Jóhanna Kristín Kristjánsdóttir fæddist í Reykjavík 26. mars 1942. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð – Sandgerði á Akureyri 11. janúar 2022.

Móðir hennar var Vigdís Kristjánsdóttir, f. 29.3. 1924, d. 20.4. 1945. Kjörforeldrar hennar voru Kristján Egilsson, f. 9.1. 1897, í Haukadal, d. 29. 12. 1970 og Jóhanna Jakobsdóttir, f. 31.8. 1899, frá Ásgarðsnesi, d, 21.4. 1980.

Uppeldissystkini Jóhönnu voru: Sigurður, f. 9.6. 1919, d. 27.9. 1985, Þórey, f. 27.5. 1921, d. 19.6. 2005, Jóhann, f. 4.10. 1922, d. 10.1. 1987, Egill Jón, f. 20.10. 1925, d. 14.8. 1991, Stúlka Kristjánsdóttir, f. 25.12. 1926, d. 12.2. 1927, Dýrleif, f. 23.5. 1930, Haraldur Alfreð, f. 2.11. 1934, d. 21.2. 2020, og Einar Oddur, f. 20.12. 1941, d. 21.5. 1998.

Fyrrverandi sambýlismaður Jóhönnu var Kristján B. Thompson, f. 26.1. 1942, d. 31.8. 2012. Barn þeirra er Helena Vigdís, f. 13.2. 1964, maki Óskar, f. 6.8. 1965. Barn Helenu er Berglind, f. 18.7. 1984, barn hennar er Helena Ósk, f. 13.8. 2013, maki Berglindar er Hafþór, f. 6.3. 1981, börn hans eru Viktor, f. 30.8. 2002, og Ásta María, f. 16.11. 2008. Börn Helenu og Óskars eru Andri Már, f. 18.9. 1991, og Jóhanna Klara, f. 25.7. 2005, barn Andra er Benedikt Anton, f. 18.11. 2012, maki Andra er Helena Rún, f. 15.11. 1992, barn Helenu er Kristófer, f. 13.8. 2010, barn þeirra er Gabríela Von, f. 16.10. 2021.

Eiginmaður Jóhönnu var Magnús R.G. Jónsson, f. 18.1. 1937, d. 8.10. 1988. Börn hans eru Egill Þór, f. 9.11. 1959, maki hans er Guðbjörg Baldvina, f. 25.6. 1959, börn þeirra eru María, maki hennar er Ásgeir Ingi, f. 15.4. 1995, og Íris Egilsdóttir, f. 10.8. 2000. Konráð Þór, f. 31.1. 1961, börn hans eru Guðmundur Orri, f. 19.12. 1986, Magni Þór, f. 6.7. 1989, og Haukur Snær, f. 30.9. 2000. Ingibjörg, f. 11.12. 1964.

Börn Jóhönnu og Magnúsar eru: Kolbrún Erna, f. 12.5. 1968, maki Ottó Hörður, f. 22.11. 1965, börn Kolbrúnar eru Karen Lind, f. 2.9. 1992, maki hennar Gestur Kristján, f. 2.10. 1990, börn þeirra eru Birta Sól, f. 21.12. 2015, og Ísak Rökkvi, f. 25.6. 2018. Hildur Björk, f. 25.11. 1994, maki hennar er Andri Freyr, f. 20.6. 1991, og barn þeirra er Amanda Yrja, f. 5.6. 2020. Ingunn Magnea, f. 4.9. 1998, maki hennar Baldur, f. 25.4. 1996. Erla Sigríður, f. 31.3. 1971, unnusti Erlu er Kjartann, f. 12.12. 1966. Börn Erlu eru Magnús Alexander, f. 28.9. 1999, og Elvar Freyr, f. 23.5. 2002, stjúpdóttir Erlu er Indíana, f. 13.5. 1993.

Útförin fer fram frá Höfðakapellu á Akureyri í dag, 24. janúar 2022, kl. 13. Streymt verður frá útför.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Ég á svo margar góðar minningar um þig elsku mamma mín. Þú varst falleg, traust, umburðarlynd og hlý.

