Átök Úkraínskur hermaður í skotgröf nærri borginni Gorlvika í Úkraínu.
Átök Úkraínskur hermaður í skotgröf nærri borginni Gorlvika í Úkraínu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur S. Blöndal Þóra Birna Ingvarsdóttir Spennustigið á landamærum Úkraínu og Rússlands var hátt um helgina en vestræn ríki áætla að rúmlega hundrað þúsund rússneskir hermenn bíði nú átekta við landamærin.

Baldur S. Blöndal

Þóra Birna Ingvarsdóttir

Spennustigið á landamærum Úkraínu og Rússlands var hátt um helgina en vestræn ríki áætla að rúmlega hundrað þúsund rússneskir hermenn bíði nú átekta við landamærin.

„Við höfum þungar áhyggjur af þessari alvarlegu stöðu sem er komin upp, það er augljóst að spennan er mikil og það er raunveruleg hætta á að hernaðarátök brjótist út,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Hún segist vona það besta en búa sig undir það versta. „Veröld þar sem hernaðarmáttur ræður meiru en alþjóðalög er ofsalega slæm tilhugsun.“

Þórdís Kolbrún segir augljóst að fyrir hagsmuni Íslands sé grundvallaratriði að alþjóðalög, landamæri og lögsaga á sjó og á landi séu virt alls staðar. Því sé mikilvægt að sýna samstöðu bæði með NATO og Evrópusambandsríkjunum. „Við tökum fullan þátt á vettvangi alþjóðastofnana í nánu samráði við Norðurlöndin og önnur ríki.“

Rússar ætli bakdyramegin inn

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands sagðist í gær hafa heimildir fyrir því að að stjórnvöld í Moskvu ætluðu sér að koma upp leppstjórn í Úkraínu sem væri hliðholl Rússlandi. Að sögn utanríkisráðuneytis Breta hefur rússneska leyniþjónustan sett sig í samband við nokkra úkraínska fyrrverandi stjórnmálamenn og hvatt þá til þess að fara aftur fram með fulltingi rússneska ríkisins, þar á meðal Jevgen Murajev, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu.

Ráðamenn í Moskvu neita þessum yfirlýsingum Breta og kalla þær hreinan uppspuna.

Utanríkisráðherra Bretlands, Liz Truss, segir uppljóstrunina varpa ljósi á stærðargráðu starfsemi Rússa innan Úkraínu og veita innsýn í hugarheim ráðamanna í Kreml.

„Rússland verður að draga úr hernaðaraðgerðum, hætta herferð ógnunar og ósanninda og tileinka sér friðsamleg milliríkjasamskipti,“ sagði Truss um ásakanir Breta á hendur Rússum í gær.

Yfirvöld í Úkraínu hafa heitið því að berjast gegn hvers kyns rússneskum áhrifum í úkraínskum efnahag og stjórnmálum.

Fundað um ástandið í Genf

Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands, Antony Blinken og Sergei Lavrov, funduðu um helgina í Genf í Sviss um ástandið við landamærin. Þær viðræður skiluðu ekki miklu efnislega fyrir utan það að ríkin sammæltust um að halda viðræðum áfram opnum.

Rússnesk stjórnvöld kröfðust þess að hersveitir NATO yfirgæfu Rúmeníu og Búlgaríu, sem hluta af þeim kröfum sem þeir hafa sett fram gagnvart bandalagi ríkja sem Bandaríkin leiða. Lavrov sagðist vonast eftir skriflegu svari Bandaríkjamanna við kröfum Rússa að fundi loknum.

Blinken hvatti Rússa til að hætta að ógna Úkraínu og sagði að vegna þess fjölda hermanna sem Rússar hefðu stillt upp við landamærin gætu þeir ráðist þar inn úr suðri, austri og norðri. Hann sagði enn fremur að hann vissi að stjórnvöld í Moskvu gætu gripið til annarra aðgerða en innrásar og minntist í því samhengi á netárásir.

Nýr kanslari í kröppum dansi

Í Þýskalandi sætti Olaf Scholz kanslari nokkurri gagnrýni fyrir að tala tveim tungum um afstöðu Þýskalands í deilunni eftir eftirtektarverð ummæli þýsks herforingja.

Ummæli þau voru þess efnis að það væri ekkert til í þeim hugmyndum að Rússar myndu ráðast inn í Úkraínu og þar að auki sagði herforinginn, Kay-Achim Schönbach, að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, ætti virðingu skilda. Schönbach sagði af sér að kvöldi laugardags vegna ummælanna en þau voru þá þegar farin að valda usla.

Utanríkisráðherra Úkraínu, Dmytro Kuleba, kallaði sendiherra Þýskalands á sinn fund og sakaði Þjóðverja um að með þessu hvetja Pútín til þess að ráðast inn í Úkraínu.

Scholz varaði Kreml við því í gær að innrás myndi reynast þeim afar dýrkeypt en hvatti þó einnig til skynsemi við beitingu þvingunaraðgerða.

Annað þrætuefni milli Þýskalands og annarra vestrænna ríkja er það að Þjóðverjar hafa ekki sent nein vopn til Úkraínu.

Bretar, Bandaríkjamenn og ríki á Balkanskaganum hafa nú þegar heitið því að senda ýmis vopn til notkunar í átökum.