Mótbyr Fjölgun áskrifenda var ekki í takt við væntingar markaðsgreininga og leiddi það til þess að hlutabréfaverð Netflix hrundi á föstudag.
Mótbyr Fjölgun áskrifenda var ekki í takt við væntingar markaðsgreininga og leiddi það til þess að hlutabréfaverð Netflix hrundi á föstudag. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Bandarísku hlutabréfavísitölurnar lækkuðu skarplega í síðustu viku og bendir þróunin frá áramótum til þess að markaðurinn sé að leiðrétta sig eftir langvarandi hækkunartímabil undanfarin misseri.

Fréttaskýring

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Bandarísku hlutabréfavísitölurnar lækkuðu skarplega í síðustu viku og bendir þróunin frá áramótum til þess að markaðurinn sé að leiðrétta sig eftir langvarandi hækkunartímabil undanfarin misseri.

Mælt frá áramótum hefur Dow Jones-vísitalan veikst um 6,34%, og mældist 34.265 stig við lokun markaða á föstudag. S&P 500 hefur veikst um 8,31% á sama tímabili og mælist 4.397 stig þegar þetta er skrifað, en Nasdaq-vísitalan hefur lækkað enn meira, eða um 13,04% og stendur í 13.769 stigum.

Meðal þeirra fyrirtækja sem fóru verst út úr vikunni var streymisveitan Netflix sem lækkaði um rösklega 24% á föstudag þegar upplýst var að á síðasta ársfjórðungi fjölgaði áskrifendum minna en reiknað hafði verið með. Dugði það ekki til að hughreysta fjárfesta að heildarfjöldi áskrifenda og tekjur fóru fram úr spám markaðsgreinenda. Verðlækkun hlutabréfa Netflix smitaði út frá sér til Disney sem lækkaði um 9,45% í liðinni viku, og til Apple sem missti 5,44% enda túlka fjárfestar fréttirnar af áskrifendatölum Netflix þannig að samkeppnin á sjónvarpsstreymismarkaði fari harðnandi. Þá má leiða líkum að því, nú þegar virðist sjá fyrir endann á kórónuveirufaraldrinum, að fólk muni verja minni tíma heima fyrir og þar með hafa minni áhuga á að borga fyrir aðgang að streymisveitu. Var Netflix einmitt í hópi þeirra fyrirtækja sem nutu góðs af breyttu neyslu- og hegðunarmynstri í faraldrinum.

Af öðrum stórum tæknifyrirtækjum sem áttu mikilli velgengni að fagna í faraldrinum en hafa lækkað í verði það sem af er þessu ári má nefna Amazon, sem rýrnað hefur um rúm 16%, Facebook sem misst hefur um 10,7% og Google sem kostar 9,45% minna í dag en í ársbyrjun.

Æfingahjólin safna ryki

Svipaða sögu er að segja af æfingatækjaframleiðandanum Peloton sem flaug með himinskautum í faraldrinum og náði hlutabréfaverð fyrirtækisins hámarki í kringum jólin 2020 en hefur lækkað um meira en 80% síðan þá. Nam vikulækkun Peloton 9,78% en fréttastofa CNBC greindi frá því í vikunni að fyrirtækið hygðist tímabundið hætta smíði æfingatækja vegna verulegs samdráttar í eftirspurn, sem fyrirtækið skrifi m.a. á aukna samkeppni og minnkandi áhuga neytenda á að kaupa dýran æfingabúnað fyrir heimilið nú þegar byrjað er að lifna yfir líkamsræktarstöðvum á ný.

Frétt CNBC byggðist á gögnum sem lekið var úr fyrirtækinu og brást Peloton við með því að segja að umrædd gögn væru gloppótt og sett fram í röngu samhengi, og að aðeins stæði til að hægja á og endurskipuleggja framleiðsluna frekar en að setja allt á ís svo vikum og mánuðum skiptir. Jafnvel þótt fyrirtækið hyggist ekki loka verksmiðjum sínum sýna fréttirnar hve mikil umskipti hafa orðið frá síðasta ári þegar Peloton opnaði nýja verksmiðju með hraði til að bregðast við aukinni eftirspurn.

Buffett-formúlan sannar sig

Í ritstjórnarpistli Financial Times er bent á að leiðrétting markaða – og þá sérstaklega lækkun hlutabréfaverðs þeirra fyrirtækja sem hækkuðu hvað mest í kórónuveirufaraldrinum – kunni að vera til marks um að bandaríska hagkerfið, og raunar alþjóðahagkerfið líka, sé að komast aftur í eðlilegt horf: að þróun hlutabréfaverðs í faraldrinum hafi stýrst af óeðlilega lágum vöxtum og óeðlilegu neyslumynstri þegar fólk sat fast inni á heimilum sínum.

Er það ágætis vísbending um að „eðlilegt ástand“ sé aftur að komast á að bilið hefur minnkað á milli frammistöðu Berkshire Hathaway, fyrirtækjasamsteypu Warrens Buffetts, og aðalfjárfestingasjóðs Ark Invest sem Cathie Wood leiðir. Buffett er þekktur fyrir að veðja á langtímaárangur arðbærra fyrirtækja sem sinna undirstöðuþörfum neytenda og hagkerfisins, s.s. vöruflutningum, orkuinnviðum, tryggingum, fjármálaþjónustu og matvælaframleiðslu. Fjárfestingastefna Ark hefur aftur á móti einkennst af því að leita uppi ný og spennandi tæknifyrirtæki sem þróa glænýjar lausnir sem eiga að umbylta heiminum en skila ekki endilega hagnaði eins og stendur.

Á köflum hefur aðalsjóður Ark skilað fjárfestum feiknagóðri ávöxtun og fór upp í u.þ.b. 150% árið 2020, en það tók að halla undan fæti á síðasta ári þegar sjóðurinn skrapp saman um nærri fjórðung. Ef miðað er við byrjun árs 2020 eru hluthafar Berkshire núna á ósköp svipuðum stað og þeir sem fjárfestu í Ark á sama tímabili.

Bendir FT á að það sem af er janúar hafi hlutabréfaverð Berkshire hækkað um u.þ.b. 2% en aðalsjóður Ark lækkað um 24%. Frá ársbyrjun 2021 til síðastliðins föstudags mælist lækkun nýsköpunarsjóðs Ark 43% en Berkshire hefur styrkst um 34% á sama tíma.

Ekki sömu lætin
» Loftið virðist vera að fara úr framsæknu fyrirtækjunum en virðisfyrirtækin sækja í sig veðrið.
» Berkshire Hathaway á góðri siglingu á meðan Ark sekkur.
» Fyrirtæki sem nutu góðs af inniveru fólks í faraldrinum sjá núna fram á breytta hegðun.