mætti á allar æfingar með sitt þykka og svolítið úfna hár, kankvís og tilbúin að hlæja að lífinu í kringum sig. Hún átti leynivini allt um kring, hvíslaði einhverju sniðugu og skapaði stemningu innan og utan æfinga, í pásum og á ferðalögum, afslöppuð um leið og hún stjórnaði og læddi hugmyndum sínum að: „Ég var að pæla ...“

Hún var uppátækjasöm og skipulögð, sá um að allt væri til reiðu fyrir kórinn, fylgdist með að öll smáatriði væru frágengin fyrir tónleika. Við ókum saman heim eftir lokaæfingu á Jólaóratóríunni þar sem hún hélt áfram að ræða hugmyndir sínar um smágjafir og þakkir til annarra og við ákváðum að leggja lykkju á leið okkar til að skoða jólaljósin. Hún sá glitta í stutta stund sem hún gæti átt fyrir sjálfa sig og sagði: „Æ, það þarf enginn á mér að halda í augnablikinu,“ og svo áttum við fallegt spjall í bílnum. Við fráfall Auðar Perlu verður ljóst að hún var lífið í Mótettukórnum, miðjan sem hélt áreynslulaust um þræðina. Við þurftum alltaf á henni að halda og nú syrgjum við hana í sameiningu. Það er sérstakt að finna hversu samanlögð sorg okkar er sterk og hversu hún bindur okkur þétt saman í kærleika.

Auður Perla var ljúf og sniðug. Hún sá fólk og pældi í hlutum sem auðveldlega fóru fram hjá öðrum. Hún hafði til að bera félagslega ábyrgðarkennd sem var einstök. Það var sérstaklega ánægjulegt að vinna með henni. Hún var hjálpsöm og hlutirnir uxu henni ekki í augum. Hún var til taks fyrir þau sem á þurftu að halda, fjölskylduna, vinnuna, vinina og kórinn. Alltaf til í samtal.

Söngröddin var skær og tær, sem félagi var hún skemmtileg og hláturmild með sitt fallega mikla hár. Hún var ljós. Ljósaljós.

Minningarnar um hana eru fölskvalausar. Perlur sem raða sér upp í glitrandi minningaband. Það er þakkarvert hvað við áttum saman margar góðar stundir síðustu mánuðina og hvað hún kom miklu í verk fyrir kórinn sinn á erfiðum tímum.

Fjölskyldunni vottum við okkar dýpstu samúð.

„Dreymi þig ljósið. Sofðu rótt.“

Fyrir hönd sópransins í Mótettukórnum,

Guðrún Hólmgeirsdóttir.

Við nutum þeirrar gæfu að kynnast þér Perla. Þú varst bekkjarsystir okkar og vinur. Við gátum skrafað um öll heimsins mál, stór og smá. Þú varst söngkonan í hljómsveitinni okkar þegar við vorum unglingar í Menntaskólanum á Laugarvatni. Það var tryggur vinskapur sem mótaðist þar. Í tónlistinni funduð þið Kjartan svo hvort annað. Við minnumst broshýrrar stúlku með sitt hálf-kæruleysislega fas og innilegan húmor og við heyrum þessa lífsglöðu og yndislegu rödd sem hreif alla með. Söngur þinn verður okkur alltaf í fersku minni.

Við vottum Kjartani, börnum þeirra og allri fjölskyldu Perlu innilega samúð.

Rúnar Már Þorsteinsson og Hlynur Arnórsson.

Tengsl mín við Auði Perlu liggja í gegnum samband barna okkar, Arnars Steins og Kolfinnu, og er hjarta mitt sárum sært að hafa ekki átt þess kost að kynnast henni af öðru en orðspori en minningin um yndislega konu lifir um ókomna tíð.

Brugðið er dagsins bjarma,

blánar um fjallaskörð.

Daggperlum dýrum stráir

dulfögur nótt um jörð.

Hægt stynur hafsins bára,

hljóðnar um dal og strönd,

svefnfleygar sálir gista

sólofin draumalönd.

(Knútur Þorsteinsson)

Hugur minn er hjá hjartahlýrri og samheldinni fjölskyldu Perlu og votta ég aðstandendum mína dýpstu samúð.

Svanhildur María

Gunnarsdóttir.

