Egill Örn Sigurjónsson framleiðandi og Stefán Þór Björnsson fjármálastjóri. Á myndina vantar Stefán Gunnarsson.
Egill Örn Sigurjónsson framleiðandi og Stefán Þór Björnsson fjármálastjóri. Á myndina vantar Stefán Gunnarsson. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Gengi bréfa Solid Clouds hefur sveiflast þónokkuð frá því það var skráð á First North-markaðinn fyrir minni vaxtarfyrirtæki í júlí árið 2021, fyrst tölvuleikjafyrirtækja.

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is
Gengi bréfa Solid Clouds hefur sveiflast þónokkuð frá því það var skráð á First North-markaðinn fyrir minni vaxtarfyrirtæki í júlí árið 2021, fyrst tölvuleikjafyrirtækja.
Útboðsgengi félagsins var 12,5 krónur á hlut en féll fljótlega niður í átta krónur og fór neðst í sjö krónur á hlut í nóvember sl. Í janúar fór félagið aftur upp í útboðsgengi sitt en er nú skráð á 11,9 krónur.

Eins og forsvarsmenn félagsins benda á þá ber að hafa í huga að flestir einstaklingsfjárfestar fengu skattaafslátt sem nemur um 30% af fjárfestingunni. Markaðsvirði félagsins er í dag um 2,2 milljarðar króna.

„Núna er öll athygli okkar á nýja leiknum, Starborne: Frontiers, sem við sjáum fyrir okkur að verði góður tekjustofn fyrir félagið,“ segir Stefán Gunnarsson, framkvæmdastjóri félagsins, í samtali við ViðskiptaMoggann. Einnig ræddi blaðið við þá Stefán Þór Björnsson fjármálastjóra og Egil Örn Sigurjónsson, framleiðanda Frontiers.

Gott skref að fara á markað

Aðspurður segist Stefán vera mjög ánægður með veruna á hlutabréfamarkaði. Skráningin hafi verið gott skref fyrir félagið og hluti af langtímamarkmiðum þess.

Eins og Stefán útskýrir gengur viðskiptahugmyndin að baki Solid Clouds út á að byggja grunn til að smíða margar mismunandi vörur ofan á. Allt hágæða fjölspilunarleiki fyrir PC-tölvur og snjalltæki. Það verði gert hraðar og betur en önnur fyrirtæki geti gert. Í fyrra setti félagið til dæmis á markað leikinn Starborne: Sovereign Space og hafði af honum þónokkrar tekjur. Dregið var úr markaðsetningu leiksins á síðasta ári þar sem félagið vildi einbeita sér að framleiðslu Frontiers. Samfara því minnkuðu tekjurnar. „Við viljum vera með marga tekjustofna. Það er viðskiptamódel okkar. Það að vera skráð fyrirtæki opnar síðan ýmis viðskiptatækifæri fyrir okkur í framtíðinni.“

Féð hefur nýst vel

Spurður um hvernig þær 725 milljónir króna sem félagið safnaði í hlutafjárútboðinu á síðasta ári hafi nýst félaginu segir Stefán þær hafa komið að góðum notum. „Við höfum nægt fjármagn til að klára vöruna. Bæði þróunarteymið og listræna teymið eru fullmönnuð en framtíðarráðningar okkar snúast í kringum markaðsmálin. Þar þurfum við að fá fleiri sérfræðinga sem kunna að ná athygli sem flestra spilara. Við þurfum starfsfólk sem kann að nýta markaðsfjármagn vel,“ segir Stefán og ítrekar að mikil vísindi séu á bak við markaðssetningu tölvuleikja eins og þeirra sem Solid Clouds þróar.

Stefán segir að þeir sem standi sig best í markaðssetningu tölvuleikja setji um 40% af tekjum í að ná í nýja spilara. „Ef þú eyðir til dæmis tveimur dölum í að ná í spilara sem eyðir svo fimm dölum í leiknum er það mjög góður árangur. Markaðssetning er fjárfesting og hún þarf að skila arði.“

Óskastaða að fá 8-10 félög

Stefán Þór segir að óskastaðan væri að fá 8-10 tæknifyrirtæki inn í íslensku kauphöllina. Það komi bæði fyrirtækjunum og fjárfestum betur og markaðurinn verði sterkari, meira lifandi og fjölbreyttari fyrir vikið.

