Axel Arnar Nikulásson, sendifulltrúi og fv. körfuboltamaður, lést á föstudag 59 ára að aldri. Axel fæddist 2. júní 1962 á Akranesi en fluttist árið 1966 til Keflavíkur.

Axel Arnar Nikulásson, sendifulltrúi og fv. körfuboltamaður, lést á föstudag 59 ára að aldri.

Axel fæddist 2. júní 1962 á Akranesi en fluttist árið 1966 til Keflavíkur. Foreldrar hans eru Nikulás Már Brynjólfsson, lést 1997, og Þórarna Sesselja Hansdóttir. Bræður Axels eru Óskar Þór og Brynjólfur. Hálfsystir hans er Þóra Björk.

Axel lætur eftir sig eiginkonu og þrjú börn. Eiginkona hans er Guðný Reynisdóttir, mannauðsráðgjafi á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Börn þeirra eru Fríða, f. 1995, starfmaður í utanríkisráðuneytinu, Egill, f. 1998, nemi í hótelstjórnun við César Ritz-háskólann í Sviss, og Bjargey, f. 2005, nemi við MH.

Axel hóf feril sinn sem atvinnumaður 17 ára árið 1979 með liði Keflavíkur. Fyrstu árin þar átti hann þátt í að koma liðinu upp í meistaradeild og þeim árangri að ná öðru sætinu í sömu deild ári síðar.

Haustið 1983 flutti Axel til Pennsylvaníu og hóf þar nám við Stroudsburg-háskóla. Hann lék körfuknattleik með háskólaliðinu meðan hann stundaði þar nám.

Að námi loknu fjórum árum síðar lá leiðin heim til Íslands og aftur til Keflavíkur en þegar Axel sneri heim árið 1987 hóf hann að spila með Keflvíkingum að nýju. Með þeim vann hann Íslandsmeistaratitil árið 1989.

Í kjölfar titilsins fór Axel yfir til KR og varð með þeim Íslandsmeistari fyrsta tímabilið sitt þar, árið 1990. Hann lék með vesturbæjarliðinu til ársins 1992. Vorið 1993 gekk hann til við liðs við lið Reynis í Sandgerði og hætti sem leikmaður í framhaldi af því. Axel sneri sér að þjálfaramálum og þjálfaði drengjalandslið Íslands tímabilið 1993 til 1994. Þá tók hann við þjálfun meistaraflokksliðs KR 1994 til 1995.

Í júní 1995 hóf Axel störf á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Fluttist hann árið 1998 með fjölskylduna til New York þar sem Axel starfaði sem fulltrúi í fastanefnd Íslands við SÞ. Frá 2005 og fram til ársins 2014 gegndi hann stöðu staðgengils sendiherra í Peking og Lundúnum. Árið 2016 tók hann svo við stöðu mannauðsstjóra.

Axel var tengiliður sendiráðanna í Peking og Lundúnum við Íþróttasamband Íslands á Ólympíuleikunum 2008 og 2012.