Tryggvi Garðar Valgeirsson fæddist 18. mars 1965. Hann lést 5. janúar 2022.

Tryggvi var jarðsunginn 20. janúar 2022.

Hann elskulegi vinur minn Tryggvi Valgeirsson er látinn. Hann lést hinn 5.janúar síðastliðinn eftir skamma sjúkdómslegu langt um aldur fram. Ég fékk þessar sorglegu fréttir frá vinnufélögum hans í HljóðX að Tryggvi hefði kvatt þennan heim deginum áður. Ég var virkilega sorgmæddur við að heyra þessar ógæfufréttir, hann var mér mjög kær vinur.

Tryggva kynntist ég fyrir tæpum 40 árum, væntanlega í Sölunefnd varnarliðseigna þegar ég gaf mig á tal við hann, en við áttum það til báðir að taka reglulega stofuganginn þar ef ske kynni að við fyndum einhvern hagnýtan búnað sem við gætum nýtt okkur. Ég man eftir Tryggva á útvarpsstöðinni Stjörnunni sem þá var til húsa í Sigtúni, þá var Tryggvi aðeins um 25 ára en hann vann við að taka niður tækjabúnaðinn því að flytja átti hann yfir á Íslenska útvarpsfélagið, Bylgjuna, vegna samruna. Það var á þeim árum sem Tryggvi var með sítt að aftan og tók rispu á trommusettinu sínu. Tryggvi fylgdi aðallega FM 95,7 sem tæknimaður þeirrar útvarpsstöðvar allt þangað til hún sameinaðist Fínum miðli í Aðalstræti. Eitt skipti þegar ég var í heimsókn hjá Tryggva kom CJ, framkvæmdastjóri stöðvarinnar og vinur, inn til okkar og spurði Tryggva hvort hann sæi sér nú ekki fært að taka til á vinnuborðinu því að Tryggva-landslagið á vinnuborðinu hans væri orðið nokkuð hæðótt, en svona þekkti ég vinnuborðin hans frá fyrstu tíð.

Eftir að Fínn miðill hætti tók Tryggvi að sér ýmis verktakastörf, viðgerðir og að setja upp hljóðkerfi. Þannig byrjaði hann að starfa fyrir HljóðX sem tæknimaður þar.

Tryggvi okkar var alveg einstakur maður, viðfelldinn og hjálpsamur fram í fingurgóma og neitaði aldrei nokkrum manni um aðstoð sína, hann var algjör perla.

Verkefnin hans Tryggva voru mjög fjölbreytt. Hann fór í rafeindavirkjunarnámið en það sat á hakanum þar sem hann var ætíð hlaðinn verkefnum og það langt fram á kvöld og helgar. Hann kláraði sveinsprófið 2009. Tryggvi var háttskrifaður meðal allra í útvarpsstöðvageiranum. Ef sérstök tæknivandamál bar að garði var gjarnan hóað í Tryggva og hann fenginn til að leysa málið. Tryggvi var einnig einkar fær í að leysa tæknivandamál í kringum tölvur. Hann bæði vann og aðstoðaði mig við verkefni sem tengdust mér í útvarpsgeiranum og Hvalfjarðargöngunum. Síðast starfaði Tryggvi hjá HljóðX. Eins og alltaf leysti hann öll sín verkefni með sóma, hvort sem um var að ræða uppsetningu á hljóðkerfum, hljóðblöndun á hljómsveitum þegar atburðir voru í gangi eða annað tilfallandi. Alltaf var hægt að treysta á hann Tryggva.

Okkar síðustu samskipti voru þegar ég hringdi í hann rétt fyrir jól til að óska honum gleðilegra jóla. Við spjölluðum saman, það lá vel á honum eins og ætíð.

Það er mér sérstakur heiður að hafa fengið að kynnast Tryggva og njóta hans elskulegu vináttu í gegnum tíðina. Að lokum vil ég nota tækifærið og senda honum Kristjáni syni Tryggva og bræðrum hans þeim Stefáni og Braga og öðrum ættingjum og vinum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Hans-Konrad Kristjánsson.