Takmarkanir Ástandið á LSH er viðráðanlegt og afléttingar tímabærar.
Takmarkanir Ástandið á LSH er viðráðanlegt og afléttingar tímabærar. — Morgunblaðið/Eggert
Gunnhildur Sif Oddsdóttir Veronika Steinunn Magnúsdóttir Sonja Sif Þórhallsdóttir Runólfur Pálsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs og yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítalans, segir að nú verði Landspítali og stjórnvöld að bregðast hratt við breyttum...

Gunnhildur Sif Oddsdóttir

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

Sonja Sif Þórhallsdóttir

Runólfur Pálsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs og yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítalans, segir að nú verði Landspítali og stjórnvöld að bregðast hratt við breyttum aðstæðum. Ljóst sé að ráðast verði í afléttingar og telur hann ákjósanlegast að það verði gert í takt á Landspítala og í samfélaginu.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítala, sendu frá sér grein á Vísi í gær þar sem þau sögðu að afléttingar á sóttvarnaaðgerðum væru fram undan.

„Mér líst ágætlega á stöðuna og ég er sammála því sem kom fram í grein Willums og Guðlaugar. Ég held að við þurfum að leggjast í mikla vinnu um það hvernig best er að aflétta þessu. Bæði úti í samfélaginu en líka hvernig við getum breytt viðbragði okkar á Landspítala til að ráða við starfsemina og þau smit sem verða áfram,“ segir Runólfur í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir helsta vandann vera veikindi starfsfólks Landspítala. Einnig liggi vandinn í smitum sem koma upp innan deilda á spítalanum og fólks sem leitar þangað og reynist svo smitað.

„Við verðum að bregðast hratt við og vinna að afléttingum bæði á Landspítala og í samfélaginu. Ég er alveg sammála því sem hefur komið fram. Veikindin eru miklu vægari hjá þeim sem smitast af ómíkron-afbrigðinu. Það er ekki réttlætanlegt að vera með svona harðar takmarkanir.“

„Ráðum þokkalega vel við ástandið“

„Við erum með spítalann á neyðarstigi og ráðum þokkalega vel við ástandið eins og staðan er núna, enda vorum við vel undirbúin. Þetta gerist ekki af sjálfu sér,“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir forstjóri Landspítala. Staðan á spítalanum bendir til þess að ráðast megi í afléttingar. Hún segir að svartsýnustu spár hafi ekki ræst, þrátt fyrir býsna mörg smit í samfélaginu.

„Nú verður að taka stöðuna í næstu viku með sóttvarnalækni og ræða um hvernig verður hægt að bæta stöðuna út frá mörgum hliðum. Ég geri ráð fyrir að því verði haldið áfram í næstu viku og við sjáum bara áfram hver næstu skref verða.“ Samstarf spítalans við aðrar stofnanir hafi gengið vel en tvö hundruð starfsmenn eru í einangrun og það hefur mikil áhrif, að sögn Guðlaugar. Ekki er þó grundvöllur fyrir því að stytta einangrun, að hennar mati. Næstu vikur ættu að skera úr um framhaldið.

Enginn með örvunarskammt þurft að leggjast á gjörgæslu

„Enginn sjúklingur með örvunarskammt hefur þurft að leggjast inn á gjörgæslu á Íslandi, það held ég að séu áhugaverðar niðurstöður,“ segir Martin Ingi Sigurðsson, prófessor og yfirlæknir í svæfinga- og gjörgæslulækningum á Landspítala. Martin er hluti af rannsóknarhópi Landspítala sem hefur unnið saman allan faraldurinn, þvert á sérgreinar. Niðurstöður rannsóknarinnar eru af þrennum toga. Í fyrsta lagi segir Martin að bólusetningarnar skipti sköpum og gríðarlega mikil vernd sé í bóluefnum gegn alvarlegum veikindum og gegn því að leggjast inn, þannig sé áhætta 85 ára einstaklings sem hefur þegið örvunarskammt sú sama og 57 ára óbólusetts einstaklings. Frá 45 ára aldri aðgreini hóparnir sig, þeir sem eru bólusettir og þeir sem ekki eru bólusettir. Þá virðist hópurinn sem þegið hefur örvunarbólusetningu mjög verndaður gegn því að leggjast inn á spítala.

Rímar við tilfinninguna

Í öðru lagi hafa verið miklu minni líkur á að leggjast inn eftir að ómíkron-afbrigðið varð allsráðandi. Hópurinn hefur ekki ennþá fullan aðgang að gögnum um hvaða afbrigði hver einstaklingur hefur en þau vita þó að frá um það bil 15. des var ómíkron algjörlega ráðandi í smitmynstrinu. „Þannig að ef við berum saman þá sem lögðust inn fyrir og eftir 15. desember og skoðum þá hópa sérstaklega sjáum við að í öllum hópum, bæði aldurshópum og í mismunandi bólusetningarhópum, eru miklu minni líkur á að leggjast inn eftir þann tíma þegar ómíkron er orðið algjörlega ráðandi. Það eru mjög góðar fréttir og kannski ríma við tilfinninguna sem maður hefur,“ segir Martin.

Í þriðja lagi er staðan á gjörgæslu mjög breytt, hlutfall þeirra sem leggjast inn sem þarfnast gjörgæsluinnlagnar hefur lækkað verulega og eins og áður segir hefur enginn sjúklingur sem hefur þegið örvunarskammt þurft að leggjast inn á gjörgæslu í faraldrinum.

„Þetta er tilkomið bæði vegna bólusetningarstöðu þjóðfélagsins og markvissari og betri meðferðar á göngudeild og legudeildum, sem og tilkomu ómíkron-afbrigðisins.“