Eldstöð Ljósufjöll standa upp úr vesturenda Snæfellsnesbrotabeltisins.
Eldstöð Ljósufjöll standa upp úr vesturenda Snæfellsnesbrotabeltisins. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur S. Blöndal baldurb@mbl.is Vart hefur orðið við skjálftahrinur á tveimur stöðum Vesturlandi að undanförnu. Að mati Páls Einarssonar, prófessors í jarðeðlisfræði, eru þær báðar tvær verð rannsóknarefni og áhugaverðir atburðir.

Baldur S. Blöndal

baldurb@mbl.is

Vart hefur orðið við skjálftahrinur á tveimur stöðum Vesturlandi að undanförnu. Að mati Páls Einarssonar, prófessors í jarðeðlisfræði, eru þær báðar tvær verð rannsóknarefni og áhugaverðir atburðir.

Önnur þeirra hófst í desember en upptök hennar má rekja til róta Sandfells um átta kílómetrum sunnan við Búrfell. Hún er sú stærsta á svæðinu síðan mælingar Veðurstofu hófust en Páll segir hana þó fremur smáa í sögulegu samhengi:

„Það var skjálftahrina í Borgarfirði árið 1974 sem var töluvert stærri og stóð í marga mánuði. Þar fóru stærstu skjálftarnir yfir fimm stig, þeir skjálftar voru miklu stærri en þessir. Það voru innflekaskjálftar sem stöfuðu af þenslu í jarðskorpunni en sennilega ekki neinum kvikuhreyfingum.“

Páll telur sömu skýringu líklega eiga við um núverandi hrinu á sama innfleka.

„Þetta er ekki eldvirkt svæði. Engin ástæða er til þess að ætla að þetta sé tengt kvikuhreyfingum. Þetta er líklega ein af þessum innskjálftahrinum, sem við fáum nú annað slagið. Þetta er inni í fleka, þetta er ekki á flekaskilum, og heldur ekki á eldgosabelti Snæfellsness,“ segir Páll.

Átta mánaða skjálftahrina gæti tengst kvikuhreyfingum

Hin skjálftahrinan hefur verið í Ljósufjallakerfinu á Snæfellsnesi, skammt austur af Grjótárvatni, en hún hefur staðið yfir frá því í maí á síðasta ári. Hrinan er á gosbelti Snæfellsness en þar er eldvirkni og því líklegra að hræringarnar megi rekja til kvikuhreyfingar undir yfirborðinu.

„Það eru þrjú virk eldstöðvakerfi þar, sem þýðir að þau hafa gosið á síðastliðnum tíu þúsund árum. Síðasta gos var í Rauðhálsum á landnámsöld eða skömmu eftir landnám,“ segir Páll en að hans mati er alls ekki ólíkegt að kvika undir yfirborðinu hafi komið svæðinu á hreyfingu.

Eldstöðvarnar ekki á áætlun

Páll segir ekki rétt að tala um að eldstöðvar séu komnar á tíma þar sem þær fari ekki eftir neinni tímaáætlun:

„Það er vænlegast í því tilfelli að stunda eftirlit og sjá bara hvað er að gerast hverju sinni og reyna að skilja það fremur en að nota einhver tímaviðmið.“

Þó svo að hrinan myndi halda áfram eða ágerast telur Páll ekki efni til þess að örvænta:

„Þetta eru nú ekki stórhættulegir atburðir. Eldgos á þessu svæði eru frekar lítil og meinlaus.“