Vöntun Enn háir mannekla bandarískum fyrirtækjum.
Vöntun Enn háir mannekla bandarískum fyrirtækjum. — AFP
Sumum bandarískum fyrirtækjum gengur erfiðlega að manna stöður vegna yfirstandandi bylgju kórónuveirusmita.

Sumum bandarískum fyrirtækjum gengur erfiðlega að manna stöður vegna yfirstandandi bylgju kórónuveirusmita. Wall Street Journal greindi frá því á sunnudag að í byrjun janúar hefðu um 8,8 milljónir Bandaríkjamanna verið frá vinnu vegna þess að þeir sjálfir eða ættingjar þeirra höfðu smitast af kórónuveirunni.

Bandarísk stjórnvöld hafa vaktað fjarvistir vegna veikinda í kórónuveirufaraldrinum og er greinilegt að ómíkrón-afbrigði veirunnar hefur meiri áhrif en fyrri afbrigði. Eldra met var slegið í janúar 2021 þegar skoðanakönnun stjórnvalda leiddi í ljós að um 6,6 milljónir manna komust ekki til vinnu sinnar vegna kórónuveirusmits. Í desember síðastliðnum sýndi könnunin að um þrjár milljónir Bandaríkjamanna þurftu að halda sig heima við vegna veirunnar.

Þá segjast fleiri svarendur en áður ekki vilja vinna vegna hættunnar á að smita aðra eða smitast af kórónuveirunni. Má áætla að í janúar hafi 3,2 milljónir Bandaríkjamanna haldið sig frá vinnumarkaðinum af þeim sökum en í desember var talan 2,6 milljónir.

Að sögn WSJ sýndi könnun sem framkvæmd var á vegum Harvardháskóla að nærri því tveir af hverjum þremur bandarískum launþegum sem veiktust í desembermánuði ákváðu að sinna vinnu sinni þrátt fyrir veikindin. Þegar þeir voru spurðir nánar um ástæðu þess að þeir tóku sér ekki frí frá vinnu sögðu svarendur að þeir vildu ekki verða af laununum, né leggja auknar byrðar á samstarfsfélaga sína, og að þeir óttuðust að verða refsað fyrir fjarveruna af vinnuveitendum sínum. ai@mbl.is