Þórshöfn Áform um afléttingar takmarkana voru kynnt þar á föstudag.
Þórshöfn Áform um afléttingar takmarkana voru kynnt þar á föstudag. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sonja Sif Þórólfsdóttir sonja@mbl.is

Baksvið

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is

Rúm vika er frá því að ríkisstjórn Íslands herti verulega sóttvarnareglur hér innanlands til þess að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins. Viðraðar voru miklar áhyggjur af álagi á heilbrigðiskerfið, en Landspítali hefur verið á neyðarstigi í að verða mánuð. Síðan hertar reglur tóku gildi hefur smitfjöldi haldist nokkuð stöðugur og á bilinu 1.200 til 1.500 greinst á hverjum degi. Í flestum nágrannaríkjum Íslands hafa stjórnvöld gefið það loforð að afléttingar séu í augsýn. Á Íslandi hafa engin slík áform verið opinberuð þótt Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítala, hafi greint frá því í gær að til stæði að skoða afléttingar með sóttvarnalækni í vikunni.

Byrja í þessari viku

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands sagði í síðustu viku að ríkisstjórnin myndi byrja að létta á sóttvarnareglum í þessari viku. Þá verður létt á grímuskyldu, hætt að fara fram á bólusetningarvottorð og stjórnvöld ráðleggja fólki ekki lengur að vinna heiman frá sér. Á Írlandi er sömu sögu að segja; varaforseti landsins, Leo Varadkar, sagði afléttingar í sjónmáli og gott væri að miða við 31. mars. Hann ítrekaði þó að ríkisstjórnin gæti framlengt aðgerðir ef staðan breyttist. Þar verður hætt að fara fram á bólusetningarvottorð en hlutfall fullbólusettra á Írlandi er eitt það hæsta á heimsvísu og helmingur hefur nú þegar fengið örvunarskammt. Þá er einnig stefnt að því að enda grímuskyldu.

Ómíkron breytt stöðunni

Ómíkron er nú ríkjandi afbrigðið í flestum löndum heimsins. Afbrigðið er meira smitandi en fyrri afbrigði en á sama tíma veldur það ekki jafn alvarlegum veikindum. Þrátt fyrir gríðarlegan fjölda smita í öllum löndum hefur innlagnatíðni á sjúkrahús ekki hækkað og því álag á heilbrigðiskerfi landa ekki verið jafn mikið og fyrst var spáð skömmu eftir að afbrigðið greindist fyrst.

Á Norðurlöndunum er sama staða. Þar stefnir allt í afléttingar á þeim grundvelli að ómíkron-afbrigðið hafi ekki reynst eins skætt og fyrri afbrigði, þótt afar smitandi sé.

Eftir mánuð af hörðum sóttvarnareglum í Danmörku hafa kvikmyndahús, söfn og fleiri menningarstofnanir verið opnuð aftur að fullu. Gerði ríkisstjórn landsins það á þeim grundvelli að innlagnatíðni, og þá sérstaklega á gjörgæsludeild sjúkrahúsa, hefur snarlækkað á sama tíma og smittölur hafa verið á uppleið. Þá mega áhorfendur aftur koma á kappleiki í íþróttum þótt það sé háð fjöldatakmörkunum.

Þurfa ekki að sæta sóttkví

Í Noregi eru stjórnvöld nú þegar byrjuð að feta sig í átt að slakari sóttvarnareglum. Þar hefur banni við sölu á áfengi á veitinga- og skemmtistöðum verið aflétt og nú má selja áfengi til ellefu á kvöldin. Þá eru enn nándartakmarkanir, samkomutakmarkanir og grímuskylda í gildi. Á skipulögðum viðburðum eru samkomutakmarkanir slakari og mega allt að 200 koma saman í númeruð sæti. Þeir sem verða útsettir fyrir smiti þurfa ekki lengur að sæta sóttkví heldur er fólki ráðlagt að fara í skimun á þriðja og fimmta degi og fylgjast með einkennum næstu tíu dagana. Þá er fólk enn hvatt til að vinna heima og viðburðahaldarar hvattir til að taka niður nöfn og símanúmer hjá gestum vegna smitrakningar.

Í Svíþjóð eru vægar sóttvarnareglur í gildi en reglum um sóttkví hefur verið breytt til þess að manna heilbrigðiskerfið. Sóttkví varir nú aðeins í fimm daga, þeir sem hafa fengið örvunarskammt þurfa ekki að fara í sóttkví og ekki heldur þeir sem teljast til framlínustarfsmanna í heilbrigðiskerfinu. Fjöldi smita hefur verið á uppleið í landinu og er ómíkron-afbrigðið þar ríkjandi.

Aflétta öllu fyrir lok febrúar

Lögmaður Færeyja, Bárður á Steig Nielsen, tilkynnti á föstudag að í Færeyjum yrði öllum takmörkunum aflétt í lok febrúar. Ákvörðunin er tekin á þeim grundvelli að faraldurinn hafi lítil áhrif á sjúkrahús og aðra innviði samfélagsins. Nú mega hundrað koma saman. Búið er að gefa út nákvæma áætlun um hvernig afléttingum verður háttað næstu fimm vikurnar. Hinn 1. febrúar má opna veitinga- og skemmtistaði á ný og afgreiðslutími færður í fyrra horf. Reglum um sóttkví verður breytt og smitrakning lögð niður.

Um miðjan mánuð þarf fólk ekki lengur að sæta sóttkví nema ef um smit er að ræða. Bárður sagði í viðtali við Kringvarpið að þótt skrefið væri djarft væri mikilvægt að gefa út áætlanir þótt þær gætu breyst.

Þess má geta að 616 smit greindust í Færeyjum sama dag og áformin voru kynnt, sem miðað við íbúafjölda myndi jafngilda rúmlega 4.500 smitum hér á landi á einum degi.