Auður Perla kom jafnan brosandi í hús. Þegar hún kom í Hallgrímskirkju til æfinga eða starfa tók hún kveðjum vel og svaraði með hlýju. Frá árinu 2008 söng Auður Perla í Mótettukór Hallgrímskirkju og tók því virkan þátt í helgihaldi og listalífi kirkjunnar. Hún varð heimamaður í safnaðarstarfinu, samverkakona starfsfólksins og góður liðsmaður. Fyrir messur á sunnudagsmorgnum kom hún með bros á vör, lagði gott til og hélt svo hátíð í hliði himinsins. Auður Perla var traust og því kjörin til formennsku í kórnum. Hún var lausnamiðuð, lagin og ábyrg. Hennar er sárt saknað. Fyrir hönd Hallgrímskirkju þökkum við allt sem Auður Perla lagði til Hallgrímskirkju. Við biðjum góðan Guð að varðveita hana og styrkja ástvini hennar og okkur öll.

Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Sigurður

Árni Þórðarson.

Hældu mér, það er óvíst að ég trúi þér, hvettu mig og það er víst að ég gleymi þér aldrei! Þannig var Auður Perla.

Það dró ský fyrir sólu þegar ég og við sem þekktum Perlu fengum þau hörmulegu tíðindi á nýju ári að bekkjarsystir okkar og vinkona til nærri 40 ára hefði kvatt þennan heim fyrirvaralaust á besta aldri vegna skyndilegra alvarlegra veikinda. Það varð myrkur um miðjan dag. Það dimmdi í veröldinni og hljóðnaði og hún missti um leið lit og ljóma. Það rifjast upp mér núna þegar ég kynntist henni í fyrsta sinn. Hún var ári yngri en við hin, með afbrigðum létt í skapi, eldklár, söngvin og listræn á allan hátt. Hún hafði með sér nokkuð framandlegt útlit, hornfirsk, stórglæsileg með þykkt og fallegt dökkt hár. Þótt hún væri ári yngri var hún langt á undan okkur strákunum í andlegum þroska og við gátum margt af henni lært. Við Perla sátum saman í bekk í fjögur ár og kynntumst þannig náið. Það er í reynd erfitt að ímynda sér mannkosti umfram þá sem Perla var gædd. Hún valdist til forystu í okkar hópi og jákvæðni var hennar styrkur eins og alltaf. Við öll nutum þess og hún leysti hvers manns vanda oftast með góðu samtali. Leiðindi og afsakanir voru ekki til þar á bæ. Þegar til stóð að fara í göngutúr var aldrei vont veður hjá Perlu, það var alltaf nógu gott. Ég fullyrði að alla þá sem hún umgekkst gerði hún að betri manneskjum. Ekki man ég eftir því að hún hafi skipt skapi og var svo sannarlega ljósberi okkar í gegnum lífið á þessum árum. Hún bjó yfir ríkri samkennd og hafði þann eiginleika að létta byrðar annarra og gleðja. Yfirlætisleysi hennar og hversdagslegt fas höfðu ríkt aðdráttarafl. Hún var allt í senn límið í hópi okkar menntaskólaárgangs sem og sá dráttarklár sem við þurftum á að halda þegar mikið stóð til. Sífellt fleiri í hópi nútímamanna komast ekki í gegnum daginn nema vera skelfingu lostin frá morgni til kvölds. Smástund með Perlu gat fært fjöll og sama fólk hefði líklega ekki ástæðu til að kvarta lengur eftir góðan fund með henni. Sum okkar lenda í áföllum á lífsleiðinni, alvarlegum veikindum og fleiru en flest fá sæmilegt tækifæri til að rétta okkar hlut þótt það geti tekið allt of langan tíma. Þetta tækifæri fékk elsku vinkona okkar aldrei. Betri er hálfur skaði en allur. Á einu augnabliki breytist allt, Perla er farin frá okkur og það er gríðarlega sárt að geta ekki rætt málin við okkar leiðtoga. Það stóð enn margt til en bíður nú endurfundanna.

Hamingjan var hennar förunautur alla tíð og mikill harmur er kveðinn að Kjartani, börnum þeirra, móður og systkinum. Hún var mjög stolt af sinni fjölskyldu sem var henni kærari en nokkuð annað. En minningin um yndislega manneskju, sem var til fyrirmyndar hvar sem hún kom, heldur okkur sem eftir stöndum við efnið og verður ávallt það leiðarljós sem við þurfum svo mjög á að halda.

Blessuð sé minning Auðar Perlu Svansdóttur.

Skúli Gunnlaugsson.