[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.is Jón Atli Benediktsson rektor HÍ segir að háskólinn sé enn staðráðinn í að sækja bótamál vegna vatnslekans í háskólanum af hörku.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Jón Atli Benediktsson rektor HÍ segir að háskólinn sé enn staðráðinn í að sækja bótamál vegna vatnslekans í háskólanum af hörku. Á föstudag var liðið ár frá því 60 ára gömul vatnslögn við Suðurgötu gaf sig svo mikið vatnstjón varð, þar sem Háskólatorg og Gimli urðu verst úti. Enn er beðið eftir matsskýrslum svo hægt verði að hefja endurbætur á húsnæðinu.

„Þetta hefur reynt gríðarlega mikið á í Háskólanum að verða fyrir þessu tjóni, fyrir starfsemina, nemendur og starfsfólk. Það er núna liðið ár og við erum enn þá að bíða eftir niðurstöðum um mat á tjóninu. Við vonuðumst til þess að geta tekið allar þessar stofur í notkun upp úr áramótum,“ segir hann en útlitið hafi verið ágætt á tímabili.

Eftir að skólastjórnendur fá skýrslu dómkvaddra matsmanna í hendurnar verður fyrsta verkefnið að fara yfir hana og sjá hvað setur. „Við munum sækja það af mikilli hörku að fá þetta bætt,“ segir Jón Atli í lokin.