Guðný Kristjánsdóttir fæddist 12. ágúst 1949. Hún lést 24. desember 2021.

Útför Guðnýjar fór fram 21. janúar 2022.

Hvar skal byrja þegar minnast á svo mikilvægrar manneskju sem hún Guðný frænka mín og nafna var? Hún var stór þótt hún væri ekki há í loftinu. Hún var höfuð fjölskyldunnar.

Guðný var mikil handverksmanneskja og dugnaðarforkur sem miklaði ekkert fyrir sér þegar kom að saumaskap, smíðum eða öðru handverki. Hún var listamanneskja og fagurkeri. Hún var einn besti kokkur sem ég hef kynnst. Og alltaf var allt smekklega gert, sama hvað það var. Svo var hún pæja til síðasta dags. Hún var laumufyndin. Hún var mikil pjattrófa og dulítil tepra og því gaman að ganga örlítið fram af henni til að stríða henni aðeins. Þegar ég hugsa um Guðnýju frænku er það fyrst og síðast traust sem kemur aftur og aftur upp í hugann. Hún var traustur klettur fjölskyldu sinnar. Ekki bara dætra sinna og barnabarna heldur stórfjölskyldunnar allrar. Hún var sérlega ættrækin og sinnti sínu fólki af natni, heilindum og hlýju. Henni var ekkert mannlegt óviðkomandi og ef einhver þurfti aðstoðar við var Guðný komin til að leggja sitt til. Við ættingjar hennar eigum henni margt að þakka. Hún var alltaf til staðar fyrir sitt fólk. Það er stórt. Hún skilur eftir skarð sem enginn getur fyllt upp í og fjölskylda hennar hefur misst bandamann og höfðingja. Það er stórt.

Ég veit að henni verður fagnað hinum megin, fögnum því.

Guðný Önnudóttir.