Stefán segist vita til þess að nokkur fyrirtæki í geiranum séu að skoða skráningu mjög alvarlega.

„Okkar skráning á markað opnaði augu mjög margra. Það var svona „aha móment“ hjá meira en tíu fyrirtækjum,“ bætir hann við. „Það er spennandi fyrir okkur að fá að taka þátt í að móta First North-markaðinn hér á landi. Í Svíþjóð koma tugir sprotafyrirtækja á markað á hverju ári en Stokkhólmur er orðinn Mekka nýsköpunar í Evrópu. Tildrögin að skráningu okkar hér á Íslandi voru einmitt þau að okkur bauðst að fara á markað í Stokkhólmi en við völdum Ísland þar sem það var ódýrara og skráningarferillinn hraðari.“

Að sögn þeirra Stefáns og Stefáns Þórs eru núna sex veigameiri tuttugu plús manna tölvuleikjafyrirtæki starfandi á Íslandi. Það sé mikil breyting frá því fyrir nokkrum árum þegar CCP var nánast eina tölvuleikjafyrirtæki landsins. „Á næsta ári gætu þau tímamót orðið að fjöldi þeirra sem vinna í hérlendum tölvuleikjabransa verði samtals meiri en hjá CCP.“

Samkvæmt áætlun Icelandic Game Industry, IGI, sem Stefán Þór vísar til, voru samtals 435 starfandi í greininni í lok árs 2021.

Stefán og Stefán Þór eru ánægðir með stuðning yfirvalda við tækniiðnaðinn sem hafi skilað sér í auknum krafti í sprotasamfélaginu. „Hátækniiðnaðurinn er það sem öll alvöruríki eru að veðja á í dag. Helsta áhyggjuefnið næstu árin er skortur á menntuðu fólki. Því sterkari sem við verðum í hátækniiðnaðinum því betur erum við sem samfélag í stakk búin til að takast á við framtíðina.“

Tvö þúsund prófuðu

Egill segir að undirbúningur að útgáfu Frontiers síðar á árinu gangi vel. Nýverið hafi tvö þúsund asískir spilarar prófað leikinn og út úr því hafi komið verðmæt gögn sem nýtist til að breyta og bæta leikjaupplifunina.

„Þar sjáum við hvernig leikurinn spilast í ótal mismunandi gerðum snjalltækja og tölva og einnig sjáum við hvernig miðlurum okkar gengur að ráða við mikinn fjölda spilara í einu,“ segir Egill og bætir við að prófanir fari einnig fram í húsakynnum Solid Clouds. „Við munum líklega senda frá okkur stóra útgáfu af leiknum á miðju árinu sem ætti að innihalda flesta þá virkni sem verður í endanlegri útgáfu hans. Við stefnum að því að gefa leikinn út síðar á árinu.“

Eins og Stefán minntist á hér að framan hefur Frontiers-leikurinn mun meiri tekjumöguleika en Sovereign Space. Ástæðan er sú að í Sovereign Space geta spilarar keypt sér forskot á aðra spilara. „Það getur hleypt illu blóði í menn og þeir hætta þá að spila. Í Frontiers er þessu öðruvísi farið því í staðinn fyrir að kaupa þér forskot á aðra spilara, þá geturðu eytt peningum í að bæta þína færni. Þetta er flókið jafnvægi, en trikkið er sem sagt að þróa leikinn þannig að þú getir eytt eins miklum peningum og þú vilt án þess að það hafi mikil áhrif á mótspilara þína.“

Eins og kom fram í útboðsgögnum Solid Clods er markmiðið að þrjú prósent nýrra notenda verði borgandi spilarar og kaupi sér vörur í leiknum. Í fyrstu gæti það virst lág prósentutala, en það er öðru nær, eins og Stefán útskýrir. „Það er rosalega há prósenta,“ segir Stefán og brosir. „Ef við náum því verðum við í heimsklassa.“