Frosin Skíðalyfta í Hlíðarfjalli situr hér kyrr í frosti og safnar klaka.
Frosin Skíðalyfta í Hlíðarfjalli situr hér kyrr í frosti og safnar klaka. — Morgunblaðið/Ari Páll
Veturinn fer nokkuð brösuglega af stað í Hlíðarfjalli á Akureyri en lokað var um helgina vegna veðurs. Forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli segir vindinn og hitann erfiðastan viðureignar. „Þetta er búið að vera erfitt, lítið um opnanir.

Veturinn fer nokkuð brösuglega af stað í Hlíðarfjalli á Akureyri en lokað var um helgina vegna veðurs. Forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli segir vindinn og hitann erfiðastan viðureignar.

„Þetta er búið að vera erfitt, lítið um opnanir. Við höfum náð að opna tvisvar á síðustu tíu dögum,“ segir Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður skíðasvæðisins. „Það er náttúrlega búið að vera rosalega hvasst,“ segir hann og bætir við að miklar sviptingar hafi verið í hita á svæðinu. Til að mynda hafi verið átta stiga frost á miðvikudegi en ellefu stiga hiti nóttina á eftir. „Þannig að þetta eru rosalegar öfgar.“

Sem dæmi hafi verið um 30 cm snjór í garði hans í miðri síðustu viku, sem nú sé horfinn á braut.

Betri horfur í febrúar

Miðað við veðurspár ætti staðan þó að fara að snúast við. „Þetta gerist oft í janúar.“

Staðan verði því vonandi önnur þegar vetrarfríin byrja um miðjan febrúar.

„Ég held að þetta verði nú nokkuð gott þegar líður á, þetta skáni,“ segir Brynjar. Hann segir svæðið búa að snjó sem safnast hefur í snjógirðingar í fjallinu. „Undirlagið heldur ennþá, þannig að það er bara vonandi að þetta skáni.“

Spurður hvort kórónuveiran hafi eitthvað látið á sér kræla eða sett strik í reikninginn segir hann svo ekki vera.

„Við vinnum á tveimur aðskildum vöktum sem hittast ekki og það hefur ekkert komið upp þar. Svo erum við náttúrlega með þessar takmarkanir og við vinnum eftir þeim. Þannig að það hefur gengið nokkuð vel.“ ari@mbl.is