Fyrstu minningarnar mínar eru úr Þórufellinu þegar þið pabbi gáfuð mér rauðu stígvélin, ég þá tveggja ára, svo ánægð sullandi í rigningarbollunum í nýju stígvélunum. Þið pabbi ákváðuð að þú yrðir heimavinnandi á meðan við vorum yngri, það var svo gott að koma heim eftir skóla, þú tókst alltaf svo vel á móti okkur, alltaf brasandi eitthvað gott í eldhúsinu, við sátum ófáar stundirnar við eldhúsborðið á meðan og lærðum. Ég man sérstaklega eftir þegar þú bakaðir tebollurnar þínar, ég elskaði þær og geri enn. Þá sjaldan eitthvað var keypt með kaffinu þá var það möndlukaka eða normalbrauð. Ég minnist einnig allra fermingarveislnanna sem þú hélst fyrir okkur öll, þú varst svo einstök og vildir allt fyrir okkur gera. Þið pabbi keyptuð lóð á Þingvöllum og saman byggðuð þið bústað, þið keyptuð lóð í Seljahverfinu, þar byggðuð þið fallegt einbýlishús. Við fluttum í Kópavoginn, þar bjuggum við í fjögur ár, þaðan fluttum við til Akureyrar. Þú varst alltaf svo dugleg í höndunum, þú elskaðir að prjóna, varst svo vandvirk, þú elskaðir einnig að hlusta á fallega tónlist. Ég er svo þakklát fyrir allar okkar samverustundir, allan þinn styrk, og allan þinn stuðning þegar á móti blés. Það er með söknuði sem ég kveð þig elsku mamma mín, ég trúi því að nú sértu hjá pabba.

Hvíl í friði elsku mamma.

Kolbrún Erna.

Þegar sólin lækkar á lofti og skuggarnir teygja sig lengra og lengra þá daprast ósjálfrátt hugsun okkar, því það vill fylgjast að, sól og létt hugsun, og svo gagnkvæmt, skuggi og lægð í vitund. Við þurfum að reyna að halda sólinni í sálinni þótt dimmviðri sé í lífinu, en það getur verið erfitt þegar dauðinn knýr á dyr vinar. Þá er gott að hafa þá vissu sem Lilla hafði að við lifum að þessu lífi loknu.

Minningarnar eru ótal margar og góðar sem leita á hugann þegar traust og yndisleg vinkona fellur frá. Lilla, eins og hún var kölluð af æskufélögunum, ólst upp hjá ömmu sinni og afa og bar nöfn þeirra, Jóhanna Kristín. Hún missti móður sína þegar hún var tveggja ára gömul. Faðir hennar var breskur. Við ólumst upp í sama stigagangi og hún átti heima beint fyrir ofan mig. Amma hennar og móðir mín voru góðar vinkonur.

Á unglingsárunum minnist ég allra skemmtilegu ferðanna til Þingvalla þar sem við tjölduðum og nutum þess að vera úti í náttúrunni á þessum fallega stað. Æskuárin liðu alltof fljótt og við tók alvara lífsins. Aldrei slitnaði samband okkar þó svo að vík væri á milli okkar. Við heimsóttum hvor aðra, þegar við gátum, þó svo að það tæki okkur fimm klukkustundir að aka á milli. Auðvitað notuðum við tæknina, bæði símann og tölvuna, en okkur þótti báðum skemmtilegra að hittast augliti til auglitis og þá voru stundum rifjuð upp æskuárin og mikið hlegið. Við bentum hvor annarri á góðar bækur og síðan voru oft skemmtilegar umræður um lesefnið.

Lilla var mikil húsmóðir. Snyrtilega og fallega heimilið hennar bar vott um það. Útsaumaðar myndir og púðar skreyttu heimili hennar og fyrir utan það prjónaði hún mikið. Öll hennar handverk eru listaverk. Hún var snillingur í prjónalist og iðulega leitaði ég til hennar þegar ég var komin í strand með mynstur og ég spurði stundum of oft um skýringu, en hún þekkti sína vinkonu og vissi að ég þurfti að sannfærast upp á 110, svo hún svaraði mér stundum svona: „Erla mín, nú þegir þú og prjónar.“

Við Lilla áttum fallegan vinskap í 75 ár. Eiginmaður Lillu, Magnús Ragnar Jónsson, féll frá 1988 aðeins 51 árs. Lilla og Magnús eignuðust tvær dætur, Kolbrúnu og Erlu, og með fyrri manni sínum eignaðist hún dótturina Helenu. Lilla átti við veikindi að stríða síðustu árin en hún stóð ekki ein þar sem dætur hennar hlúðu að henni af einstakri ástúð og alúð. Minning hennar mun lifa í mínu hjarta.

Erla S. Sig.