Bílar Meira ferðast innanlands, sem jók bílasölu, segir Gunnar Haraldsson, hér á sölusvæðinu á Hálsum í Reykjavík.
Bílar Meira ferðast innanlands, sem jók bílasölu, segir Gunnar Haraldsson, hér á sölusvæðinu á Hálsum í Reykjavík. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Nærri 800 ökutæki eru á plani þeirra fjögurra bílasala sem á dögunum opnuðu sameiginlegt sölusvæði á Hálsunum í Reykjavík. Þetta eru annars vegar Bílabankinn og Bílamiðstöðin, sem taka bíla í umboðssölu, og hins vegar Bílaland BL og Askja – Notaðir bílar, hvort í eigu síns stóra bílaumboðsins.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Nærri 800 ökutæki eru á plani þeirra fjögurra bílasala sem á dögunum opnuðu sameiginlegt sölusvæði á Hálsunum í Reykjavík. Þetta eru annars vegar Bílabankinn og Bílamiðstöðin, sem taka bíla í umboðssölu, og hins vegar Bílaland BL og Askja – Notaðir bílar, hvort í eigu síns stóra bílaumboðsins.

Nábýli skapar umferð

„Að fyrirtækin fjögur séu hér á sama svæði, það er á reit milli Krókháls og Hestháls, er þægilegt fyrir viðskipavini. Þeir ættu þá oftast nær að finna hér bílinn sem þá vantar. Nábýli fjögurra fyrirtækja skapar líka heilmikla umferð á svæðið. Heilt yfir skapar slíkt meiri viðskipti hjá öllum,“ segir Gunnar Haraldsson sölustjóri hjá Öskju.

Nýja bílasölusvæðið var opnað rétt fyrir jól, en undirbúningur þess hafði staðið lengi. Á síðustu árum hefur orðið sú þróun að bílasölurnar í borginni hafa margar verið fluttar í Hálsahverfi. Nokkrar eru þó enn á Ártúnshöfða og einhverjir muna frá fyrri tíð þegar Skeifan var helsta bílasölusvæðið í Reykjavík.

Löng keðja orsaka og afleiðinga

„Núna finnum við mjög fyrir því að á skrá þarf nýlega notaða bíla, sem eru af þessum algengustu gerðum og henta fjölskyldum,“ segir Gunnar Haraldsson. Kunnugir benda á að á síðustu misserum hafi bílamarkaðurinn heilt yfir lent í hægagangi í langri keðju orsaka og afleiðinga. Í stórum bílaverksmiðjum erlendis hafi hægt á framleiðslu vegna sóttvarna og að einhverju leyti minni eftirspurnar. Á Íslandi hafa bílaleigur, sem eru ráðandi á markaði, keypt færri ökutæki en þegar best lét í ferðaþjónustu. Um slíkt muni, því leigurnar keyptu þúsundir nýrra bíla sem fóru í endursölu eftir eitt og hálft til tvö ár í notkun. Algengt hefur verið að almenningur bókstaflega sitji um slíka bíla og kaupi, enda yfirleitt vel með farnir. Nú fæst minna af slíkum.

„Þegar tók að mestu fyrir utanlandsferðir sumarið 2020 fóru Íslendingar að ferðast meira hér innanlands. Slíkt skapaði mikla eftirspurn eftir öflugum fólksbílum eða jepplingum, þá gjarnan með dráttarkrók fyrir hjólhýsið. Þessi eftirspurn hefur haldist og staðan er ekkert að breytast. Síðasta ár var mjög gott í sölu notaðra bíla og þótt janúar sé alltaf rólegur fer 2022 vel af stað,“ segir Gunnar. Hjá Öskju – notuðum bílum eru bílar sem fyrirtækið hefur Íslandsumboð fyrir áberandi; Benz, Kia og Honda. Annars má segja að hjá fyrirtækjunum fjórum við Hestháls sé öll flóran, sem skapar mikil viðskipti.

Fjármögnun í lagi

„Já, nú vantar bókstaflega fleiri notaða bíla í sölu svo markaðurinn rúlli samkvæmt eðlilegum lögmálum. Til að svo megi verða eru allar forsendur þegar framboðið eykst, því fjármögnun til bílakaupa er í góðu lagi og viðskiptin og samningar yfirleitt teknir með rafrænni og skjótvirkri afgreiðslu,“ segir Gunnar Haraldsson.